Saga - 2010, Blaðsíða 244
árið 1593 og heldur að hann hafi kveðið á um að framvegis hefðu veraldleg
yfirvöld ein dómsvald yfir hjónaböndum og giftingum (128–9, 149, 207,
426). Stóridómur laut einungis að barneignum utan hjónabands, allt frá
alvarlegustu brotum náskyldra eða mægðra einstaklinga, sem áttu að týna
lífi fyrir, að einföldum frillulífisbrotum ógiftra og ótengdra einstaklinga. Sú
breyting varð hins vegar á skipan mála með Stóradómi að sýslumenn hirtu
sektir sem kirkjan fékk áður. Um þetta hefur undirritaður skrifað í löngu
máli (Blóðskömm á Íslandi 1270–1870. Reykjavík 1993, bls. 90–123). Síðast en
ekki síst er doktorsritgerð Láru Magnúsardóttur, Bannfæring og kirkjuvald á
Íslandi 1275–1550, aðeins nefnd einu sinni neðanmáls (61) en ekkert notuð í
framhaldinu, þótt margt sé þar sagt sem hefði átt erindi við þessa bók. Í for-
mála Agnesar segir að ekki séu nýtt fræðirit sem komu út eftir 2006–2007 (8),
svo ekki er það ástæðan, því ritgerð Láru kom út vorið 2007.
Þrátt fyrir þessa annmarka er bókin áhugavert og gagnlegt framlag til
rannsókna á síðmiðöldum, sem látnar eru standa til loka sextándu aldar og
er það lofsvert. Ótal atriði birtast sem engir hafa kannað fyrr og fjöldi álykt-
ana vísar veginn fram á við. einnig er bent á hluti sem þarf að kanna betur
(206n, 304n, 306n) og gerir Agnes það vonandi næstu árin eða aðrir fræði -
menn komast á bragðið …
Már Jónsson
Þorlákur Axel Jónsson, DAGUR AUSTAN. ÆVINTÝRAMAÐURINN
VeRNHARÐUR eGGeRTSSON. SAFN TIL SÖGU eyJAFJARÐAR OG
eyFIRÐINGA I. Völuspá. Akureyri 2009. 104 bls. Viðaukar.
ein af þeim bókum sem frekar lítið fór fyrir í jólabókaflóðinu 2009 var fyrsta
ritið í nýjum bókaflokki sem nefnist Safn til sögu Eyjafjarðar og Eyfirðinga. Hér
er um athyglisverða bók að ræða vegna þess að hún fjallar um utangarðs-
manninn Vernharð eggertsson (1909–1952), manngerð sem sjaldan ratar á
spjöld sögunnar. Fræðimenn hafa nefnilega gert heldur lítið af því að fjalla
um fólk af þessu tagi.
Bókin skiptist í þrettán kafla, suma stutta því að einn þeirra nær varla
tveimur síðum. köflunum er annars skipað í tímaröð, þ.e.a.s. höfundur
fylgir Vernharði frá uppvaxtarárum hans á Akureyri og þar til hann fær vota
gröf með ryðkláfi á leið til Belgíu. Bókin er einkar læsileg og á köflum
spennandi. Lesendur fá t.a.m. að slást í för með Vernharði um undirheima
Reykjavíkur og til fjarlægra landa. Þegar leið hans lá vestur um haf lenti
hann í klóm kanadísku lögreglunnar, að eigin sögn vegna þátttöku sinnar í
áfengissmygli en eftir öðrum heimildum sakir flækings og matarstuldar.
Stundum rataði hann á síður dagblaðanna, t.d. þegar hann braust út af Litla-
ritdómar244
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:06 Page 244