Breiðfirðingur - 01.04.1978, Page 25
BREIÐFIRÐINGUR
23
Sumarferð félagsins var farin í byrjun júlí. Farið var
vestur á Snæfellsnes. Lagt af stað að kvöldi föstudags og
ekið vestur í Laugagerðisskóla. Áttum við þar góða nótt
í skemmtilegu umhverfi og glæsilegum húsakynnum.
Þaðan var lagt af stað klukkan 10 að morgni, komið
við á Olkeldu, Ölkelduvatn drukkið og smakkaðist það
misjafnlega.
Þá var komið við á Búðum, en þar var lítið stansað.
Að Arnarstapa var komið um hádegi, var okkur þar vel
tekið og lánað samkomuhús staðarins til að matast í. Fyrir
þann greiða sendum við kærar kveðjur og þakkir. Staðurinn
skoðaður, þar var mikið og fjölbreytt fuglalíf að sjá í sjáv-
arhömrum.
Næst var farið niður að Hellum. Lítið stansað þar, en þó
svipast um þar á staðnum. — Næsti áfangi var Dritvík,
þar var löng viðstaða. Staðurinn skoðaður og margt að sjá
frá fyrri tíð. Þar var drukkið kaffi í dásamlegu góðu
veðri svo ekki skyggði það á ánægjuna. Fáir í hópnum
höfðu komið þar áður. Líða tók á daginn og var haldið af
stað til náttstaðar, ekið í gegnum Hellisand og Rif, en
lítið stansað á þeim stöðum, en gist var í Sjóbúð Ólafsvík-
ur. Áttum við þar góða nótt í skemmtilegum húsakynnum,
þar var hægt að fá 'bæði mat og kaffi, fyrir þá sem það
vildi. Annars voru allir með mat og viðlegu útbúnað með
sér.
Daginn eftir var ekið inn norðanvert Snæfellsnes til
Stykkishólms. Þar var okkur lánaður salur í bíóinu til að
borða í. Að máltíðinni lokinni var staðurinn skoðaður undir
leiðsögn heima manns, þökkum við fyrir þær móttökur.