Skírnir - 01.04.2014, Qupperneq 6
Frá ritstjóra
Fátt er mikilvægara lýðræðisþjóð en opin og hreinskiptin umræða um þjóðfélagsmál,
sem byggir á þekkingu, víðsýni og yfirvegun. Ekki síst er slík umræða nauðsynleg
þegar þjóðfélag hefur gengið í gegnum hremmingar og áföll á borð við þau sem orðið
hafa á Islandi á síðustu árum. Alþingi hlýddi því kalli með því að skipa rannsóknar-
nefnd í kjölfar bankahrunsins og afrakstur þeirrar vinnu var hin gagnmerka Skýrsla
Rannsóknarnefndar Alþingis. Því má hins vegar halda fram að talsvert hafi skort á
að skýrslunni hafi verið fylgt nægilega vel eftir í almennri þjóðfélagsumræðu og
þjóðin ekki nýtt sér sem skyldi þann góða grunn sem þar er lagður að gagnrýninni
og uppbyggilegri umræðu um það hvernig hægt er að standa betur að málum í stjórn-
málum og stjórnsýslu og bæta þannig þjóðfélagið.
Eitt mikilvægasta erindi tímarits á borð við Skírni er að stuðla að slíkri umræðu
og í síðustu heftum Skírnis hafa birst greinar þar sem fræðimenn hafa greint atburði
í aðdraganda og eftirmála hrunsins og sett fram hugmyndir um hvernig þróa megi
áfram lýðræðið og virkja þjóðina. Enda eru tímaritin „hentugri en flestar bækur aðrar
til þess að vekja lífið í þjóðunum og halda því vakandi, og til að efla frelsi þeirra, heill
og menntun“, eins og Tómas Sæmundsson orðaðiþað í Fjölni forðum. Þessi umræða
heldur áfram og í þessu hefti má segja að bankarnir sjálfir séu í forgrunni. Guðrún
Johnsen, lektor í hagfræði, sem skrifað hefur umtalaða bók um bankahrunið á ensku,
á hér beinskeytta grein, Bankakerfið knésett, þar sem hún bendir á afdrifarík mistök
í einkavæðingu bankanna. Bankarnir eru sömuleiðis þungamiðja greina þeirra
Eiríks Bergmann, Kristínar Loftsdóttur og Más Wolfgangs Mixa, þótt þau nálgist
efnið meira úr hugmyndafræðilegri átt. Alþingi er hins vegar viðfangsefni Njarðar
Sigurjónssonar þar sem hann skoðar þá virðulegu stofnun frá frumlegu og óvæntu
sjónarhorni.
Að vanda er annað efni af ýmsu tagi þótt bókmenntir séu jafnan áberandi. Hvert
hefti Skírnis þarf helst að geyma eina grein um Njáls sögu, og að þessu sinni skrifar
Pétur Gunnarsson skemmtilega grein um Njálu sem kallast á við greinar úr fyrri
heftum. Norski fræðimaðurinn Heming Gujord skrifar um allgleymdan og lítt lesinn
höfund nú á dögum, Kristmann Guðmundsson og tekur helstu verk hans til nýrrar
skoðunar, og þýskur fræðimaður, Gerhard Schreiber, hefur tekið sér það fyrir hendur
að endurreisa orðstír Magnúsar Eiríkssonar guðfræðings, en Magnús frater, eins og
hann var alltaf kallaður, setti fram kenningar sem á ýmsan hátt eru samstiga skrifum
öllu frægari samtímamanns hans, Sorens Kierkegaard. Gestur Guðmundsson skrifar
svo um fræðilega vanræktan en mikilvægan þátt íslenskrar menningar; íslenska rokkið.
Fáar myndlistarsýningar hafa vakið jafnmikla athygli og hrifningu á síðari árum
og hin heillandi sýning Ragnars Kjartanssonar, Tbe Visitors, í Galleríi Kling & Bang
nýverið sem sló öll aðsóknarmet. í Myndlistarþættinum setur Ólafur Gíslason
sýningu Ragnars í listasögulegt samhengi og stillumynd úr sýningunni af Ragnari í
baðkarinu prýðir forsíðuna. Góðskáldið Anton Helgi Jónsson gefur svo tóninn í
upphafi með tveimur nýjum ljóðum.
Páll Valsson