Skírnir - 01.04.2014, Side 18
16
GUÐRÚN JOHNSEN
SKÍRNIR
sagði Steingrímur Ari Arason, fulltrúi fjármálaráðherra, sig úr
nefndinni með bréfi til forsætisráðherra. I ljós kom að Steingrímur
hafði vitneskju um að Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmaður
framkvæmdanefndar um einkavæðingu, hefði farið einn til London
á fund HSBC, án umboðs nefndarinnar, til að ræða matslíkanið sem
nota ætti til að meta hvaða fjárfestir yrði valinn til frekari viðræðna
(Rannsóknarnefnd Alþingis 2010, 1, 6. kafli: 263). Þann 29. ágúst
2002 hafði Edward Williams, starfsmaður HSBC sem sá um ráðgjöf
bankans við söluna, sent tölvubréf til Skarphéðins þar sem hann
útskýrði hvernig meta mætti fjárfestana þannig að sá „rétti“ yrði
valinn en málið látið líta þannig út að beitt hefði verið nokkuð vís-
indalegum aðferðum. I tölvubréfinu segir Edward Williams:
Með því að skilgreina hæfisskilyrði vel og vega þau saman vandlega, er hægt
að draga fram „rétta“ niðurstöðu og velja þann aðila sem menn helst vilja
fá, en samt láta líta út fyrir að beitt hafi verið nokkuð vísindalegum
aðferðum í ákvörðunartökunni sem mun standast ytri gagnrýni.4
Samningar náðust við Samson-hópinn eftir að viðhlítandi und-
anþágur frá lögum voru veittar um yfirtökuskyldu og keypti félagið
45,8% hlut í Landsbankanum á gamlársdag 2002.
Islenska ríkið seldi næst 45,8% í Búnaðarbankanum í febrúar
2003 til hóps fjárfesta sem kenndur var við Helga S. Guðmunds-
son, og gekk undir heitinu S-hópurinn. Meðal haghafa hópsins var
að finna þáverandi formann Framsóknarflokksins og ráðherra í
ríkisstjórninni, Halldór Ásgrímsson.
Halldór Ásgrímsson átti 1,77% hlut í Skinney-Þinganes, en
hlutur hans og aðila tengdum honum var 25% af hlutafé í Skinney-
Þinganes, sem átti 50% hlut í Hesteyri, sem síðan átti 25% hlut í
VIS, sem að lokum keypti 8,47% hlut í Búnaðarbankanum, í þeim
45,8% í bankanum sem hópurinn keypti, ásamt Eglu ehf. sem keypti
71,19%, Samvinnulífeyrissjóðnum (7,63%) og Eignarhaldsfélagi
Samvinnutrygginga sem keypti 12,71% (Ríkisendurskoðun 2005).
4 Upprunalega á ensku: „By defining the criteria and weighting carefully, it is pos-
sible to arrive at the ‘right’ result in selecting the preferred party, whilst having a
semi-scicntific justification for the decision that will withstand external critical
scrutiny“ (Rannsóknarnefnd Alþingis 2010, 1, 6. kafli: 263).