Skírnir - 01.04.2014, Page 21
SKÍRNIR
BANKAKERFIÐ KNÉSETT
19
ugt um að eftir söluna hefði forstöðumaður hjá Búnaðarbankanum farið
til Þýskalands á fund hjá H&A í því skyni að ræða hugsanlegt samstarf
bankanna. Sigurjón lýsti förinni og viðbrögðum hjá þýska bankanum nánar
svo: „[•••] Síðan er þessi Hauck & Aufhauser sem tekur þátt í þessu og ég
man að einhver á okkar vegum fór út, spurði hvort það væri ekki möguleiki
að vinna saman en þá kannaðist nú bara enginn við málið, og hvað, við
mættir, ætluðum að vinna saman, því við héldum að þeir væru orðnir stór
eigandi. Það virtist enginn kannast við þetta ... (Rannsóknarnefnd Alþingis
2010,1,6. kafli: 259, nmg. 115)
Rannsóknarnefnd Alþingis komst að því sama og ríkisendurskoð-
andi nokkrum árum áður, að kaupendur Landsbankans fengu allt að
70% kaupverðsins að láni hjá Búnaðarbankanum þó að gert hefði
verið ráð fyrir því í kaupsamningi að eiginfjárhlutfall í kaupunum
skyldi ekki vera minna en 34,5%, en ekki var kveðið á um kvaðir um
það hvaðan lánið skyldi fengið að öðru leyti en því að það gat ekki
komið frá Landsbankanum sjálfum (Rannsóknarnefnd Alþingis
2010, 1, 6. kafli: 305 m.a.). Egla fékk um 35% af hlut sínum í Bún-
aðarbankanum fjármagnaðan af Landsbankanum (Rannsóknar-
nefnd Alþingis 2010, 1, 6. kafli: 285 m.a.).
Þetta verða að teljast alvarleg mistök af hálfu stefnumótandi aðila
þess tíma, því að lykillinn að heilbrigðu fjármálakerfi er að áhættu
sé haganlega dreift og að samfylgni afkomu milli kerfismikilvægra
stofnana sé sem allra minnst. Með því að fjármagna kaup á stórum
hluta af hlutafé í einum kerfislega mikilvægum banka með fjár-
munum frá öðrum kerfislega mikilvægum banka urðu þessar fjár-
málastofnanir háðar hvor annarri. Vandræði annars banka eða
eigenda hans við að standa í skilum á láninu hefur óhjákvæmilega
áhrif á hinn. Slík ráðstöfun eykur líkurnar á kerfislegum óstöðug-
leika og vegur að heilbrigði bankakerfisins. Þá eykur það frekar
líkur á óstöðugleika að hlutaféð sé að svo stórum hluta fjármagnað
með lánsfé en ekki eigin fé — en við það breytast hvatar eigendanna
og þörf fyrir arðgreiðslur aukast, sem aftur eykur áhættu fyrir-
tækisins til muna. Áhöld eru þá um hvort eiginfjárgrunnur félags-
ins sé rétt metinn ef stór hluti af honum hefur verið tekinn að láni
og er því ekki eiginlegt eigið fé að efni þó að það kunni að vera það
að formi.