Skírnir - 01.04.2014, Síða 31
SKÍRNIR
BANKAKERFIÐ KNÉSETT
29
stóllinn, ef ekki eitthvað aukreitis, sitji hjá þeim sjálfum á meðan
báknið vinnur fyrir þá.
Óumflýjanleg örlög
Þótt sjálf sagan um fall íslensku bankanna sé bæði reyfarakennd og
spennandi, verður látið hjá líða að rekja hana alla hér. Hún er ítar-
lega rakin í bók höfundar þessarar greinar þar sem m.a. er byggt á
köflum 4,19 og 20 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010. Hitt
þarf að benda á að með slík eignasöfn í farteskinu, sem að ofan hefur
verið lýst, áttu bankarnir þrír, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing,
ekki möguleika á að lifa af óumflýjanlegar sveiflur á lánsfjár-, eigna-
og gjaldeyrísmörkuðum, jafnvel þótt þær hefðu ekki orðið eins
miklar og raunin varð á árunum 2007-2008. Það þurfti ekki
alþjóðlega fjármálakreppu til að „fella íslensku bankanna".10 Eigna-
söfn þeirra voru einfaldlega af of stórum hluta samansett af lánum
án greiðsluflæðis til aðila sem lögðu fram lítið sem ekkert eigið fé,
sem hefði annars getað fleytt þeim yfir tímabundna niðursveiflu á
eignaverði og í lausafjárvandræðum. Eigið fé bankanna sjálfra, sem
var gróflega ofmetið (Rannsóknarnefnd Alþingis 2010, 3, 9. kafli),
var ekki nægilegt til að mæta því tapi sem þá þegar hafði myndast
en haldið var leyndu með því að velta lánunum áfram og endurnýja
þau í sífellu með nýjum gjalddaga. Þeir aðilar sem vilja halda því
sjónarmiði að íslenskum almenningi að bankarnir hafi orðið al-
þjóðafjármálakreppunni að bráð, láta tilfinnanlega hjá líða að leggja
fram vandaðar rannsóknir til að styðja mál sitt, sem eðlilegt er að
gera kröfu um til þeirra sem vilja flytja þjóðinni svo mikilvæg skila-
boð; skilaboð sem ættu að vera grundvöllur þess að endurreisa
bankakerfið með þeim hætti að slíkar hamfarir eigi sér ekki aftur
stað í íslensku efnahagslífi. Þeir hafa ekki lagt fram sjálfstæða rann-
10 Þessi sjónarmið hafa heyrst svo víða í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár og
jafnvel eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var gefin út, að það kallar á
sérstaka rannsókn sem verður að bíða betri tíma. Það er þó skiljanlegt að fyrrum
forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafi gripið til þessarar skýringar í frægu sjón-
varpsávarpi til þjóðarinnar, 6. október 2008, þegar flugfarið stefndi beint til jarðar
— áður en svarti kassinn hafði verið opnaður.