Skírnir - 01.04.2014, Page 55
SKÍRNIR
HLJÓÐMENNING ALÞINGIS
53
Bergkastalinn
Frá listaverkinu í anddyrinu og merkingu þess beinum við athygl-
inni að alþingishúsinu sjálfu, staðsetningu og byggingarlagi. Helsta
byggingarefni hússins, grágrýtið, skiptir hér máli ekki aðeins sem
efnisleg hljóðvörn fyrir starfsemina innandyra heldur hefur það
táknræna merkingu sem auðveldar frekari skilning á hljóðmenn-
ingu Alþingis. Byggingin er hinn efnislegi rammi sem afmarkar og
skýrir hljóðstýringuna og setur sviðið fyrir upplifun fólks af virkni
þingsins.
I tengslum við umræðu síðustu árin um lýðræðisþróun á Vestur-
löndum hafá fræðimenn í auknum mæli rýnt í hina táknrænu fram-
setningu lýðræðisins (Parkinson 2012). Grunnhugmyndin í þeim
athugunum er sú að stofnanir samfélagsins, sem eru mikilvægar
fyrir framgang lýðræðisins, séu einskonar „uppfærslurými" (e.per-
formance space) þar sem mikilvægustu athafnir og hefðir kerfisins
eru „settar á svið“. Almennar kosningar, þingfundir, umfjöllun
fjölmiðla og jafnvel kappræður í sjónvarpssal eru dæmi um slíkar at-
hafnir sem hafa lykilþýðingu fyrir upplifun og trú almennings á til-
vist og trúverðugleika lýðræðisins. Þetta þýðir ekki að athöfnin,
sem við getum líka kallað „helgiathöfn" eða „ritúal", sé merkingar-
eða þýðingarlaus heldur er hún þvert á móti nauðsynleg til þess að
almenningur hafi trú á kerfinu og sjái tilgang í að halda því gangandi.
I þessu samhengi er staðsetning, umgjörð og sviðsmynd við-
burðarins mikilvæg til þess að skapa þá upplifun sem er æskileg.
Stjórnarbyggingar og þinghús, sem áður þótti mikilvægt að væru
mikilfenglegar og sjálfstæðar byggingar (sem dæmi má nefna banda-
ríska þinghúsið sem byrjað var að byggja 1793), hafa á seinni árum
átt að líta út eins og opnari og aðgengilegri rými (dæmi er um slíkan
stíl er skoska þinghúsið sem byrjað var að reisa 1999). Sömu þróun
má einnig greina á eldri og yngri hlutum alþingishússins þar sem
glerskáli tekur við af áherslum fyrri tíma á þykka grágrýtisveggi.
Aðgengi almennings að þinghúsum í lýðræðisríkjum er hinsvegar
misjafnt og hefur ekki endilega þróast á æskilegasta hátt þótt að-
gengi að kjörnum fulltrúum sé jafnan talið til helstu kosta lýðræðis-
legrar stjórnskipunar.