Skírnir - 01.04.2014, Page 149
SKÍRNIR
GUÐDÓMURINN ER DÝR
147
ýmsar reglur, boð og bönn, um hvernig hátta skuli helgi og ofbeldi,
við fæðuöflun, varðandi togstreitur innan samfélaga, útvíkkun yfir-
ráðasvæðis, í stríði, og ýmsum öðrum afneitunartómstundum. Þetta
eru einmitt helstu rökin fyrir því að skynsemin eigi sér rætur þarna;
dauður maður fer hvorki á veiðar né mætir til vinnu; aflar engra
tekna. Bannhelgi tilheyrir, samkvæmt Bataille, veröld vinnunnar.
Hið heilaga er sprottið úr veröld tilfinninga, og skynsemin sem
verndari lífsviðurværa er bundin trú og vitneskjunni um dauðann.
Hið heilaga er verndað með bannhelgi og gegnumbrotið er eina
leiðin inn í það heilaga. Bannhelgi er ætlað að koma í veg fyrir snert-
ingu við hið heilaga, til þess að viðhalda röð og reglu í innri sam-
skiptum og fæðuöflun samfélagsins, koma á skipulagi og siðaregl-
um. Mest af þessum gamla ósnertanleika hefur haldist til dagsins í
dag, lítið breytt frá fornöld; í grunninn hefur bannhelgin ekki breyst
mikið, hún er bann, vernd og óaðgengilegur vísir að duldum heimi
handan við skynjanlega náttúru.
Endanlegt afnám allrar bannhelgi merkir hvorki lausn undan oki
né frelsi, nema í merkingunni: aleyðmg, eða tóm. Bannið er lagaleg
undirstaða allra samfélaga mannsins. Takmarkalaust gegnumbrot
og brottnám bannhelga, það er, algert dýrslegt „frelsi“ þannig að
allt sé leyfilegt myndi augljóslega leiða til katastrófu og glundroða.
En þetta er óhugsandi. Ef allt er leyfilegt, er bannhelgi til staðar í
sinni sterkustu mynd. Alger samfélagsleg óreiða er ómöguleg,
stjórnleysi sömuleiðis; alltaf gilda einhverjar reglur, ef ekki skráðar,
þá óskráðar, ef ekki veraldlegar, þá tilfinningalegar. I styrjöldum
ríkir ofbeldið, en það á að heita skipulagt ofbeldi, og hvergi nema í
stríði þar sem gegnumbrotin eru hvað svæsnust á öllum sviðum,
sjást mörk bannhelga jafn skýrt og þversagnakennd náttúra þeirra.
Brot gegnum bannhelgi af vanþekkingu er það sem kallað er óldns-
vegir í íslenskri alþýðutrú, og snertir þar bannhelgi eða bannbletti
í náttúrunni þar sem dyr liggja að huldum heimi, auk óvitaskapar eða
skepnuskapar í samskiptum við til dæmis þá sem minna mega sín:
„Þeir vita ei hvað þeir gjöra.“ En ofbeldi gegnumbrotsins á bannhelgi
er ekki í eðli sínu dýrslegt ofbeldi heldur skipulagt ofbeldi þeirra