Skírnir - 01.04.2014, Blaðsíða 208
206
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
sviðsmynd af veröndinni utan dyra þar sem gestgjafarnir og raun-
verulegir eigendur hússins una sér á meðan athöfn gestanna innan
dyra fer fram, athöfn sem felst í því að Ragnar liggur í baðkari fullu
af vatni með gítar í hönd og stjórnar flutningi saknaðarfulls söngs
sem tekur hátt í klukkustund í flutningi með sífelldum endurtekn-
ingum: „Once again I fall into my feminine ways ..." Flytjendurnir
tengjast innbyrðis með heyrnartólum, en eru rýmislega aðskildir,
hver í sinni stofu eða vistarveru og leika á konsertflygil, harmóniku,
selló og fleiri hljóðfæri. Söngröddin kemur frá höfundinum, en þátt-
takendur leggja sig fram í undirleik og bakröddum af mikilli alúð og
eindrægni. Að lokum tínast þátttakendur af vettvangi en safnast
síðan saman úti á veröndinni og ganga fylktu liði með gestgjöfunum
syngjandi út á víðáttumikið grænt engi umlukið skógargróðri þar
sem þau hverfa eins og út í einhverja alsælu eða út í tómið.
Sjaldan eða aldrei hefur sýning á íslenskri samtímalist hlotið jafn
sterkar og einróma viðtökur og þetta verk, og stóð sýning þess í
Gallerí Kling & Bang mánuðum saman við linnulausa aðsókn og
eftirtekt fólks af öllum aldurshópum og úr öllum þjóðfélagsgeirum.
Viðtökur þessa verks hér á landi og erlendis væru rannsóknarefni í
sjálfu sér, en í þessari grein er fyrst og fremst ætlunin að leita svara
við spurningum um hugmyndalegar rætur verksins og tengsl þess
inn í sögu myndanna og hugmyndanna, og kanna um leið hvort
þessar rætur kynnu að geta gefið einhverja skýringu á þessum ein-
stöku og einróma lofsamlegu viðtökum.
Sjálfur hefur Ragnar rakið hugmyndalega áhrifavalda sína ann-
ars vegar til sænsku hljómsveitarinnar ABBA (og síðustu hljóm-
plötu hennar, sem ber nafnið The Visitors), og hins vegar til
rómantískrar 19. aldar myndlistar, til dæmis hjá prerafaelítunum
sem horfðu með eftirsjá til þeirrar klassísku listhefðar sem þeir töldu
hafa náð hámarki sínu í málaranum Rafael í upphafi 16. aldar. Seg-
ist Ragnar hafa fundið í báðum þessum aðilum þann saknaðarfulla
trega og þá hugfró sem endurspeglast í verki hans.
Þegar hugað er að rótum hugmyndanna dugar sjaldnast að leita
í það sem kalla mætti núliðna tíð, þann tíma sem er okkur nokkurn
veginn í ljósu minni. Þær hugmyndir sem þar voru uppi er hægt að
rekja lengra aftur og aftur, koll af kolli, þar til við komum aftur í svo-