Skírnir - 01.04.2014, Page 220
218
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
gröfina sem segir okkur að hér fari fram hátíð Adonis. Á annarri
myndinni sjáum við ástargyðjuna sitja á gröf Adonis og snúa baki í
hirðmeyjar sínar eins og hin kulnaða Venus, en þær sitja umhverfis
laugina með hljóðfæri sín og syngja harmasöng Adonis. Söng sem
á að vekja hann til lífsins á ný. Polifilio situr á meðal hirðmeyjanna
í þessum draumi sínum. Eðlilega hafa fræðimenn bent á líkingu
þessarar sviðsmyndar við laugina í málverki Tizians, Amor sacro e
profano. Rétt er að hafa hér í huga að Tizian leit ekki á málaralist sína
sem myndskreytingu við þekkt söguefni. Hann vann ávallt út frá
heimi goðsagna og helgisagna á sinn persónulega hátt en tók mið af
þeim sem sögulegum minnum. Adonis var ekki bara kenndur við
animónurnar sem springa út í byrjun sumars og lita akurinn rauðan
af blóði elskendanna. Hann var líka kenndur við vatnið og ilmjurt-
irnar, og margt bendir til þess að hugmynd Tizians um tvær myndir
Venusar við vatnsþróna séu einmitt komnar úr sögu Colonna. En
hér er ekki um neina myndskreytingu á fyrirfram gefinni sögu að
ræða hjá Tizian, heldur sjálfstæða úrvinnslu úr sagnaminni. En það
er einmitt það sem við sjáum einnig í myndverki Ragnars Kjartans-
sonar, jafnvel þótt endurvinnslan sé ekki að öllu leyti meðvituð.
Það kann að hljóma sem fáránleg tilviljun, en í einu af herbergjum
Rokeby-villunnar, þar sem þandir strengir knéfiðlunnar eru stroknir
í verki Ragnars, er einmitt að finna gamalt og slitið veggfóður
sem sýnir engi blóðlitað af animónum með fljúgandi spörfuglum.
Rokeby-villan og öll sviðsetning verks Ragnars er vandlega valin og
innrömmuð af kyrrstæðum tökuvélum. Þessi 200 ára gamla villa er
yfirfull af sögulegum minjum og vísunum, en sá myndheimur sem
hún vísar til er jafn greinilega allur á fallanda fæti. Það er ekki hægt
að hugsa sér verk Ragnars án þessarar sviðsmyndar sem uppruna-
lega felur í sér endurvinnslu á klassískri evrópskri formhugsun, en
þessi ameríski draumur um klassíska evrópska endurvakningu í nýja
heiminum er líka að falli kominn: „There are stars exploding, and
there is nothing you can do ..." eins og segir í söngtextanum sem er
eftir Ásdísi Sif Gunnarsdóttur, en endalok ástarsambands hennar og
Ragnars mun vera upprunalegt tilefni þessa verks.
Hvernig stendur á því að Ragnar hefur valið þessa sviðsmynd
og valið sjálfum sér stað í baðkarinu sem stjórnanda þessarar hljóm-