Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 72
Á r n i B e r g m a n n
72 TMM 2013 · 2
Draumaland rithöfundar
Sovétríkin urðu miðstöð pólitískrar staðleysutrúar á fjórða áratug fyrri
aldar eins og allir vita: trúin á þeirra kommúnisma var trú á framtíð mann-
kynsins, sagði Halldór Laxness. En Rússland var hér ekki í fyrsta sinn lent
í keimlíku hlutverki í Evrópu eða heiminum.7 Um aldir var Rússland nógu
nálægt Vesturlöndum og um leið nógu fjarlægt, risastórt og leyndardóms-
fullt land, til að freista allskonar hugsjónamanna og umbótasinna til að
finna áformum sínum og draumum stað einmitt þar. Það var kannski betra
að landið væri vanþróað og flest þar ógert – þeim mun auðveldara að byrja
þar alla hluti upp á nýtt! Auðvelt er að finna fræg dæmi um þessa hneigð.
Sá ágæti bjartsýnisheimspekingur Leibniz vonaðist til þess að Pétur mikli
leyfði honum að breyta Rússlandi í tilraunastofu með hugmyndir sínar um
fyrirmyndarþjóðfélag. Höfðingjar frönsku upplýsingarinnar, Voltaire og
Diderot, vildu trúa því að Katrín mikla keisarafrú mundi gera að veruleika
hugmyndir þeirra um upplýst einveldi. Og svo mætti áfram telja allt fram á
tíma Stalíns og Halldórs Laxness og trúar á rússneskan kommúnisma. En
Rússland er að sönnu mikið land og þar er ekki aðeins pláss fyrir pólitískar
útópíur sem rætast skyldu í Ríki Verkalýðsins. Í Gerska ævintýrinu eru
draumar Halldórs Laxness um gott líf allra manna ekki aðeins tengdar
pólitískri byltingu og áætlanabúskap – heldur einnig skáldskaparstaðleysu
sem svo mætti kalla. Í riti sínu lýsir Halldór Sovét-Rússlandi ekki síst sem
draumalandi rithöfundar – því hann telur að einmitt þar sé að rætast gamall
skáldadraumur um djúptæk áhrif bókmennta á hugarfar og samskipti fólks,
á þroska persónuleikans og heilla samfélaga.
Það blasir við þeim sem les Gerska ævintýrið að Halldór Laxness er
hrifnastur af árangri almennrar menningarbyltingar í Sovétríkjunum,
einkum af öllu sem varðar útbreiðslu bókmennta. Hann skrifar: „Miljónir
fólks, sem hafði ekki einusinni dreymt um að læra að lesa var altíeinu farið
að næra sál sína af hinum ódauðlegu verkum meistaranna – einnig það var
ekki hvað síst byltíngin í Rússlandi.“8 Rússland er orðið fyrirheitna landið
einmitt vegna þess að þar er mikið lesið. Halldór gerir ítarlega grein fyrir
mikilli bókaútgáfu og furðuháum upplögum bóka: á hundrað ára ártíð
þjóðskáldsins Púshkíns koma verk hans út í tólf miljónum eintaka. Frægasta
skáldsaga nýrra sovétbókmennta, Lygn streymir Don eftir Sholokhov, kemur
út í tveim miljónum. Bækur kosta lítið og eru rifnar út. Halldór gleðst yfir
því að duttlungar markaðslögmála standi ekki menningarlífi fyrir þrifum
og leggur áherslu á það að þeir sem við sköpun fást, hvort heldur er á sviði
bókmennta, leikhúss eða tónlistar, þurfi aldrei að hafa áhyggjur af því hvað
hlutirnir kosta eða hvort útgjöldin réttlæta sig í bókhaldi. Staðleysutrú
skáldsins tekst á loft fyrir sakir trúar hans á það, að sovésk menningarstefna
tryggi mikla og eðlilega en um leið undursamlega eftirspurn eftir skáldskap,
nýjum og sígildum.