Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Síða 73
Vi ð s t a ð l e y s u t a k þ ú m i n n i
TMM 2013 · 2 73
Og nú er sem í vitund skáldsins fari að leysast upp skil á milli þess Rúss-
lands sem var og þess sem hann virðir fyrir sér á skrifandi stundu. Halldóri
Laxness sýnist sem Rússland hafi bæði verið og sé nú bókmenntaútópía
vegna þess mikla hlutverks einskonar veraldlegrar kirkju sem skáldskapur
gegni í því landi og hafi gert að minnsta kosti allt frá dögum Púshkíns. Sú
almenna lotning fyrir snilld þessa þjóðskálds Rússa sem Halldór kynnist
á ferðum sínum verður honum staðfesting á því, að draumurinn um vald
skáldskaparins yfir hugum manna hafi ræst. Einmitt í Moskvu árið 1937
þýðir Halldór Minnisvarða Púshkins á íslensku og birtir í Gerska ævintýrinu
– en í því kallar skáldið ljóð sín minnisvarða „ei af höndum gjörðan“ sem rísa
mun hærra en „Alexanders mikla blökk“ – og saman svífa þeir í þýðingunni,
Púshkín og verðandi Nóbelsskáld Íslands, himinhátt ofar þessari sigursúlu
rússnesks keisara sem og öllum öðrum mannvirkjum valdsins. Um þann
sess sem Púshkín skipar í hjörtum Rússa skrifar Halldór mun innilegar en
um pólitíska garpa tímans, Lenín og Stalín. Í þessari sovéthollu bók leggur
hann áherslu á það að einmitt Púshkín hafi gert hann, sem þá þegar var
vinur Sovétríkjanna, að vini Rússlands og Rússa.9
Heimanfenginn baggi
Allt þetta tengist því hvernig Halldór Laxness ber saman líf og örlög
Íslendinga og Rússa. Vitanlega gleymir hann því ekki hve ólík staða þess-
ara þjóða er í heiminum, En finnur samt merkilegar hliðstæður: báðar
þjóðir hafa tekið í arf fátækt og vanþróun sem þær þurfa að yfirstíga á sem
skemmstum tíma. Og hann er sannfærður um að báðar þjóðir tengi í mjög
sterkum mæli drauma sína um betra mannlíf við bókmenntir, við afreksverk
skálda og rithöfunda.
Þær útópísku vonir snúast ekki endilega um að útrýma öllum samfélags-
meinsemdum og koma á fullkomnu réttlæti og jöfnuði. Þær tengja sig við
drauma um mannleg samskipti sem bókmenntir ríkja yfir, um samfélag þar
sem mikill rithöfundur er sem „guð og keisari“ (rússnesk formúla), þar sem
ólíkustu einstaklingar lúta göfugu valdi skáldskaparins, hver með sínum
hætti.
Við rekumst oft á slíka hugsjón í skáldsögum og ritgerðum Halldórs
Laxness. Og hún er einkar fyrirferðarmikil einmitt í þeim mikla sagnabálki
sem Halldór vann að þegar hann dvaldi í Sovétríkjunum, Heimsljósi, en
annað bindi þess verks var skrifað í Moskvu veturinn 1937–38.
Við munum að Heimsljós segir frá alþýðuskáldinu Ólafi Kárasyni,
munaðarleysingja og sveitarómaga sem frá bernsku er barinn, sveltur,
hæddur og niðurlægður – en finnur snemma sína huggun og stoð í skáld-
skap, bæði sínum eigin og ágætra fyrirrennara. Og þótt menn leggi sig fram
við að hæða hann og fyrirlíta er þetta auma skáld samt einmitt sá sem allir
þurfa á að halda. Einhver þarf að láta yrkja til stúlku, öðrum þarf að refsa,