Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Qupperneq 86
M a g n ú s B j a r n a s o n
86 TMM 2013 · 2
lyfjum og vopnum. Virðisaukaskattur hefur ekki verið að fullu samræmdur
innan ESB, en hluti hans rennur beint í sjóði ESB.
Tollskrár ESB og Íslands eru ekki eins, en sjaldan er munurinn meiri en
nokkrir prósentupunktar upp eða niður eftir því hvaða vörur eiga í hlut –
nema tollar á landbúnaðarafurðum (sjá umfjöllun um landbúnað hér á eftir).
Sumar iðnaðarvörur munu væntanlega hækka eða lækka í verði um nokkur
prósent við inngöngu í ESB. Á heildina litið er þó ekki að vænta mikilla
breytinga á verði vöru sem kemur frá löndum utan ESB, öðrum en land-
búnaðarvörum. Hins vegar mun aðild að tollabandalagi Evrópu bæta sam-
keppni og þannig lækka verð til neytenda. Ef íslenskur neytandi er óánægður
með verð innflytjanda hérlendis getur hann einfaldlega sjálfur pantað hvaða
vöru sem er innan ESB, þaðan sem hún er ódýrust, án nokkurra formsatriða,
(að undanskildu áfengi og tóbaki sem almennt er ekki selt í póstverslun). Það
að ekki þarf að tollafgreiða vörur innan ESB gerir fyrirtækjum auðveldara
fyrir, bæði í inn- og útflutningi, þar sem fé og fyrirhöfn mun sparast á
hafnarbakkanum hérlendis og í Evrópu.
Rétt er að benda á að við ESB-aðild gæti þurft að endurskoða að einhverju
leyti íslenskar reglur um vörugjöld, ella gæti framkvæmdin orðið erfið
varðandi sumar vörur. Auðvelt er t.d. að innheimta vörugjald af bifreið við
skráningu, en vörur sem seldar eru án eigendaskráningar á frjálsum markaði
er erfitt að skattleggja þar sem tollskýrslur og tolleftirlit við innflutning falla
niður. Ef vörugjöld t.d. af sumum rafmagnstækjum yrðu felld niður er ljóst
að ríkissjóður yrði að auka skattheimtu á öðrum sviðum til að vega upp á
móti tekjutapinu. Slíkt mundi því varla þýða sparnað fyrir heimili og tap hjá
ríkissjóði, heldur frekar að breytingar yrðu gerðar á skattstofnum ríkisins.
Eins og nefnt var hér áðan, eru skattamál enn ekki samræmd innan ESB,
þótt það væri að mörgu leyti æskilegt.
Í Cecchini-skýrslunni frá 1988 um áhrif innri markaðar ESB var bent á
að beinn og óbeinn kostnaður af tollum geti aukið kostnað sumra fyrirtækja
í inn- og útflutningi sem svarar 25% af hagnaði. Cecchini og félagar (1988)
töldu að sameiginlegur markaður Evrópu mundi auka framleiðni ESB um
2,5–6,5%, en Richard Baldwin (1989) benti á að líklega væri hagnaðurinn
til langframa meiri en Cecchini áætlaði upphaflega. Hér er rétt að benda
á að stærsti hluti þessa efnahagssparnaðar varð á Íslandi við EES-aðildina.
Engu að síður, þótt tollar hafi verið afnumdir af EES-iðnaðarvörum er skrif-
finnskan við tollskýrslur og tollskoðun af öðrum vörum sem koma í gegnum
Evrópu enn þröskuldur í vegi frjálsrar verslunar. Það er erfitt að meta þann
kostnað nákvæmlega, en benda má á að margir hafa tilhneigingu til að kaupa
vörur á Íslandi þótt þær kunni að vera ódýrari á meginlandi Evrópu, einmitt
til að þurfa ekki að eyða tíma og fyrirhöfn í pappírsvinnu innflytjanda.
Aðild að tollabandalaginu mun ekki hafa mikil áhrif á verð iðnaðarvara,
en tollabandalagið mun hins vegar hafa umtalsverð áhrif á verð landbún-
aðarafurða, sem ekki falla undir fríverslunarákvæði EES.