Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 130
J ó n a Á g ú s t a G í s l a d ó t t i r
130 TMM 2013 · 2
Það eru að koma gestir til mín á eftir, elskan. Bara nokkrir kunningjar að
spjalla, segir hún. Geturðu ekki haft ofan af fyrir krökkunum í kvöld?
Hún smellir kossi á ennið á Öldu.
Jú, ætli það ekki, svarar Alda þó að þetta hafi ekki verið spurning. Mamma
hefur þegar snúið bakinu í hana og er farin að þurrka ímyndað ryk af
stofuskenknum sem amma átti.
Þegar Alda gengur upp á loft til að gera það sem þarf að gera fyrir kvöldið
og athuga með Kötlu og Kristján heyrir hún að mamma er að baksa við að
ná ryksugunni út úr kústaskápnum í eldhúsinu.
Alda dregur dýnurnar úr rúmum systkina sinna inn í sitt herbergi. Þær
eru þykkar og þungar og hún er svolítið móð þegar því er lokið. Svo sækir
hún sængurnar og koddana og býr um þau eins fallega og hún getur. Að
lokum safnar hún saman nokkrum DVD-myndum sem hún veit að þeim
þykir gaman að og leggur þær ofan á sjónvarpið sem hún fékk í afmælisgjöf
frá mömmu þegar hún varð tólf ára í vor. Svo þið getið verið út af fyrir ykkur
krakkarnir, sagði mamma til útskýringar þegar Alda rak upp stór augu yfir
gjöfinni.
Alda kallar á Kristján og Kötlu. Í kvöld ætlum við að hafa náttfatapartí
inni í mínu herbergi, segir hún þeim.
Katla klappar saman smáum lófunum og hlær af gleði. Ljósir, hrokknir
lokkar þyrlast um höfuð hennar og gefa henni englasvip. Hún er fjögurra
ára og finnst Alda merkilegasta manneskja á jarðríki. Kristján er að verða
sex ára og barnsleg gleðin sem eitt sinn einkenndi hann eins og litlu systur
er horfin. Hann gýtur bláum, tortryggnum augum á eldri systur sína og það
er spurn í svipnum.
Alda lætur eins og hún sjái það ekki en brosir til þeirra.
Það verður rosalega gaman, segir hún eins glaðlega og henni er unnt. Ég
ætla að poppa og kannski getum við laumað kóki inn til okkar.
Hún hjálpar þeim í náttfötin og setur Tomma og Jenna í tækið. Svo skýst
hún niður til að poppa handa þeim. Veit að hún hefur nauman tíma áður
en fyrstu gestirnir berja að dyrum. Og það passar. Hún er að ganga upp
stigann með tvær fullar poppskálar og hálfa tveggja lítra flösku af kóki þegar
dyrabjöllunni er hringt.
Hjartað hamast í brjóstinu á henni þegar hún skáskýtur sér inn um her-
bergisdyrnar sínar og skellir í lás á eftir sér. Í óðagotinu hefur hún gleymt að
taka glös með sér. En það gerir nú minnst til. Þau geta vel drukkið af stút.
Hún stillir Aladín og Konung ljónanna á hæsta styrk og þau njóta þess að
spila uppáhaldsatriðin sín aftur og aftur og tala um þau fram og til baka. Að
lokum eru aðeins örfáar baunir eftir í poppskálunum og kókið er drukkið til
síðasta dropa. Kötlu þykir mikið sport að fá að drekka af stút.
Seinna um kvöldið þegar hávaðinn er orðinn of mikill til að það heyrist í
sjónvarpinu eru Katla og Kristján sofnuð. Þau sofa fast og heyra ekki lætin.
Ekki heldur þegar drepið er á herbergisdyrnar og drafandi karlmannsrödd