Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - Feb 2020, Page 16

Læknablaðið - Feb 2020, Page 16
68 LÆKNAblaðið 2020/106 R A N N S Ó K N Umræða Í þessari afturskyggnu rannsókn fengu 4,5% sjúklinga á Landspít- ala ósæðardælu í tengslum við kransæðahjáveitu. Það er heldur lægra hlutfall en í sambærilegum rannsóknum erlendis þar sem hlutfallið er oftast á bilinu 8-20%, enda þótt bæði hærra (51,8%) og lægra (2,7%) hlutfalli hafi verið lýst.3,12,19,20 Tíðni notkunar ósæðar- dælu breyttist ekki marktækt á rannsóknartímabilinu. Niðurstöð- ur okkar eru því ekki í samræmi við flestar erlendar rannsóknir þar sem notkun ósæðardælu hefur minnkað töluvert,8 sérstaklega frá birtingu SHOCK II-rannsóknarinnar árið 2012. Þar var ekki sýnt fram á gagnsemi ósæðardælu hjá sjúklingum með bráða hjartabilun eftir kransæðastíflu.9 Niðurstöður SHOCK II eru hins vegar ekki að fullu yfirfæranlegar á okkar þýði því hún tók ekki til sjúklinga sem fengu dæluna í eða eftir hjartaaðgerð. Rannsóknir sem einbeita sér að hjartaskurðsjúklingum hafa sumar hverjar lýst ávinningi og í nýlegri safngreiningu (meta-analysis) var sýnt fram á betri horfur hjá há-áhættu sjúklingum sem fengu dæluna fyrir kransæðahjáveitu.13 Alls fengu 60% sjúklinga dæluna fyrir aðgerð í okkar rann- sókn, oftast vegna bráðs kransæðaheilkennis, en ákvörðun um að koma fyrir ósæðardælu hjá þessum sjúklingum er yfirleitt tekin af hjartalæknum og þeim sem framkvæma hjartaþræðingu. Hlut- fall sjúklinga sem fékk dæluna fyrir aðgerð breyttist ekki á rann- sóknartímabilinu og SHOCK II-rannsóknin virðist því ekki hafa haft áhrif á ábendingar þeirra fyrir notkun dælunnar. Rúmlega þriðjungur sjúklinga fékk dæluna hins vegar í aðgerð og þá til að hægt væri að komast af hjarta- og lungnavél. Sú ákvörðun er tekin sameiginlega af hjartaskurðlækni og svæfingarlækni inni á skurð- stofu og sama á við um þau 6,1% sjúklinga sem fengu dæluna eftir að þeir voru komnir inn á gjörgæslu. Hlutfall sjúklinga sem fengu dæluna í aðgerð breyttist heldur ekki marktækt á milli ára og notk- un dælunnar eftir aðgerð hefur einnig haldist nokkuð svipuð þó enginn sjúklingur hafi fengið ósæðardælu eftir að komið var inn á gjörgæslu á síðustu 11 árum rannsóknartímabilsins. Helmingi fleiri konur fengu dæluna, eða 7,8% samanborið við 3,9% karla. Skýringin á þessu er ekki þekkt en meðalaldur kvenna og karla sem fengu dæluna var sambærilegur þó almennt séu kon- ur eldri en karlar þegar kemur að kransæðahjáveitu14 og því oftar með alvarlegri hjartasjúkdóm. Tíðni hjartaáfalls í ósæðardæluhópi var hins vegar marktækt hærra og útstreymisbrot vinstri slegils oftar skert, auk þess sem fleiri voru með slæma brjóstverki og ein- kenni hjartabilunar.15,16 Þetta var viðbúið þar sem bráð hjartabilun er langalgengasta ábending fyrir ísetningu ósæðardælu.4 Að auki voru marktækt fleiri í þeim hópi sem höfðu sögu um kransæða- víkkun með eða án stoðnets, en ósæðardæla er stundum notuð til að fyrirbyggja lost í há-áhættu kransæðavíkkun (high-risk PCI).4 Í dag hefur notkun ósæðardælu við áhættu kransæðavíkkanir dregist saman og má sennilega rekja það til nokkurra slembaðra rannsókna sem ekki hafa getað sýnt fram á betri árangur með notkun dælunnar.21 Í staðinn hefur notkun á Impella®-hjartadælu aukist víða í Bandaríkjunum og N-Evrópu en um er að ræða eins konar skrúfudælu sem komið er fyrir í inni í vinstri slegli í gegn- um náraslagæð og dælir hún blóðinu út í ósæðina.22 Impella® hef- ur verið notuð nokkrum sinnum á Íslandi en er dýr og erlendar rannsóknir hafa ekki getað sannreynt lægra dánarhlutfall en með notkun ósæðardælu.23 Þar sem sjúklingar í ósæðardæluhópi voru mun veikari en sjúk- lingar í viðmiðunarhópi var viðbúið að marktækur munur sæist á tíðni skammtímafylgikvilla eftir kransæðahjáveitu milli hópa, bæði hvað varðar minniháttar og alvarlega fylgikvilla. Þetta er í samræmi við rannsókn sem sýndi að þeir sem þurftu á ósæðar- dælu að halda voru líklegri til þess að þróa með sér nýlegt gáttatif eftir aðgerð.24 Sjúklingar sem fengu ósæðardælu eftir kransæðahjáveitu- aðgerð höfðu verri horfur, bæði þegar litið er til skemmri og lengri tíma frá aðgerðinni. Þannig var 30 daga dánartíðni 22,2% í ósæðardæluhópi borið saman við 1,3% í viðmiðunarhópi. Þessar tölur endurspeglast í EuroSCORE II fyrir aðgerð sem var fjórfalt hærra í ósæðardæluhópi, eða 8,1% á móti 2,2% í viðmiðunarhópi. EuroSCORE II nær hins vegar greinilega ekki að meta áhættu sjúklinga sem fá ósæðardælu þar sem raunveruleg dánartíðni í ósæðardæluhópnum var rúmlega helmingi hærri. Tvær erlendar rannsóknir hafa þó sýnt að ósæðardæla hafði engin áhrif á 30 daga dánartíðni hjá sjúklingum með hjartabilun í kjölfar bráðs hjarta- dreps.9,25 Marktækt verri langtímalifun sást fyrir sjúklinga í ósæðardælu- hópi, og munaði rúmlega þriðjungi 5 árum frá aðgerð. Síðri horfur sjúklinga sem fá ósæðardælu má sennilega að mestu leyti rekja til alvarlegra ástands þeirra fyrir aðgerð, oftast alvarlegrar hjarta- bilunar sem kallaði á notkun dælunnar. Fáar rannsóknir hafa ver- ið gerðar á notkun ósæðardælu með tilliti til langtímalifunar hjá sjúklingum sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð sérstak- lega. Flestar rannsóknir hafa sýnt að ósæðardæla tengist ekki verri langtímalifun hjá sjúklingum með STEMI (ST elevation myocardial infarction) og hjartabilun, en hafa ber í huga að eftirfylgdartíminn í flestum þeirra er innan við eitt ár.26 Einnig eru til rannsóknir sem hafa sýnt fram á að ósæðardæla bæti horfur hjá há-áhættu sjúk- lingum sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerðir.27 MACCE-frí lifun reyndist líkt og heildarlifun marktækt síðri í ósæðardæluhópi. Út frá þeim niðurstöðum má álykta að síðri heildarlifun ósæðardæluhóps skýrist ekki einungis af hærra dánarhlutfalli í kringum aðgerðina sjálfa heldur einnig af hærri tíðni langtímafylgikvilla sem tengjast hjarta- og æðakerfi. Eldri rannsóknir erlendis hafa þó sýnt að ósæðardæla geti haft jákvæð áhrif hvað varðar MACCE-fría lifun.28-30 Almennt var tíðni alvarlegra fylgikvilla ekki há og flestir fylgi- kvillar sem tengdust dælunni voru minniháttar. Þannig fengu 14,1% sjúklinga einhvern fylgikvilla tengdan ósæðardælunni og er það svipað hlutfall og í rannsókn Valente og félaga.31 Algengasti fylgikvillinn reyndist vera blæðing frá ísetningarstað og var tíðnin 4,0%. Aðrir fylgikvillar voru rof á ósæðardælublöðru, blóðþurrð í neðri útlimum og blóðflögufæð en þekkt er að ósæðardælan veld- ur töluverðu raski á blóðflögum sem getur leitt til blóðflögufæð- ar.32 Einnig sáust dæmi um blóðþurrð í brisi, sýkingu á ísetningar- stað og bilun á dælunni, en tíðni þessara fylgikvilla var mjög lág. Veikleiki við rannsóknina er að hún er afturskyggn, en í slíkum rannsóknum er skráning á fylgikvillum ekki jafn nákvæm og við framskyggna rannsókn. Auk þess er hún óslembuð og því ekki hægt að meta hvort síðri lifun í ósæðardæluhópnum sé að einhverju leyti vegna dælunnar sjálfrar eða þess ástands sem sjúklingurinn er í þegar meðferðin hefst. Hóparnir sem bornir voru saman voru mjög frábrugðnir og því var reynt að gera áhættuskors pörun og

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.