Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2016, Page 67
beygðri þolmynd byggjast á því að staða sig takmarkast ekki af hinni svo-
kölluðu ákveðnihömlu (Milsark 1977, Jóhannes Gísli Jónsson 2000,
Höskuldur Þráinsson 2007). Ákveðnihamlan lýsir sér þannig að óákveðnir
nafnliðir geta ýmist birst fremst eða í stöðu aftar í setningunni, eins og sjá
má af dreifingu einhver maður í (37); hins vegar geta ákveðnir nafnliðir, þar
á meðal fornöfn eins og hún í (38), ekki staðið aftarlega í setningunni með
leppfrumlagi fremst.
(37) a. Einhver maður hefur verið skammaður.
b. Það hefur einhver maður verið skammaður.
c. Það hefur verið skammaður einhver maður.
(38)a. Hún hefur verið skömmuð.
b. *Það hefur hún verið skömmuð.
c. *Það hefur verið skömmuð hún.
Ef sig í afturbeygðri þolmynd væri fullburða fornafn og þar með ákveðinn
nafnliður þá myndum við e.t.v. búast við því að þetta fornafn þyrfti að
færast í fremsta bás enda enginn annar rökliður í setningunni.17 Sú er þó
ekki raunin því að sig getur staðið aftar og verður raunar að vera í stöðu á
eftir sögninni drífa.18
(39)a. *Sig var drifið á ball.
b. *Það var sig drifið á ball.
c. Það var drifið sig á ball.
Veik fornöfn í afturbeygðri þolmynd 67
17 Hjá Halldóri Ármanni Sigurðssyni (2010, 2012) er talsverð umræða um nafnliða -
færslu og ákveðnihömluna. Þar er því haldið fram að það sé persónuþáttur sem liggi að baki
nafnliðafærslu. Við munum ekki ræða hugmyndina um tengsl persónu og ákveðni hér.
18 Setningin í (39a) er setningafræðilega tvíræð vegna þess að ekki sést hvort sig hafi
færst í frumlagssæti (rökliðarfærsla) eða hvort fornafnið hafi verið kjarnafært (sjá umræðu
um ótæka kjarnafærslu sig hjá Jóni Friðjónssyni 1980, Hlíf Árnadóttur o.fl. 2011 og
Jóhannesi Gísla Jónssyni 2011). Það skiptir meira máli fyrir greiningu okkar að ekki er
hægt að frumlagsfæra sig. Ástæða þess að ekki er mögulegt að kjarnafæra veika fornafnið
sig kann að vera önnur en sú að það skorti ákveðniþátt, svo sem sú að kjarnafærsla kallar
stundum fram andstæður eða samanburð (sem svo oft kallar á áherslu); í afturbeygðri
notkun, sem er t.a.m. skyldubundin með sögninni monta, er ekki hægt að bera afturbeygða
fornafnið saman við annan þátttakanda:
(i) a. *Jón montaði sig en ekki Guðmund.
b. *Sig montaði Jón (en ekki Guðmund).
c. *Sig var montað (en ekki Guðmund).
Andlagsstökksdæmi á borð við Bryndís dreif sig ekki (sjá dæmi (ii-a) í nmgr. 19) sýna að ekki
er öll færsla sig útilokuð. Eins og áður segir skiptir máli fyrir greiningu okkar á sig sem
veiku fornafni að rökliðarfærsla þess er ótæk.