Gríma - 01.09.1941, Page 94
72
HULDUFÓLKSSÖGUR
g. Huldumaður hefnir sín.
[Handr. Sigurðar Sumarliðasonar á Akureyri. Sögn föður hans,
Sumarliða Ólafssonar, 1906].
Snemma á 19. öld bjó bóndi sá á Búlandi í Skaft-
ártungu, er Jón hét. Hann var kvæntur og átti tvær
dætur, er við sögu þessa koma, Kristínu og Mar-
grétu. Nálægt 1815, þegar Kristín var þrettán ára
gömul, en Margrét tíu, voru þær systur eitt sinn að
smala kvíám fram með Skaftárgljúfri. Fór Kristín
þá að leika sér að því að velta steinum ofan í gljúfr-
ið; bannaði Margrét henni það, en hún gegndi því
eigi og hélt áfram. Sá þá Margrét mann nokkurn
koma upp úr gljúfrinu, og þegar hann var nærri því
kominn til þeirra, tók hann upp stein og kastaði
honum í bakið á Kristínu. Rak hún upp hátt hljóð
og hneig þegar niður, en maðurinn hvarf aftur ofan
í gljúfrið. Komst Kristín aðeins fáa faðma frá gljúf-
urbarminum og lagðist þar fyrir, en Margrét hljóp
heim að Búlandi sem fætur toguðu til að sækja
mannhjálp. Var Kristín þegar sótt og flutt heim. Lá
hún lengi rúmföst, komst samt á fætur aftur, en
gekk ávallt hálfbogin upp frá því, og mátti heita, að
hún lifði við örkuml það sem eftir var ævinnar. —
Kristín sá ekki manninn, sem kastaði í hana steinin-
um, en Margrét var skyggn og sá margt dularfullt
síðar á ævinni.
Frásagnarmaður þessa atburðar er systursonur
Kristínar Jónsdóttur, sem fyrir áverkanum varð.