Bændablaðið - 05.10.2017, Blaðsíða 48

Bændablaðið - 05.10.2017, Blaðsíða 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. október 2017 Menn setur hljóða. Það er líklega raunsannasta lýsingin sem ég hef heyrt á því hvað er að gerast í sveit- um landsins í dag. Afurðastöðvar okkar neyðast til að bregðast við taprekstri með því að lækka verð á lambakjöti til okkar bænda og það ekkert smá. Nú er svo að sauðfjárbændur eru fráleitt einsleit stétt, ætla ég að segja hér frá nokkrum dæmum um hve fjölbreytt þessi stétt er, bið hlutaðeig- andi strax afsökunar ef þeir þekkja sjálfan sig eða aðra af lýsingum. Á bæ í litlu dalverpi býr kona rétt um sextugt með manni sínum með tæp tvö hundruð fjár, afurðir góðar. Lítið bú og vel rekið, til fyrirmynd- ar. Skuldir líklega engar og sparlega farið með alla hluti. Maðurinn sinn- ir flestum þeim störfum af bæ sem hann kemst í eða langar að sækja, á milli þess sem hann veiðir silung í vatni ásamt konu sinni sem hún síðan flakar, reykir og selur eða hugar að æðavarpi. Hver þriðjungur tekna kemur af silungi og dún, sauðfé og útseldri vinnu. Stórbýli við heiðarsporð, tæpt þúsund kinda, tvær fjölskyldur búa. Yngri konan sækir vinnu af bæ, hin stunda búskapinn, laxveiðitekjur einhverjar. Skuldir einhverjar, rekstur í ágætu horfi. Tekjur af sauðfé 70%, Utan bús tekjur 20% og veiðitekjur 10%. Gnægtarjörð í afskekktum dal í grónum firði. Þar hafa í áratug búið par á milli fertugs og fimmtugs ásamt dætrum tveim. Áttu sjóð þegar þau hófu búskap og ákváðu að byggja upp jörðina sem var orðin hrörleg. Langt að sækja aðra vinnu og vilja það ekki, hafa ekki þurft þess. Skulda nokkuð. Einungis tekjur af sauðfé. Í sama firði býr garðyrkju- fræðingur nokkuð utar. Á hundrað kindur. Keypti jörðina fyrir 8 árum. Skuldar nokkuð. Starfar að mestu utan bús, sinnir fénu utan vinnutíma. Tekjur af sauðfé 20%. Lykilmaður í smalamennskum. Í þorpi norður við haf er karl með um 60 kindur. Starfar annars í góðu fyrirtæki. Tekur sumarfríið í september til að geta sinnt smala- mennskum með sveitungum sínum. Tekjur af sauðfé 10%. Lykilmaður í sínu héraði. Kannski kemst það ekki til skila, það sem ég vildi sagt hafa, en sauðfjárbændur eru gríðarlega fjölbreytt stétt og mikilvægi afurðatekna hvers þeirra er gríðarlega misjafnt fyrir afkomu þeirra. En höggið mun koma verst við þá sem reiða sig eingöngu á tekjur af sauðfé, hafa byggt upp og keypt jarðir og skulda því þess vegna. Duglega fólkið sem oft myndar kjarnann í hverju samfélagi. En síðan höfum við stoðkerfið, karlinn í þorpinu sem sér til þess að smalað verði vel, þekkir heiðina og miðlar reynslunni, kann söguna. Konuna í dalverpinu sem leggur til silunginn á flatbrauðið. Allir þessir sauðfjárbændur eru mikilvægir og því getum við ekki leyft okkur þá hugsun að ætla okkur að fara að gera upp á milli þeirra í þeim efnahagslegu harðindum sem framundan eru. Við sauðfjárbændur stöndum saman því við erum dreifbýlisfólkið og vitum að sundrung hefur aldrei skilað okkur neinu. Hagræðing En það er ljóst að það verður að hagræða! Þegar tekjurnar hrökkva ekki til, þá verður að skera niður útgjöldin. Það er auðvelt að æpa út í loftið að þessi og hinn maki krókinn á því að nenna ekki að vinna sína vinnu. Það er auðvelt að kenna afurðastöðvunum um að vilja arðræna okkur. En trúum við því virkilega að Sigurgeir á Hríshóli, Þórarinn í Keldudal, Merete á Hrauni, Gunnar á Þóroddstöðum, Björn Víkingur í Sandfellshaga, Skúli á Refstað eða Sverrir á Kirkjubæjarklaustri vilji gera bændum illt? Eða getur staðan verið að þau séu jafn ráðalaus og við hin. Því sé hin eina raunhæfa leið að draga saman, lækka verðið til að minnka framboðið og vona að bændur dragi þannig saman framleiðsluna. Því ekki viljum við bændur setja þessi fyrirtæki okkar á hausinn, þá fyrst yrði tjónið stórt. Smásöluverð Smásöluverð kindakjöts, eða það verð sem neytendur eru tilbúnir að greiða fyrir kjötið okkar, er hinn endanlegi verðmiði sem settur er á afurðir okkar. Það verð skiptist á milli verslunar, banka, gre iðs lumiðlunarfyr i r tækja , flutningsaðila, afurðastöðva og bænda. Mig grunar að skiptingin sé ekki fjarri því að bóndinn fái tæpan þriðjung, aðrir hina tvo. Þessi skipting er mín ágiskun, byggð á einhverju meðalverði. Kannski ekki fjarri lagi? Þannig ef bóndinn á að fá hærra verð þá þarf að hagræða alla leiðina. Ef þessi ágiskun mín er rétt þá fá bankarnir um 400 milljónir á ári í afurðalánsvexti, Það kostar verslunina um 2,7 milljarða að selja fyrir okkur kjötið. Það kostar afurðastöðvarnar um 3,2 milljarða að breyta afurð okkar í mat. Verðfallið til okkar á síðustu tveim árum er ríflega 1,7 milljarðar. Þannig að afurðageirinn þarf að hagræða, bændur þurfa að hagræða. Verslunin þarf að hagræða því hvernig stendur á því að hún þarf svona hátt hlutfall smásöluverðsins. Bankarnir þurfa að hagræða. En kannski er það ekki hægt? Ég vildi að ég vissi svarið. En trúi því þó að ávallt leynast tækifæri. Það þarf bara að koma auga á þau og vilja notfæra sér þau. Byggðirnar okkar Við viljum ekki gefast upp, við ætlum ekki að fara. Ef þetta væru náttúruhamfarir þá væri engin spurning, við myndum berjast. En þetta eru mannanna verk. Alþingi Íslendinga í umboði skattgreiðenda leggur greininni til um 4,9 milljarða á þessu ári og nánast allur hluti þess fjár rennur til bænda. Þannig að vilji þess er skýr; haldið áfram að búa þetta land og hef ég engan þingmann segja að hann sé á móti því, þótt menn deili um leiðir og aðferðir. En nú er hin stoð þessarar framleiðslu brostin, afurðatekjurnar verða lægri en ríkisstuðningurinn. Það er gríðarlega vont mál, út frá svo mörgum hliðum. Landbúnaðarráðherrann skildi ekki málið eða var sama og gerði ekki neitt fyrr en alltof seint, aðrir þingmenn brugðust. Sauðfjárbændur vilja skýrar leikreglur og vilja hafa vægi á móti stóru fjármagnsöflunum sem vita að Ísland er hávöruverðs markaður. Þeirra sem vilja kaupa matinn okkar ódýrt í láglauna löndum og flytja hann inn til að selja okkur hann dýrt og græða vel. Af hverju halda menn annars að Costco hafi komið?! Þessir aðilar tala í hundruðum milljarða, við sauðfjárbændur tölum bara í milljónum eða hundrað þúsundum. Þetta vildum við að stjórnvöld hjálpuðu okkur við. En nei, við erum skilin eftir ein með vandann. Kannski hafa þingmenn bara gefist upp. Kannski eru bara engin ráð. Kannski á verslun og fjármagnsöfl að ráða hér öllu og við hin bara að vera bláeygðir neytendur sem sjáum þeim fyrir gróðanum. Frekar en skipta gæðum og kostum á milli okkar, heildinni til hagsbóta. Hvað er þá til ráða? Ég óttast að fyrir um 1/6 sauðfjár- bænda séu fáir valkostir, þeir munu nudda áfram, lengja í skuldaklafanum þar til þeir komast ekki lengur áfram og uppgjöfin verður algjör. Þetta eru um 400 bændur, líklega ríflega 1000-1500 manns sem búa núna við algjöra óvissu um framtíðina. Einhverjir dalir fara í eyði, einhver sveitin fer í eyði, verður það Árneshreppur, Barðaströnd, Suður-Firðirnir, Skaftárhreppur, Melrakkaslétta, Reykhólaströnd eða hver? Sem betur fer trúi ég því að hinir 2000 bændurnir muni þrauka og bíða betri tíma, finna sér aukatekjur, spara og ganga á eignir, að þeim standa líklega aðrar 6000 manneskjur. Byggðamál – Menningin Málið er svo miklu stærra en að það snúist eingöngu um landbúnað og framleiðslu á kindakjöti. Það snýst um grundvöll byggðar innstu dala og ystu nesja. Það snýst um hvers konar Ísland við ætlum að sýna gestum okkar, ferðamönnunum sem nú eru orðinm undurstöðuatvinnuvegur. Það snýst um að viðhalda þúsund ára menningu. Það snýst um það hvernig menn hafa búið hér á landi í þúsund ár. Það snýst um að vita hvað hóllinn þarna heitir og af hverju hann heitir það. Ef dugur væri í stjórnmálamönnum okkar, væru nú þegar komin í gang öflug verkefni sem lúta að því að fjölga atvinnumöguleikum í dreifbýli. Hjálpa fólki að finna sín tækifæri, finna hina fjölina sem má byggja með. Þau tækifæri eru ófá og mörg ábatasöm. En það hefur verið svo duglega molað niður alla innviði sem snúa að ráðgjöf og fræðslu til landbúnaðarbyggðanna. Landbúnaðarháskólinn og rann- sóknar stofnanir s.s. skógræktin skornar niður í trog. Leiðbeiningar- miðstöðvarnar látnar sérhæfa sig í einhæfum búgreinum. Og fjölbreytileikinn sem þó einkennir sveitirnar fær helst ekki að dafna, en er hann þó líklega það sem mun verða helsta bjargráðið í dag. Til hvers er ljósleiðaravæðingin ef það á síðan ekki að gefa sveitafólkinu tækifæri til að búa til möguleikana sem hún gefur? Holti Þistilfirði 28. september 2017 Sigurður Þór Guðmundsson bóndi, oddviti og formaður Búnaðarsambands Norður- Þingeyinga LESENDABÁS Verðfall – hvað gerist? – Hin mörgu andlit sauðfjárbúskapar Bóndi 370 30,8% Afurðarstöð 400 33,3% Afurðarlánsveitandi 50 4,2% Flutningar 20 1,7% Greiðslumiðlun 18 1,5% Verslun 342 28,5% Þótt nú gefi á bátinn í útflutningi á lambakjöti er víða að finna ljós í myrkrinu. Útlit er fyrir að sala til Whole Foods nái nýjum hæðum í ár og nýtt verkefni í Japan gengur vonum framar. Eins er í undirbúningi sókn inn á Þýskalandsmarkað. Öll þessi verkefni eiga það sameiginlegt að byggt er á hreinleika, gæðum og sögu íslenska lambakjötsins. Þau eiga það líka sameiginlegt að geta skilað viðunandi verði þrátt fyrir hátt gengi íslensku krónunnar. Markaðir þar sem ekki er lögð áhersla á upprunann hafa hins vegar gefið verulega eftir og sú eftirgjöf birtist bændum nú í lækkuðu afurðaverði. Hrein náttúra skilar sér í budduna Velgengni íslensks atvinnulífs á undanförnum árum og áratugum byggir að stórum hluta á því að okkur hefur lánast að gera hreinleika lands og sjávar að verðmætum sem neytendur eru tilbúnir að borga fyrir. Hluti af því verði sem við fáum fyrir fisk eða aðrar matvörur í útflutningi er tilkominn vegna þess að þetta eru vörur frá einu hreinasta landi heims. Að sama skapi skiptir náttúran sköpum við markaðssetningu á landinu til erlendra ferðamanna. Þessi rök eiga líka við um íslenskar matvörur sem seldar eru innanlands. Íslenskir neytendur vita að sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér er ein sú allra minnsta í heimi. Hér er bannað að nota erfðabreytt fóður í sauðfjárrækt, hormóna eða vaxtarhvetjandi lyf. Áburðarnotkun er lítil og eiturefnanotkun hverfandi. Við notum að mestu græna orku, dýravelferð er á háu stigi og umgengni um náttúruauðlindir með ábyrgum hætti bæði til sjávar og sveita. Íslensk náttúra, hreinleiki og sérstaða skila þannig beinum tekjum fyrir fjölmörg fyrirtæki og eru grundvöllur verðmætasköpunar og starfa um allt land. Það njóta því allir Íslendingar þess sem vel er gert í umhverfismálum. Það er óháð því hvort þeir leggja eitthvað af mörkum eða ekki. Því er eðlilegt að ríkið taki að sér ákveðið forystuhlutverk, setji reglur og gangi á undan með góðu fordæmi til að standa vörð um þau verðmæti sem felast í hreinu umhverfi og ímynd Íslands. Hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda í vor var samþykkt stefna þar sem greinin gerir að eigin frumkvæði stórauknar kröfur varðandi rekjanleika, umhverfisfótspor og fleiri þætti. Bændur vilja að hið opinbera taki þátt í þessari vegferð. Gerð verði skýlaus krafa um að fyrir liggi upplýsingar um uppruna, dýravelferð, umhverfisfótspor, hormóna-, lyfja- og eiturefna- innihald við öll opinber innkaup. Hið opinbera er stærsti kaupandi matvöru á Íslandi. Áætlað er að ríki og sveitarfélög fæði um 100 þúsund manns á dag í mötuneytum skóla, vinnustaða, sjúkrastofnana og víðar. Þar þarf hið opinbera að ganga á undan með góðu fordæmi. Eðlilegt er að gerð sé krafa um lágmarks umhverfisfótspor við opinber innkaup. Þetta er einfalt að gera með því að setja í lög um opinber innkaup að ávallt skuli velja þá vöru sem er með minnsta umhverfisfótsporið. Með slíkri breytingu má draga verulega úr umhverfisfótspori Íslands á stuttum tíma. Almenn regla af þessu tagi mismunar ekki og stenst þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Siðleg innkaupastefna fyrir ríkið, sveitarfélög, sjúkrastofnanir, skóla og opinber fyrirtæki vegur þungt í þeirri viðleitni að standa vörð um hreinleika íslenskrar náttúru og ímynd landsins. Með þessu getur hið opinbera lagt bændum, sjómönnum, ferðaþjónustunni og fleirum lið við að verja og efla þau verðmæti sem landið og miðin eru. Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts Siðleg opinber innkaup Svavar Halldórsson. Eins og áður hefur komið fram er nú í fyrsta skipti gerð sú krafa að bændur skili skýrsluhaldi í jarðrækt til að fá jarðræktarstyrki. Þá er það einnig nýtt fyrir bændum að greiddir eru styrkir vegna þeirra túna sem eru uppskorin. Í stuttu máli sagt þurfa bændur að skrá eða fá RML til að skrá upplýsingar um ræktun og uppskeru í Jörð.is og skila skýrsluhaldinu í kjölfarið. Þá fyrst geta þeir sótt um jarðræktarstyrki og landgreiðslur í Bændatorginu. Umsóknarfrestur um jarðræktar- styrki og landgreiðslur er 20. október samkvæmt reglugerð og því þurfa bændur að hafa skilað skýrsluhaldi í jarðrækt fyrir þann tíma. Mikilvægt er að hafa í huga að allar spildur þurfa að vera hnitsettar til að komast á jarðræktarskýrslu. RML tekur að sér að skrá skýrsluhaldið fyrir þá sem þess óska og aðstoða við þá skráningu eftir því sem þarf. Innheimt er fyrir þá þjónustu samkvæmt tímaskráningu og gildandi gjaldskrá. Þeir sem óska eftir þjónustu RML í þessum efnum ættu að huga að því fyrr en seinna svo raunhæft verði að sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur innan tilsetts tíma. Skýrsluhald í jarðrækt í Jörð.is Borgar Páll Bragason Fagstjóri í nytjapðlöntum bpb@rml.is
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.