Gerðir kirkjuþings - 2019, Qupperneq 30
30 31
Samþykktir kirkjuráðs um starf og rekstur Skálholts og Skálholtaskóla frá 22. febrúar
2012. (fskj. 5).
Tillögur stjórnar Skálholts og lagahóps kirkjuráðs frá 4. júní 2019. (fskj. 6).
Skýrsla Kolbeins Kolbeinssonar verkfræðings um Stefnumörkun til framtíðar dags. 5.
maí 2019. (fskj. 7).
Fundargerðir stjórnar Skálholts og skólaráðs Skálholtsskóla. (fskj. 8).
– Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju.
Stjórn Skálholtsstaðar samþykkti stofnun Verndarsjóðs Skálholtdómkirkju með
skipulagsskrá dags. 11. ágúst 2016. Markmið sjóðsins var að afla fjármuna, varðveita þá
og ráðstafa til endurbóta og viðhalds í og við Skálholtsdómkirkju, m.a. listglugga Gerðar
Helgadóttur o.fl. Stjórn sjóðsins var skipur þremur mönnum, og þremur til vara. Biskup
tilnefndi einn stjórnarmann og einn til vara, kirkjuráðs einn og til vara og biskup og
kirkjuráð ein stjórnarmann sameiginlega og einn til vara. Skipunartími stjórnar var til 30.
júní 2019. Í stjórn sátu Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, sr. Hreinn S. Hákonarson,
fangaprestur og Margrét Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Varamenn voru sr. Egill Hallgrímsson, Jóhann Snorri Bjarnason, stöðvarstjóri Sognstöðva
og Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur.
Stjórn Verndarsjóðsins hefur starfað ötullega að því að kynna verkefnið og afla þess
fjár frá fyrirtækjum og einkaaðilum. Í upphafi verksins lagði kirkjuráð út fyrir verkinu
kr. 10 milljónir og var það tæplega þriðjungur kostnaðarins sem ráðið samþykkti síðar að
breyta í styrk. Annað stærsta framlag til verksins kom frá Húsafriðunarsjóði að upphæð
9 milljónir. Heildarkostnaður við verkið nam liðlega 30 milljónum og reyndist það mun
lægri upphæð en fyrst var áætlað.
Á síðasta ári lauk viðgerðum á listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd
Nínu Tryggvadóttur en þessi miklu listaverk eru þjóðargersemar. Því var fagnað með
„gluggamessu“ 16. desember s.l. með hátíðardagskrá í Skálholtsskóla og hádegisverði.
Þar var þeim fjölmörgu sem lögðu verkefninu lið þakkað. Kirkjuráð þakkar stjórn
Verndarsjóðsins fyrir störf sín.
Tónskóli þjóðkirkjunnar.
Tónskóli þjóðkirkjunnar starfar samkvæmt starfsreglum um kirkjutónlist á vegum
þjóðkirkjunnar nr. 1074/2017. Samkvæmt starfsreglunum starfrækir kirkjan Tónskóla
þjóðkirkjunnar „sem annast um menntun organista og kirkjutónlistarfræðslu þeirra og
annars tónlistarfólks innan kirkjunnar. Tónskólinn heyrir undir kirkjuráð. Skólinn starfar
eftir námsskrá sem kirkjuráð samþykkir“. Kirkjuráð skipar þriggja manna kirkjutónlistarráð
sem stjórn Tónskóla þjóðkirkjunnar og fagráð í kirkjutónlistarmálum. Í ráðinu sitja nú
Guðmundur Sigurðsson, organisti formaður, Helga Þórdís Guðmundsdóttir, organisti og sr.
Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur. Varamenn eru sr. Guðmundur Karl Brynjarsson,
sóknarprestur, Hákon Tumi Leifsson, organisti og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, prestur.
Björn Steinar Sólbergsson, organisti, er skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar.