Strandapósturinn - 01.06.1980, Page 14
á Finnbogastöðum, tók tveim höndum á móti þessum óvæntu
heimsóknargestum, sængurkonu og barni hennar, komnum úr
hákarlalegu um hávetur. Þær mæðgur dvöldust svo á Finn-
bogastöðum, þar til Jófríður var komin til fullrar heilsu.
Skömmu síðar var mærin skírð og látin heita Guðrún. Hún dó
rúmlega ársgömul hinn 19. mars 1849.
Ekki var annars getið en að Magnús á Krossnesi hafi tregðu-
laust gengizt við faðerni Guðrúnar litlu, en hitt virðist vera
ráðgáta, hvað honum gekk til þess að krefjast þess, líða það eður
leyfa, að Jófríður færi í ferð þessa, eins og hag hennar hefir þá
verið komið og honum hefir þá hlotið að vera fullljóst. Að því
skal engar getur leiða.
Atburðar þessa er sérstaklega getið hér vegna þess, að ég hygg,
að það muni vera einsdæmi á iandi hér, síðan það byggðist, að
kona hafi alið barn í hákarlalegu á hafi úti.
Heimildarmenn að framangreindri sögu eru nokkrir greina-
góðir menn. Einn meðal þeirra er Guðjón Jónsson á Kaldbak,
sem nú er áttræður að aldri. Hann kynntist mörgum, sem
mundu þá atburði, þar á meðal nokkrum, sem voru með í téðri
leguferð. Ártal og mánaðardagur og nafn barnsins er samkvæmt
prestþjónustubók Árnesprestakalls.
12