Strandapósturinn - 01.06.1980, Blaðsíða 33
þar í sjó fram á hlið við hólmann, sem kallað er Eyja. Lítilsháttar
æðarvarp var í þessum hólma. Fljótlega eftir að Guðmundur
kom þangað hóf hann framkvæmdir í því skyni að auka æðar-
varpið. Yfir nesið lét hann hlaða garð úr torfi og grjóti einnig
gróf hann skurð landmegin við garðinn. Þá bjó hann til hreiður
sjávarmegin við garðinn og í hólmanum. Efni í þessar fram-
kvæmdir sótti hann yfir Kollafjörð í svokallaðar Fannir í landi
Broddaness, en þar er hellugrjót. Þá reisti hann hræður á nesinu
af ýmsum gerðum, notaði meðal annars rellur, sauðabjöllur og
fleira. Við þessar aðgerðir tókst honum að koma upp æðarvarpi
á landi.
Vafalítið hefur Guðmundur stundað róðra eða látið gera það,
óvíst er að hann hafi gert það sjálfur, þar sem hann var mjög
upptekinn við bátasmíðina. Hrognkelsaveiðar lét hann stunda
og lagði netin meðfram ströndinni. Hann byggði hús á Kolla-
fjarðarnesi skammt frá bænum. Þar stundaði hann bátasmíðar.
Húsið var það rúmgott að hann mun hafa smíðað þar inni allt
upp í fimm manna för. Eldri maður úr Strandasýslu hefur tjáð
mér að hann muni eftir átta bátum sem Guðmundur smíðaði á
Kollafjarðarnesi og allir voru gerðir út við Steingrímsfjörð, en
telur að þeir hafi vafalaust verið fleiri. Meðal þessara báta voru
Valur á Smáhömrum og Hringur á Heydalsá. Síðasti báturinn
sem Guðmundur lagði kjölinn að á Kollafjarðarnesi var Sæ-
björninn sem lengi var gerður út frá Smáhömrum. Smíði hans
var ekki lokið er Guðmundur flutti inn í Hrútafjörð, aðrir luku
því verki, líklega fóstursynir Guðmundar, bræðurnir Ólafur og
Bárður Guðmundssynir, er báðir höfðu unnið að bátasmíðinni á
Kollafjarðarnesi. Síðar varð Ólafur Guðmundsson formaður á
Sæbirninum og enn síðar Jónatan Benediktsson fyrrverandi
kaupfélagsstjóri á Hólmavík er stjórnaði honum margar vertíðir.
Guðmundur Bárðarson var hreppstjóri Kirkjubólshrepps um
áraraðir. Á þeim tímum var hreppsstjórastarfið með allt öðrum
hætti en nú er. Á þeim hvíldu öll framkvæmdamál sveitanna
auk þess fræðslumál og fátækramál. Fátækramálin voru um-
fangsmikil á þessum árum, vandmeðfarin og viðkvæm. Sterkar
líkur benda til þess að Guðmundur hafi verið mannlegur og
31