Strandapósturinn - 01.06.1980, Blaðsíða 116
þeim biðja þeir þess, að komið verði með krafttalíu eða annan
útbúnað til að bjarga trillunni frá sjó í Drangavík. Nú vissum við
ekki, hvað komið hafði fyrir, eða hvernig á því stóð að báturinn
var í Drangavík, þar sem ekki kom skýring á því. Ég var fenginn
til að fara norður og hafði með mér krafttalíu.
Ég var fluttur á bát norður yfir Ófeigsjarðarflóann í hlíðina
innanvert við Drangavík, og gekk ég þaðan og bar blökkina á
bakinu. Um hádegið var ég kominn norður að Drangavíkurá.
Þar sá ég hvar trillan var á floti í ánni og var bundin við annan
árbakkann. Kristinn og Magnús sá ég ekki. Beið ég þangað til
komið var rökkur, en þá komu þeir loks norðan frá Dröngum, og
höfðu þeir fundið kindurnar, sem þeir voru að lcita að og rekið
með sér. En þegar þeir komu út í Drangaskörð hlupu þær í
kletta. Urðu þeir að ganga frá þeim þar.
Þeir sögðu mér nú af ferðum sínum: Þegar þeir fóru norður
hafði veðrið verið sæmilegt norður að Drangaskörðum, en þá
kom þar á móti þeim vestan hvassviðri út með Skörðunum að
norðanverðu, og var með öllu ófært að halda áfram. Sneru þeir
því við og fóru inn á Drangavíkina og ætluðu að bíða þar uns
hægði. Undir rökkur lægði vestanrokið og fóru þeir þá af stað
aftur. En þegar útfyrir Skörðin kom, þá er enn komið norðan
hvassviðri og vaxandi sjór. Sneru þeir því enn við og fóru aftur
inn á Drangavíkina. En þar sem ekki var annað að sjá, en það
væri að ganga í norðangarð, þá ákváðu þeir að freista þess að
komast heim til Ingólfsfjarðar aftur. Þegar þeir eru rétt lagðir af
stað, þá hvessti svo mikið að þeir sáu að með öllu var ófært að
komast yfir Ófeigsfjarðarflóann. Var nú ekki um marga kosti að
velja. Hvergi var hægt að leggjast upp við landið í þessari átt.
Eins og áður er sagt rennur Drangavíkurá fram í gegnum
Drangavíkursand til sjávar. Getur áin verið nokkuð djúp á há-
flóði því að sjór fellur þá upp í hana. Ain rennur þannig í
gegnum sandinn, að þegar hún kemur niður undir sjávarmál, þá
beygir hún til norðurs, og myndast því þar dálítil eyri. Þeir
ákváðu nú að hleypa bátnum upp í ána. Þegar hér var komið,
var skollið á myrkur, og töluverður sjór. Var því mjög erfitt að
sjá, hvar ósinn var á ánni.