Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 32
Gælur þessar gerði Jón.
Gvendar var sá kundur.
Helga kveddu hátt við tón
heyrðu það Ingimundur.
Trúlegt er að Friðbjörg hafi sjálf verið hagmælt þó hún léti
það ekki uppi. Dagar sem þessir og þó aðallega rökkur- og
kveldstundir eru ógleymanlegar, þá allir á heimilinu settust að
eftir önn dagsins og miðluðu hver öðrum af margbreytilegri
lífsreynslu sinni. Síðast var hausthugvekja lesin og tilheyrandi
sálmur sunginn. Að því loknu gengu allir til náða í öryggi þess að
yfir sér væri vakað af æðri máttarvöldum. Þó stríð elfa lífsins
haldi stöðugt áfram að renna í tímans djúp lifir ljúfsár minning
um liðna haustdaga þar sem sárasti broddurinn var yddur af
vegna góðvildar þeirra kvenna sem ég á ófullkominn hátt hefi
látið hugann reika til í virðingu og þökk.
Hér fer ég fljótt yfir. Þessi vetur leið seint, að okkur fannst,
veðrátta var slæm og íshroði er á leið vetrar. Mislingar gengu um
vorið og allt ungt fólk og börn lögðust, sumir þungt haldnir, þó
fáir dæju. Ég fór til ísafjarðar með Goðafossi, nokkru eftir
sumarmálin, ætlaði aðeins að vera milli ferða en það fór á annan
veg. Mislingar bárust þangað áður en skipið kom til baka og sett
var í sóttkvi svo enginn mátti frá Isafirði fara. Þarna fékk ég
veikina, sem og allir þeir er ekki höfðu fengið hana áður. Loks
rann upp sú stund að allir voru frjálsir ferða sinna. Mislingarnir
voru komnir víða um landið svo banninu var aflétt. Það var
þröngt á þingi á Goðafossi að þessu sinni þar sem vermenn úr
verstöðvum, víða að, voru nú frelsinu fegnir að komast heim.
Veður var sem best varð á kosið og um nóttu var komið til
Norðurfjarðar. Þar þustu í land þeir sem voru úr Árneshreppi.
Með mér var drengur, sonur Ingvars og Sigurlaugar, sem ég
hafði verið hjá allan þennan tíma. Ætlaði drengurinn að vera
heima yfir sumarið. Lögðum við strax land undir fót og komum
að Árnesi um fótaferðatíma. Þar knúðum við dyra hjá nýað-
komnum presthjónum og var þar vel tekið. Séra Sveinn var
búinn að gista tvær nætur í Kjós, sumarið áður, og var mér því
30