Strandapósturinn - 01.06.1984, Blaðsíða 104
kippa drepnum úr sárinu áður en hákarlinn bylti sér, en hákarl
byltir sér alltaf á sárið. Ef menn voru óvanir og hittu ekki á
mænuna í fyrsta lagi kom fyrir að hákarlinn bylti sér svo snöggt,
að viðvaningurinn missti drepinn eða braut skaftið og þóttu það
ekki veiðimannlegar aðfarir. Þegar búið var að drepa hákarlinn
var hann dreginn meðfram hlið bátsins að vantinum. Þar hékk
heisingarífæran, stór og sterklegur járnkrókur, og var henni
stungið hnakkamegin á kaf í hausinn á hákarlinum. Þá snéri
bakið að skipshliðinni en kviðurinn frá og hákarlinn þannig
dreginn upp úr sjó og var það kallað „að heisa“. Þegar hausinn
var kominn vel upp fyrir lunninguna var skálmin tekin, en hún
var mjög lík þeirri sem notuð var í doggaróðrum, var þá skorið út
úr báðum kjaftvikum og féll kviðurinn jafnóðum niður og skorið
var og þá var sóknin losuð úr hákarlinum. Þegar kom að lifrinni
voru kólfarnir dregnir inn fyrir borðstokkinn og hún skorin laus
og féll hún þá inn á dekkið. Ef lifur féll i sjóinn var notaður stór
háfur til að innbyrða hana, þvínæst var hún látin í lifrartrektina
og rann hún þá niður í lifrarkassana sem voru í lestinni meðfram
báðum hliðum, en í miðja lestina voru látin bökin úr stærstu
hákörlunum. Væri hákarlinn það stór að hirða ætti bakið af
honum, var kviðurinn skorinn frá niður undir skaufar. Þar var
hryggurinn skorinn sundur og sporðurinn upp að skaufum
látinn fara í sjóinn aftur. Þvínæst var hryggurinn sem átti að
hirða skorinn í hæfileg stykki og þau sett niður í lest. Þegar kom
að slapalykkjunni var henni venjulega fleygt með hausnum, sem
var losaður af heisingarífærunni og fleygt. Þetta, að fleygja svona
miklu af hákarlinum, var kallaður niðurskurður og af því kom
nafnið skurðarróðrar. Þegar þessi niðurburður kom að botni,
byrjaði hákarlinn að éta draslið og varð þá stundum svo
gráðugur að hann kom í torfum upp á yfirborðið og var oft
hægt að taka hann með haka, en haki var áhald með löngu skafti
og járnkrók í endanum.
Þegar kviðurinn var skorinn af hákarlinum var alltaf skilin
eftir það breið rönd af kviðnum að nægði í haldið á lykkjunni
þegar hún var hengd upp í hjall en þá nýttist bakið betur.
102