Strandapósturinn - 01.06.1984, Qupperneq 87
Krossspýturnar
I.
Gömul kona í Árneshreppi, Sigríður Jónsdóttir í Litlu-Ávík,
sagði mér eftirfarandi sögu, og reyni ég að endursegja aðalinntak
hennar, þótt ekki verði það orðreft eftir haft:
„Mörg voru þau ráð, er þóttu gefast vel hér áður fyrr við
ýmsum vandamálum, þótt ekki þyki þau nú annað en hindur-
vitni. Það er nú t.d. um það hvað gert skuli, ef einhverjum, sem
alveg er kominn í dauðann, gengur illa að skilja við. Þá átti að
setja tvær spýtur í kross yfir brjóst hins deyjandi manns. Þetta
var stundum reynt, og þótti gefast vel.
Mig langar til að segja frá einu atviki, sem sýnir, að hér er ekki
um markleysu að ræða:
Eg var á bæ einum, þar sem gamall maður lá fyrir dauðanum.
Dögum saman barðist hann við dauðann. Það smá dró af
honum, og það var, eins og hann væri alltaf í andarslitrunum.
Auðséð var, að maðurinn leið mikið. En dauðinn lét á sér standa.
1 nokkra daga varaði þetta ástand. Ég vissi um það ráð, sem ég
minntist á hér áðan. Ég náði mér í tvær grannar spýtur og setti
þær sína hvoru megin við brjóst mannsins og lét þær hallast á
ská, þannig að þær mynduðu skákross uppi yfir brjósti hans. Svo
bað ég allt heimilisfólkið að koma inn til mannsins til bæna-
gjörðar. Og allir settust, og horfðu á manninn, sem búinn var að
þjást svo lengi í baráttunni við dauðann. Og er við höfðum öll
setið þarna hljóð um stund og beint hugum okkar til hæða, mátti
sjá, að breyting varð á manninum. Svipurinn varð allur rólegri
og værð og friður breiddist yfir andlit hans. Og áður en á löngu
leið gaf hann upp andann. Dauðinn hafði líknað honum, leyst
hann undan þjáningu og fært honum þráðan frið.
Trú mín er sú, að þetta ráð, sem hér var notað, hafi hjálpað
manninum til að geta skilið við. Og allt sem orðið getur til
hjálpar þjáðum meðbróður, á að nota, þegar nauðsyn krefur og
neyðin er stærst.“
85