Strandapósturinn - 01.06.1984, Blaðsíða 20
með, til áréttingar, vísu úr rímum sem gleymd er nú nema seinni
hlutinn sem er á þessa leið: „Sá skal vægja vísir kvað/ sem vitið
geymir meira.“
Fyrst ég er farin að minnast á rímur, þá kom það í afa hlut að
kveða öllum kvöldum (ef ekki voru lesnar sögubækur) og liðu
þau þá furðu fljótt. Við börnin vikum ekki frá afa, svo hrifin
vorum við og ekki var það létt að hafa okkur öll hangandi utan á
sér. En afi minntist aldrei á slíkt, hann gaf sig á vald kvæða-
íþróttinni. Hann las líka vel og oftast las hann kvöldhugvekjuna
á haustin og um föstuna þegar Passíusálmar voru sungnir.
Mamma las á sunnudögum, hún las mjög vel en þreytandi var
að lesa þessa löngu lestra í Péturspostillu sem voru á sunnudög-
um. Stundum var lesið í húslestrabók Páls Sigurðssonar frá
Gaulverjabæ en þeir voru ekki á öllum sunnudögum kirkjuárs-
ins. Þeir voru ekki eins langir og hinir.
Æska okkar barnanna leið í leik og starfi. Foreldrar okkar létu
sér annt um uppfræðslu þess er börnum þeirra tíma var skylt að
læra og móðir mín var býsna ströng með að kröfunum væri
fullnægt. Pabbi og mamma lásu bæði dönsku sér til nota.
Mamma las stundum smásögur og sagði okkur krökkunum svo
efnið. Pabbi lærði beykisiðn úti í Kaupmannahöfn og skildi því
og talaði dönsku sér að gagni. Mikill bókakostur var heima á þá
tíma vísu, sögur og ljóð og pabbi las mikið í mannkynssögunni.
Hann hafði góða dómgreind, athugull og orðvar. Hann deildi
lítt á annarra skoðanir en hélt þó sínum. Ekki var vitað um að
hann væri hagorður sem bræður hans, Sörli og Gísli. Báðir voru
þeir einnig listaskrifarar og vel ritfærir (Sörli dó ungur vorið
1900). Pabbi skrifaði ekki eins fagra rithönd og þeir en stílhreina
og áferðarjafna. Hann þótti góður reikningsmaður. Þyrfti að
skrifa, sem tíðum var, sjúkdómslýsingu eða annað, var það ávalt
mamma sem gerði það. Henni lét vel að orða hugsanir sinar og
skrifaði vel. Sömuleiðis gat hún brugðið fyrir sig að gera vísu þó
ekki hafi varðveist neitt af því sem hún gerði. Slíkt er gömul og
ný saga. Hvorugt var af þeirri gerð að ota sér fram.
Fyrstu ferðir sem ég man innyfir Trékyllisheiði var að faðir
minn fór viku fyrir leitir til Hólmavíkur. Þar vann hann við
18