Strandapósturinn - 01.06.1984, Side 145
Já það var svo margt öðruvísi í þá daga, ég man til dæmis vel
eftir húslestrunum sem alltaf voru lesnir á sunnudögum og öðr-
um hátíðisdögum. Faðir minn las alltaf lesturinn og eins
Passíusálmana á föstunni, og svo söng allt fólkið sálma á eftir.
Þetta lagðist niður þegar útvarpið kom, og fleira breyttist með
því, það var miklu minna spilað á spil, og allir urðu að sitja
hljóðir og hlusta á útvarpið. Mér fannst það ekki nærri eins
skemmtilegt.
Sólargangurinn er heldur stuttur í Þrúðardal, því dalurinn er
svo þröngur og fjöllin há í kring. I nóvember hætti að sjást sól en
svo sást hún aftur annan febrúar. Þá voru bakaðar pönnukökur
og gefið sólarkaffi. Svo var líka nokkuð sem hét kýrkaffi það var
þegar kýrnar voru nýbornar, þá voru bakaðar pönnukökur úr
broddinum, en það finnst mörgum sérstaklega gott.
Alltaf var vakað yfir kúm sem voru að bera, og alveg þangað
til þær voru orðnar heilar, þá voru hildirnar teknar og látnar
uppá fjósþak yfir nýbornu kúnni. Það átti að varna því að kýrin
veiktist, en það dugði nú ekki alltaf, þær fengu stundum doða, og
þá var dælt lofti í júgrin á þeim og bundin tuska fyrir spenana og
látin vera dálítinn tíma. Þetta dugði oft til að hressa doðaveikar
kýr við.
Þegar smákálfum var lógað var maginn úr þeim alltaf hirtur,
þrifinn vandlega blásinn upp og þurrkaður yfir eldavéfinni. Svo
var tekinn af honum smábiti og lagður i bleyti og vatnið haft til
að hleypa skyr. Einu sinni var mamma að þurrka kálfsmaga, þá
kom ókunnur drengur inni eldhús. Hann horfði lengi á þetta
furðuverk, og spurði svo hvað það væri. Mamma gat verið
glettin í svörum og svaraði að þetta væri nú loftbelgur. Við
hlógum mikið að þessu.
Það þekktist líka að þvagblöðrur úr kúm væru hirtar. Þær
voru þrifnar og þurrkaðar og siðan eltar þar til þær urðu hvitar
og mjúkar. Þetta vóru ágætis skjóður undir prjónadót og fleira
smávegis.
Já svona var nú margt öðruvísi sem ég man vel eftir það er svo
ótrúlegt hvað margt hefur breyst á örfáum áratugum, svo að
143