Strandapósturinn - 01.06.1984, Side 153
hafa yfir vertíðina, en nú var hægra að fá eitt og annað keypt
fyrir vestan. Það voru orðnir breyttir tímar. Svo var það oft að
menn sendu dót sitt það mesta vestur með skipi nokkru fyrir
páska en fóru svo á páskum landveg ef ekki var um skipsferð að
ræða. Þó að skipsferðir væru stundum nokkrar á þessum árum
stóð ekki ætíð svo vel á þeim að hægt væri að fá ferð um páska
vestur þó það gæti stundum verið. En hvernig yrði nú að komast
vestur yfir heiðina á morgun, það var nú í huga manns, því yrði
áframhaldandi leysing þá var vont gangfæri, vaðandi ófærð yfir
alla þessa löngu heiði.
En hvað um það, morgundagurinn myndi leiða það í ljós, það
yrði að taka því eins og það væri. Það tilheyrði nú þessum
ferðum, það vissi maður vel, og svo ekkert meira um það að tala.
Þegar Magnús á Kirkjubóli kom inn um kvöldið þá segir hann
við pabba: „Tani, nú er hann kominn norðan.“ Þá var kominn
hægur norðan vindur og farið að frysta.
Morguninn eftir var bjart og stillt veður og hafði verið talsvert
frost um nóttina, svo færð var svo ágæt sem hún best gat verið og
markaði varla spor sem kallað er. Það var búist við að yrði full
hart að komast upp og ofan hjarnfannir en það reyndist sæmi-
legt þegar til kom, svo þetta gat nú ekki betra verið. Menn voru
að koma í smáhópum neðan dalinn, þeir sem höfðu gist á bæj-
unum fyrir neðan okkur. Þetta voru menn víða að. Ur Bjarnar-
firðinum og utan af Selströnd auk okkar sem vorum að vestan-
verðu úr Steingrímsfirði. Hvað margir menn þetta hafa verið
man ég ekki nú en ég hugsa að það hafi verið um eða yfir tuttugu
manns alls, sem þá fóru yfir heiðina eða eitthvað nálægt því. Þar
sem farið er uppá heiðina nokkuð fyrir framan Kleppustaði
heitir Flókatunga og er hún brött mjög og erfið til uppgöngu og
mjög viðsjál ef harðfenni er, en í þetta sinn reyndist hún furðu
góð en mátti ekki samt harðara vera, en allt gekk vel. Þessa leið
var pabbi minn ótalsinnum oft búinn að fara eins og geta má
nærri enda þekkti hann þarna víst flest eða öll örnefni og var að
segja mér þau. Þegar kemur langt vestur er örnefni sem heitir
Sótavörðuhæð og þá á að vera um það hálfnuð heiðin. Þegar
kemur nokkuð vestur fyrir hana þá skiptast leiðir, önnur liggur
151