Strandapósturinn - 01.06.1984, Side 69
segja sjö og er það ef til vill réttara. Björgun farmsins fór í hinum
mestu handaskolum og bar þar einkum til, að í skipinu höfðu
fundist þrjú kvartil af brennivíni. Varð þá ölæði mikið á
strandstaðnum, en ölóðastur allra var sýslumaðurinn sjálfur. Á
öðrum degi björgunarstarfsins gengu drykkjulæti hans svo mjög
úr hófi fram, að menn höfðu við orð að binda hann og hneppa í
fjötra, hvað ekki var þó gert. Fyrsta dag sinn á Enginesi fór
sýslumaður fram í skipsflakið og ritaði hjá sér hvernig það var á
sig komið, lét þá einnig flytja í land nokkra vota ullarvöru og
fleira. Að öðru leyti lagði hann mest kapp á að ná eigum og
munum skipshafnarinnar og ýmsu skrani, svo sem köðlum, stól-
um, hurðum, borðbúnaði og klukku einni, sem rammlega var
fest í káetu skipsins.
Hinn 5. október hélt sýslumaður uppboð á strandstaðnum.
Var þar boðið til sölu ýmislegt er á land hafði borist, fatnaður og
ýmiss konar lausir munir, sem björgunarmenn höfðu flutt frá
borði. Hvorki lét hann virða til verðs neitt af varningi þessum né
heldur auglýsa uppboðið fyrirfram, keypti hann þar margt
sjálfur og varð honum það síðar að falli, ásamt öðrum afglöpum
í sambandi við strand þetta. Skipið hafði verið hlaðið íslenskri
útflutningsvöru eins og fyrr segir, aðallega saltkjöti og prjónlesi
að því er ætla má, þar eð Höfðakaupstaður var svokölluð
sláturhöfn í víðáttumiklu landbúnaðarhéraði. Sennilega hafa og
verið þar í einhverjum mæli útflutningsvörur Strandamanna,
þ.e. fiskur og lýsi, því að Höfðaskip átti einnig að sigla á Kúvíkur
hluta úr sumri. Heimildir greina frá því, að bjargað var á land
nokkrum tunnum af saltkjöti og saltfiski og einum prjónles-
pakka, sem björgunarmenn höfðu leyst eða rist umbúðir af og
fært svo til lands í smærri einingum. Voru sýslumanni þá gerð
orð og hann spurður að því hvort eigi mætti skera umbúðir
utanaf fleiri prjónlesströngum, sem lágu allir í sjó í skipslestinni
og þaðan óhrærandi af handafli í heilu lagi, þann verkshátt
bannaði hann með illyrðum og bölvi, svaraði mönnum ósæmi-
lega og óskaði þess, að duggufjandinn með öllu sínu drasli væri
komin út í ysta hafsauga. Voru drykkjulæti hans þá slík, að þau
hindruðu mjög alla björgunarstarfsemi.
67