Saga - 2014, Blaðsíða 57
55
löndunum og stjórna þar eftir allt öðrum reglum en giltu heima -
fyrir.45
Hugmyndasmiðir nýlendustefnunnar reistu því ókleifan múr á
milli nýlendnanna og þess sem þeir kölluðu „Evrópu“, þar sem
„Evrópa“ var fyrirmyndin sem „hinir óæðri“ reyndu að herma eftir
en gátu þó aldrei fyllilega jafnast á við.46 Indverski sagnfræðingurinn
Dipesh Chakrabarty lýsir þessu þannig að tilhneigingin sé að „lesa
sögu Indlands í samhengi við það sem vantar, er fjarri, eða er ólokið
og það túlkast sem „skortur“ [inadequacy]“. Þess vegna séu „Ind -
verjar, Afríkubúar og aðrar „frumstæðar“ þjóðir [„rude“ nations]“
dæmdar til að dveljast í „ímyndaðri biðstofu sögunnar“ — þá kann
að dreyma um að verða eins og „við“, en mun aldrei takast það.47
Þetta er kjarni „orientalismans“, ef marka má Edward Said, því að,
skrifar hann, í „Evrópu 19. aldar reistu menn mikilfenglega bygg-
ingu mennta og menningar … í andstöðu við þá sem stóðu utan við
hana (nýlendubúa, hina fátæku, afbrotamenn), en menningarlegt
hlutverk þeirra var að afmarka það sem útilokað var að þeir gætu
nokkurn tíma orðið“.48 Með öðrum orðum þá drógu Evrópubúar
upp mynd af „Austurlandabúum“ sem var þveröfug við evrópska
sjálfsmynd, en í þessari díalektísku ímyndarsköpun var lýsingum af
„Austurlöndum“ ekki aðeins ætlað að lýsa þeim heldur allt eins að
styrkja vissu Evrópubúa um eigið ágæti. Þannig átti nýlendu-
orðræðan þátt í að skapa sjálf og byggja upp sjálfstraust „Vestur -
landa búans“.49
Það er alls ekki einfalt að fella Ísland og önnur samfélög í
Norður-Atlantshafi inn í þessa „óríentalísku“ heimsmynd. Á komp-
ás nýlendustefnunnar vísuðu áttirnar „norður“ og „vestur“ oftast til
stigvaxandi „nútíma“ og „siðmenningar“, á sama hátt og „suður“
og „austur“ táknuðu „hefðir“ og „vanþróun“. Í þessu stigveldi var
Evrópa norður af Afríku og Vesturlönd vestur af Austurlöndum. En
áttirnar breyttu um merkingu þegar siglt var í norðvestur út á opið
Atlantshafið, því að í orðræðu 19. aldar þjónaði þetta svæði oft
svipuðu hlutverki og „Austurlönd“, þ.e. sem táknræn endimörk
var ísland nýlenda?
45 Sama heimild, bls. 3–34.
46 Homi Bhabha, The Location of Culture, bls. 86.
47 Dipesh Chakrabarty, Provincializing Europe. Postcolonial Thought and Historical
Difference (Princeton: Princeton University Press 1999), bls. 8 og 28.
48 Edward Said, Orientalism, bls. 228.
49 Homi Bhabha, The Location of Culture, bls. 66–84 og víðar.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 55