Saga - 2014, Blaðsíða 156
154
Enn gætir þess sjónarmiðs að stjórnmálasaga þyki gamaldags eða
að þar sé í það minnsta ekki að finna ferskustu strauma og stefnur í
fræðunum.3 Samt má ekki líta framhjá því að síðustu áratugi hefur
þessi kimi sagnfræðinnar, sem réð svo miklu áður, gerbreyst. Nú er
fjallað um fleira en stórmenni og stríð, kenningum beitt, samband
eflt við stjórnmálafræði og önnur félagsvísindi. Straumar póstmód-
ernískrar efahyggju leika líka gjarnan um stjórnmálasöguna.4 Loks
var alltaf ljóst að þótt vægi hennar í fræðasamfélaginu minnkaði
hafði almenningur og fjölmiðlafólk áfram áhuga á hinu hefðbundna
sjónarhorni. Velgengni þeirra bóka sem ég fjalla um hér staðfestir að
fólk fýsir enn að heyra frásagnir úr heimi stjórnmálanna. Allar seld-
ust þær ágætlega og fjöldi ritdóma um þær hefur þegar birst.
Ekki eru bækurnar fræðilegs eðlis. Össur Skarphéðinsson skrif -
aði sína bók einn og óstuddur, sama gerði Jónína Leósdóttir. Þótt
Björn Þór Sigbjörnsson sé reyndur blaðamaður sem kann sín sjálf -
stæðu vinnubrögð gekk hann fyrst og fremst í hlutverk skrásetjara
fyrir Steingrím J. Sigfússon. Í bókunum þremur er hvorki vísað til
heimilda né birt heimildaskrá. Þetta er ekki sagt til að lasta verkin,
enda var ætlunin aldrei að semja fræðirit. Framlag til fræðanna ligg-
ur hins vegar í þeim nýju upplýsingum sem bækurnar geyma og
fræðafólk getur moðað úr.
Þar er af mörgu að taka. Í bók Össurar má helst nefna frásagnir
af innanmeinum Samfylkingarinnar, Landsdómsmálinu, gangi við -
ræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu og samskiptum for-
seta Íslands við ríkisstjórn og ráðherra. Í minningum Steingríms J.
Sigfússonar eru átök Vinstri grænna fyrirferðarmikil og ekki síður
glíman við þann hrikalega efnahagsvanda sem stjórnin fékk í arf.
Það segir auk þess sína sögu að lengsti kafli bókarinnar er um Ice -
save-málið.
Í bók Jónínu Leósdóttur um þær Jóhönnu Sigurðardóttur eru
færri frásagnir úr heimi stjórnmálanna sem sæta tíðindum. Hér
fáum við þó staðfest, svo dæmi sé tekið, að þeir voru til sem hótuðu
forsætisráðherra öllu illu, eggjum var fleygt á útidyratröppur hjá
henni og slori eitt sinn sturtað þar.5 Einnig fæst skýr mynd af því
guðni th. jóhannesson
3 Sjá t.d. Richard J. Evans, Altered Pasts. Counterfactuals in History (Waltham:
Brandeis University Press 2014), bls. 108.
4 Sjá t.d. Susan Pedersen, „What is Political History Now?“, What is History Now?
Ritstj. David Cannadine (Basingstoke: Palgrave Macmillan 2002), bls. 36−56.
5 Jónína Leósdóttir, Við Jóhanna, bls. 185.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 154