Saga - 2014, Blaðsíða 91
89
Íslendinga og lengst af sýslumaður á Vestfjörðum 1314–1340.41 Í
Lögmannsannál og Annál Flateyjarbókar kemur fram að menn Jóns
og menn Árna Þórðarsonar höfðu barist á alþingi 1360, en í
síðarnefnda annálnum segir að Norðlendingar hafi gert samblástur
á móti Jóni árið 1359 „ok vildu eigi yfirreið hans hafa ok mættu
honum at Þverá í Vestrhópi nærri þrjú hundruð manna. Stökk hann
þá suðr um land ok fekk enga yfirreið um Norðlendingafjórðung“.42
Hér gæti verið komin skýring á því hvers vegna Smiður leit á suma
Norðlendinga sem landráðamenn þar sem þeir höfðu veitt hirðstjóra
konungs mótspyrnu.43
Við hlið þeirra Smiðs og Jóns í bardaganum var Ormur Snorra -
son, en hann komst lífs af og fékk háðuglega útreið, ef marka má
Flateyjarannál. Þar er vísað í kvæði Snjólfs skálds þar sem dregið er
dár að því að Ormur hafi leitað kirkjugriða.44 Ormur fór iðulega með
konungsumboð á þessu tímabili. Hann var lögmaður 1359–1365 og
1374–1375 en hirðstjóri 1366–1369. Ormur hefur verið einn af for -
ystumönnum Íslendinga þegar Skálholtssamþykkt var gerð, ásamt
Þorsteini Eyjólfssyni og Andrési Sveinssyni. Ormur var sonur Snorra
lögmanns Narfasonar á Skarði og þeir Ketill hirðstjóri því bræðr -
ungar. Því er ekki óvænt að hann hafi verið í liði með Jóni Gutt -
orms syni en þeir voru báðir tengdir Vestfirðingafjórðungi fremur
en Sunnlendingafjórðungi. Á hinn bóginn voru menn úr fjórðungn -
um einnig í liði Árna Þórðarsonar sem átti í höggi við Jón skráveifu
á alþingi 1361, t.d. Svartur Þorleifsson, sonur Þorleifs á Reykhól -
um.45 Sá hópur nýtur greinilega samúðar í Annál Flat eyjarbókar,
enda var Árni tengdafaðir eiganda bókarinnar, Jóns Hákonarsonar,
og Reykhólamenn virðast hafa verið nánir honum.
Í ferð með þeim Smiði, Jóni og Ormi í Grundarbardaga var
maður að nafni Þorgeir Egilsson og komst hann lífs af eins og
ísland til leigu
41 Sjá Einar Bjarnason, Íslenzkir ættstuðlar I (Reykjavík: Sögufélag 1969), bls. 171–172.
42 Islandske Annaler, bls. 278 og 407.
43 Varla þó alla Norðlendinga, enda var Bótólfur bróðir Smiðs mægður inn í
höfðingjaættir úr Skagafirði, giftur Steinunni, dóttur Hrafns Jónssonar í
Glaumbæ. Sjá Islandske Annaler, bls. 273 og 401. Sonur þeirra var Hrafn Bótólfs -
son, lögmaður norðan lands og vestan 1381–1390. Randi Wærdahl lítur á Bótólf
sem „en del av den lokale eliten“, sjá Randi Wærdahl, Norges konges rike og hans
skatt land, bls. 207.
44 Ritara Annáls Flateyjarbókar virðist raunar heldur í nöp við Orm. Hans er
einkum getið þar í neikvæðu samhengi, sjá Islandske Annaler, bls. 408–409 og 414.
45 Islandske Annaler, bls. 407.
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 89