Saga - 2014, Blaðsíða 199
RITDÓMAR
Guðný Hallgrímsdóttir, SAGAN AF GUÐRÚNU KETILSDÓTTUR.
EINSÖGURANNSÓKN Á ÆVI 18. ALDAR VINNUKONU. Sýnisbók
íslenskrar alþýðumenningar 16. Ritstjórar Davíð Ólafsson, Már Jónsson
og Sigurður Gylfi Magnússon. Reykjavík 2013. 173 bls. Myndir, kort,
heimildaskrá, myndaskrá, textaútgáfur.
Út er komið enn eitt rit í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og
eru þau nú alls orðin 16 á jafnmörgum árum en fyrsta bindið kom út 1997.
Líta verður á það sem glæsilegan árangur. Flest ritin eiga augljóslega heima
í ritröðinni og bæta mörg hver miklu við þekkingu okkar á alþýðumenn-
ingu, eins og það rit sem hér er til umfjöllunar. Það vekur þó athygli að hátt
í þriðjungur ritraðarinnar er útgáfur á veraldlegum og kirkjulegum dóma-
bókum, auk Jónsbókar, sem ekki snúast um alþýðumenningu heldur eru
fyrst og fremst opinber gögn. Ekki er þó að efa að á grundvelli þeirra er
mögulegt að stunda ýmiskonar rannsóknir, m.a. á sviði alþýðumenningar.
Í riti sínu dregur Guðný Hallgrímsdóttir fram sannkallaða alþýðukonu frá
18. öld sem þó hefur ekki legið í þagnargildi allan þann tíma eins og flestar
stéttar- og kynsystur hennar. Brot úr sögu Guðrúnar Ketilsdóttur var fært í
letur eftir hennar eigin frásögn þegar hún var komin á efri ár. Margt bendir
til að af því hafi verið gerð mörg afrit, jafnvel fram á 20. öld, þótt aðeins fá
séu varðveitt, og textinn hefur verið gefinn út áður, í þjóðsagnasafninu
Grímu (1929).
Rannsóknir Guðnýjar Hallgrímsdóttur á Guðrúnu Ketilsdóttur og ævi-
sögubroti hennar hafa tvær hliðar og eru báðar athyglisverðar. Önnur lýtur
að handritinu sjálfu og sögupersónunni og þar beitir Guðný aðferðum ein-
sögunnar. Hin snýst um vinnubrögð, áherslur og túlkanir við söfnun,
útgáfu og skráningu á þjóðfræðilegu efni og þá ekki síst því sem tengist
konum. Guðný fjallar nokkuð um skráningu handrita, einkum í handrita-
deild Landsbókasafns á fyrri hluta 20. aldar. Skráning handrita, skjala og
annarra heimildasafna leggur grunn að síðari tíma rannsóknum, skapar
hugmyndir um efniviðinn sem fyrir hendi er og mótar allt mat fræðimanna
á því hvað sé mögulegt eða frjótt að kanna og hvað ekki. Þannig má segja
að með skráningu handrita- og skjalasafna séu ákveðin viðmið (paradigm)
fest í sessi, þar til einhver fer í saumana á skránum og gagnrýnir þær út frá
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 197