Saga - 2014, Blaðsíða 69
67
„hinna“, um leið og þeir mótuðu hugmyndir þeirra sem lýst var í
textunum um sjálfa sig.100
Íslendingar voru að vonum afar viðkvæmir fyrir frásögnum af
meintum framandleika sínum, þótt farið væri háðulegum orðum í
íslenskum blöðum um lýsingar á Íslandi; þær þóttu ósanngjarnar og
fáránlegar ef ekki hreint ósannar.101 Og fátt sveið þeim sárar en
þegar þeir voru flokkaðir með „óæðri kynþáttum“, sem birtist m.a.
í fréttum í erlendum blöðum þar sem því var haldið fram „að vér
séum skrælingjar, einhversstaðar á norðurhveli jarðar, búum í snjó-
húsum, klæðumst skinnum og lifum á selskjöti“, svo vitnað sé af
handahófi í íslenska blaðagrein frá fyrri hluta síðustu aldar.102
Lýsandi dæmi um sams konar ótta má finna í grein Sigurðar málara
Guðmundssonar um stofnun „fornmenja- og þjóðgripasafns“ á
Íslandi sem hann birti í Þjóðólfi árið 1864. Þar sagði Sigurður einn
aðaltilgang safnsins þann að verja sóma föðurlandsins og „fría oss
frá því áliti útlendra, að vér ætíð höfum verið varnarlausir aumingj-
ar, sem ekkert höfum átt í oss eða á, og ekkert nema moldarkofa að
skríða inn í eins og skrælingjar; þetta álit útlendra festist við oss, ef
vér ekki sýnum svart á hvítu, að það sé lýgi …“103
Óttinn við „skrælingjastimpilinn“ kom með hvað ákveðnustum
hætti fram í viðbrögðum Íslendinga á fyrsta áratug síðustu aldar við
ýmsum uppákomum þar sem Íslandi var blandað saman við aðrar
lendur Danakonungs í Atlantshafi, og þá einkum Grænland og
Vestur-Indíur. Árið 1904 andmælti t.a.m. óþekktur höfundur í blaði
landvarnarmanna, Ingólfi, harðlega þátttöku „danskra Íslendinga“ í
nýstofnuðum félagsskap sem hann sagði að landsmenn sínir nefndu
almennt „Skrælingjafélagið“. Hér var um að ræða danskt félag sem
hét upphaflega De danske Atlanterhavsøer og var stofnað árið 1902 í
því skyni að „styrkja sambandið á milli Danmerkur og fjarlægari
ríkishluta: Færeyja, Íslands, Grænlands og dönsku Vestur-Indía“,
eins og segir í stuttu ágripi af sögu félagsins á heimasíðu arftaka
þess, sem enn er við lýði, „Danes Worldwide“.104 Þótti höfundinum
var ísland nýlenda?
100 Sbr. Edward Said, Orientalism, bls. 42.
101 Sbr. ritdóm Jóns Stefánssonar um Pauvre Islande!: „Aumingja Ísland“, Þjóð -
ólfur 30. maí 1890, bls. 101–102.
102 „1943“, Ísland 18. ágúst 1928, bls. 1.
103 Sigurður Guðmundsson, „Fornmenja og þjóðgripasafnið í Reykjavík“, Þjóð -
ólfur 25. janúar 1864, bls. 43–45 (tilvitnun á bls. 45).
104 Vef. „Globale danskere i snart 100 år“. Danes Worldwide. Om os. Historie.
http://www.danes.dk/om-os/historie/ (sótt 22. júlí 2013); sbr. Frederik
Saga vor 2014_Saga haust 2004 - NOTA 5.5.2014 12:02 Page 67