Bændablaðið - 16.12.2021, Blaðsíða 32
Bændablaðið | Fimmtudagur 16. desember 202132
LÍF&STARF
Á dögunum lagðist greinarhöfundur
í lestur á hinu merka riti Gunnars
Þórs Bjarnasonar, Þegar sið-
menningin fór fjandans til – og svo
hinni sískemmtilegu bók, Íslenskir
þjóðhættir, þar sem ávallt má finna
áhugaverðan fróðleik. Ekki var
hægt annað en að miðla aðeins eftir
lesninguna og krydda með aðstoð
vefsíðunnar timarit.is. Þannig var að
í kringum aldamótin 1900 breyttust
neysluvenjur Íslendinga – m.a. vegna
ört vaxandi utanlandsverslunar og
innflutnings og verður sagan rakin
að örlitlu leyti hér á eftir.
Áður höfðu takmarkanir sett svip
sinn á íslensku þjóðina sem var vönust
því að skammta sér naumt, en um
þessar mundir tók bændaþjóðfélagið
að víkja fyrir borgarsamfélagi.
Verslunum fjölgaði og þótti hvað
mest móðins að deildaskipta þeim
með hið danska Magasin du Nord
að fyrirmynd.
Sú verslun er bar hvað hæst var
Thomsens Magasin, sem upphaflega
var stofnað árið 1837 af Ditlev
Thomsen eldri – er svo var kallaður –
en á þessum tíma rak verslunina þriðji
ættliður hans, Ditlev Thomsen yngri.
Gósentíð Thomsens Magasin
Samkvæmt texta frá Borgar-
skjalasafni Reykjavíkur kemur fram að
Thomsens Magasin var stærsta verslun
landsins árið 1907. Á þessari gósentíð
skiptist verslunin í margar deildir. Til
að mynda basardeild þar sem selt var
ýmiss konar fínerí, stássgripir, gull og
silfurvörur, barnaleikföng og fleira,
ferðamannadeild, húsgagnadeild, járn-
og leirvörudeild, karlmannafatadeild,
kvenfata- og vefnaðarvörudeild
auk kvenhattadeildar. Þar var nú
aldeilis mikið um að vera þegar
kom að saumaskap, enda rúm tylft
saumakvenna að störfum.
Svipaður fjöldi hins kynsins
sat reyndar við sauma hjá
karlmannafatadeildinni en hún
auglýsti m.a. að þar gætu karlmenn
„breyst frá hvirfli til ilja og orðið
nýir menn á svipstundu“. Svo mátti
finna kjallaradeild, matvörudeild,
nýlendudeild, pakkhúsdeild,
skófatnaðardeild, strandferðadeild,
vindladeild og skrifstofudeild ...
en á vegum Thomsens Magasin
var einnig rekin kjólasaumastofa,
gosdrykkjaverksmiðja, skraddara-
verkstæði, trésmíðaverkstæði,
sláturhús, svínabú, reykingarofn,
niðursuða, veitinga- og biljarðstofa,
vindlaverksmiðja, þar sem vindla-
kassar náðu upp undir loft, og loks
brjóstsykursverksmiðja, sem var
fræg fyrir gómsætan brjóstsykur.
Umsvifin voru mikil og veltan
stórkostleg.
Spegepylsur, kveiti
og annað gómsæti
Áhugavert er að rýna í auglýsingar frá
þessum tíma, en meðal annars auglýsir
Thomsens Magasinið Roquefort osta,
danska mysuosta og annað með eilítið
framandi stafsetningu. „Pilsburi
kveitið góða“ er vinsælt, „Picles“ og
„Lipton teið fræga“, „spegepylsur“
og jafnvel „möblur“ sem staðsettar
voru þá í húsgagnadeildinni.
Thomsens Magasin fór mikinn í
auglýsingaherferðum og má finna
margar auglýsingar verslunarinnar í
hverju dagblaði.
Aðrir kaupmenn, örlítið minni
í umsvifum og hógværari, bjóða
upp á „marg-eftirspurðan kandís“,
lyfjavötn, þvottavötn og hárvötn auk
þess sem sjókólaðe-tegundir voru afar
vinsælar og auglýstar víða. Auglýsing
ein sem birtist í Kvennablaðinu árið
1903 frá hinni „Konunglegu Hirð-
Verksmiðju“ vekur sérstaka athygli.
Þar er því komið á framfæri að:
„Bræðurnir Cloetta mæla með sínum
viðurkendu Sjókólaðe tegundum, sem
eingöngu eru búnar til úr fínasta
Kakaó, sykri og Vanille. Ennfremur
kakaópúlver af beztu tegund.“
Niðurlag auglýsingarinnar er á þá
leið að varan fái ágæta vitnisburði frá
efnafræðirannsóknarstofum.
Áfengi og tóbak var þó nokkuð um,
a.m.k. fram að árinu 1912 og kepptust
kaupmenn um að selja slíkt á sem
bestum prís. Ekki ber á öðru en í
Reykjavík hafi þarna verið gnægta-
brunnur góðæris og þó ekki væðu allir
í velllystingum var íslenska þjóðin í
heild sinni betur stödd en oft áður.
Viðskiptakreppa og vöruskortur
En svo hófst fyrri heimsstyrjöldin.
Árin í kringum þann tíma kollvörpuðu
því góðæri sem hafði verið við lýði.
Vaxandi uggur var í fólki vegna stopulli
siglinga til landsins og samkvæmt
tölublaðinu Samvinnan, árgerð 1977,
lagðist alþjóðleg viðskiptakreppa á
árið 1907. Nokkrum árum síðar, árið
1915, leystist svo þriggja kynslóða
Thomsen-veldið endanlega upp.
Var talið að vegna tengsla sinna
við Þýskaland og í raun líka vegna
þjóðernishyggju sem var á þessum
árum nokkuð í tísku hjá Íslendingum,
hafi Thomsen-ættin með sínar dönsku
tengingar ekki átt upp á pallborðið hjá
lánardrottnum en deildir Thomsens
Magasin lokuðu hver á fætur annarri
frá því að viðskiptakreppan hófst.
Ditlev Thomsen fluttist í kjölfarið
búferlum til Kaupmannahafnar ásamt
fjölskyldu sinni og hélt þar áfram ferli
sínum sem stórkaupmaður.
Þrengingar þjóðarinnar urðu til
þess að líta varð sér nær. Samkvæmt
grein í vikublaðinu Nirði á Ísafirði, í
aprílmánuði árið 1917, er vöruskortur
nokkur og vill greinarhöfundur meina
að það sem kæmi til landsins færi mest
allt til Reykvíkinga. Vestfirðingar sætu
á hakanum og á meðan Reykvíkingar
hefðu í sig af smjöri, sykri og
mjólk kæmi lítið sem ekkert vestur.
Greinarhöfundur kennir land-
stjórninni um og klykkir út með
orðunum „Al svo önn fyrir Reykjavík
að eigi afrækir þú Ísafjörð.“
Sandblandað rúgbrauð
En sykur og aðrar vörur voru þó
ekki á hverju strái í henni Reykjavík.
Seinna á árinu kemur tilkynning í
Morgunblaðinu þar sem lýst er óförum
rúgbrauðskaupanda. Viðkomandi hafði
í tvígang fest kaup á slíku hnossgæti
en í bæði skiptin reyndust brauðin
óæt vegna þess að í þeim var sandur.
Vill sá er tilkynninguna inn sendir
vekja máls á þessu opinberlega, að
nauðsyn sé á rannsókn, en sandurinn
sé væntanlega í rúgmjölinu sem er
innflutt frá Danmörku.
Í sama blaði er lítið um
auglýsingar. Harðfiskur, tóbak og
þvottasápa helst eitthvað sem gladdi
augað enda næsta víst að lítið var
um varning í matvöruverslunum.
Vöruskömmtun hafði hafið innreið
sína og skömmtunarseðlar litið dagsins
ljós. Lá við slagsmálum þegar kom
að úthlutunum þeirra því ekki voru
allir svo heppnir að fá slíka seðla í
sínar hendur.
Sykurhneykslið mikla þegar
lands verslunin snarhækkaði kílóverð
sykurs og ágreiningur og missætti
vegna þyngdar brauðmetis auk
kökugerðarbanns snerti almúgann
illa þar sem dýrtíð og skortur var í
brennidepli.
Kartöflurækt er allra hagur
En hvað var til bragðs að taka? –
Jú, aftur, að líta sér nær. Hvað gátu
þegnar landsins lagt sér til munns?
Sátu þeir ef til vill á auðlind sem mátti
klípa af? Greinahöfundar dagblaða á
þessum tíma stinga ötullega upp á
grænmetisræktun, tínslu fjallagrasa,
fiskveiðum og þar fram eftir götunum,
auk þess sem einhverjir hneykslast á
því að innflutningur jarðepla tíðkist.
Í Morgunblaðinu árið 1917 bentu
þeir sem allra helst voru á móti
innflutningnum, á, að nú þyrfti að taka
duglega í taumana, ekkert hálfkák og
jafnvel gera það að þegnskyldu að
stunda kartöflurækt.
Í framhaldinu, í byrjun árs
1918, birtist grein í blaðinu Frey,
(forvera Bændablaðsins) þess efnis
að landstjórnin hafi ákveðið að
koma á fót kartöflurækt í stórum
stíl suður á Garðsskaga. Ráðinn
hafi verið verkstjóri og landstjórn
bæði samið um landleigu auk
þess að fela Búnaðarfélagi Íslands
alla stjórn og umsjón á þessu
„kartöfluræktunarfyrirtæki“. Búnaðar-
félagið tók málinu með mestu
röggsemi og sendi á sveitarstjórnirnar
bæklinga um matjurtarækt. Í
höfuðborginni æstust menn enn
frekar, bættu um betur og stofnuðu
kartöfluræktunarfélagið Akur með
myndarbrag.
Þó var það svo að uppskera
kartöfluræktunar þetta ár varð afar
léleg og þótti víst að hinum aðkeyptu
útsæðiskartöflum væri um að
kenna. Ekki var þetta nú á bætandi
á fullveldisárið 1918 sem er eitt hið
ótótlegasta í sögunni. Að auki við
kartöflubágindin og slagsmálin um
skömmtunarseðlana var mjólkurþurrð.
Eða í raun ekki þurrð heldur þrúgandi
verðlagning sem hafði verið hækkandi
sl. ár og olli því að ekki gátu allir veitt
sér þann munað sem mjólkursopinn er.
Hækkun mjólkurlítrans
Mikið hafði gengið á hjá almenningi
skv. Morgunblaðinu í október 1916,
enda lítil ánægja með ákvörðun
Mjólkurfélagsins (samtök kúabænda)
sem hækkaði lítrann í 36 aura, eða
um rúma tíu frá því sem áður var.
Verðlagsnefnd, sem átti að halda í
taumana á slíku offorsi, úrskurðaði
að hámarksverð á mjólk í Reykjavík
yrði ekki hærra en 32 aurar – sem fékk
þá kúabændur til að hóta því að hætta
sölu mjólkur.
Að leikslokum stóðu málin
þannig að verðlagsnefnd sagði af
sér og mjólkurlítrinn falur á 35 aura.
Mikill hiti var í málinu og einokun
Mjólkurfélagsins víða nefnd. Ný
verðlagsnefnd var sett á laggirnar
árið 1917 en þó lækkaði mjólkurlítrinn
alls ekkert heldur hækkaði bara aðeins
vegna almenns vöruskorts í kjölfar
fátíðra millilandasiglinga vegna
heimsstyrjaldarinnar.
Í reykvíska blaðinu Höfuð-
staðurinn, árið 1916, birtist grein á
forsíðunni með titlinum „Mjólkur-
kveinið“. Þar fer greinarhöfundur
mikinn og bendir á að „… börn geti vel
lifað af á hafraseyði með niðursoðinni
mjólk, um tíma, meðan fram úr þessu
er að rætast…“ (framhald bls. 34).
Mannlífið í byrjun tuttugustu aldar:
Möblur, sjókólaðe og jafnvel
þegnskyld kartöfluræktun ...
Samkvæmt tölum Manneldisráðs áttum við Íslendingar Norðurlandamet í mjólkurneyslu um aldamótin 2000.
Mynd / Wikipedia.
Fyrirtæki kepptust við að vera sem eftirsóknarverðast og þarna má sjá „Ágæta vitnisburði frá
efnafræðirannsóknarstofum“. Mynd / timarit.is
Sigrún Pétursdóttir
sigrunpeturs@bondi.is