Bændablaðið - 13.01.2022, Blaðsíða 46

Bændablaðið - 13.01.2022, Blaðsíða 46
Bændablaðið | Fimmtudagur 13. janúar 202246 Í jólablaði Bændablaðsins 16. desember skrifaði Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, innlegg í stafafuruumræðuna með titlinum „Sýnum fyrirhyggju – metum áhrif stafafuru og sitkagrenis“. Þar hvetur hann m.a. til þess að áhrif stafafuru og sitkagrenis verði metin á vísindalegum forsendum. Undir það tökum við heils hugar. Aðlögun að breyttum aðstæðum Á vegum Skógræktarinnar, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar hafa reyndar verið unnin allmörg rannsóknaverkefni sem aukið hafa þekkingu á útbreiðslu stafafuru með sjálfsáningu, áhrifum hennar á líffræðilega fjölbreytni, vexti hennar við ýmsar aðstæður, skaðvöldum sem herja á hana og framleiðslu timburs og jólatrjáa svo dæmi séu nefnd. Vísindaleg þekking okkar á stafafuru er því töluverð. Skort á þekkingu er því ekki hægt að nota sem ástæðu til að draga úr notkun hennar. Það sama á við um sitkagreni. Meðal þess sem við vitum um stafafuru er að ræktun hennar í mólendi hefur mjög svipuð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og ræktun innlends birkis. Fjöldi ljóskærra háplantna dregst saman í þéttum ungskógum (birkis, stafafuru og annarra trjátegunda), en skugg- þolnari plöntur nema land með tím- anum þegar skógarnir vaxa og gisna eða eru grisjaðir. Breyting verður á samsetningu fugla, skordýra og annarra dýra en tegundum fækkar ekki. Þar sem birki breiðist hrað- ar út en fura eða greni er vandséð út frá áhrifum á líffræðilega fjöl- breytni af hverju það sé æskilegt að rækta birkiskóga en varhugavert að rækta stafafuru eða sitkagreni. Vistkerfisbreytingar eiga sér stað við allar breytingar á landnotkun, hvort sem það er skógrækt, önnur ræktun, uppgræðsla lands, endur- heimt votlendis eða ákvarðanir um að hefja eða hætta beit. Nýjar aðstæður henta sumum þeirra tegunda sem fyrir voru illa og þær hopa en aðrar koma í staðinn með tímanum. Það er gangur náttúrunn- ar, hvort sem breytingarnar eru af mannavöldum eða ekki. Sambærilegar breytingar eiga sér nú stað á heimsvísu vegna hraðfara loftslagsbreytinga. Heimkynni líf- vera eru að breytast. Sumar lífverur eru á skömmum tíma ekki lengur vel aðlagaðar aðstæðum í heimkynnum sínum og þurfa að flytja sig til ef þær eiga að lifa af. Sumar þurfa aðstoð til þess. Þegar það gerist að ríkjandi lífverur, t.d. trjátegundir, fara að láta á sjá vegna skorts á aðlögun að breyttum aðstæðum, getur verið nauðsynlegt að koma nýjum tegundum á staðinn til að taka við af þeim. Þessi „uppgötv- un“ sem reyndar er ekki ný, virðist ekki hafa skilað sér almennilega inn í stefnu um náttúruvernd, sem virðist einkennast meira en nokkru sinni af viljanum til að ríghalda í óbreytt ástand. Ein ágengasta trjátegund jarðar? Listar yfir ágengar framandi tegundir, t.d. á vegum NOBANIS sem Tryggvi nefnir, hafa ekki sterkan vísindalegan grundvöll. Lestur á vís- indagreinum um ágengni hinna og þessara tegunda, t.d. stafafuru, leiðir í ljós ýmsa galla í aðferðafræði inn- rásarlíffræðinnar. Algengasti gallinn er sá að skilgreiningu skortir á því hvað teljist ágeng tegund. Höfundar hafa sína hentisemi með skilgrein- inguna og eru því að fjalla um mis- munandi hluti. Oftast er fjallað um útbreiðslu og útbreiðsluhraða og það látið duga sem vísbending um að tegund sé ekki aðeins slæðingur, heldur ágeng. Sjaldnast liggja fyrir niðurstöður um hvort útbreiðsla tegundar valdi skaða og nánast aldrei metið hvort hugsanlegur ávinningur vegi upp þann mögulega skaða. Listar yfir ágengar tegundir eru að mjög miklu leyti huglægir og pólitískir. Þeir eru oft undir áhrifum hagsmunasamtaka sem eiga fulltrúa í nefndum þeim sem móta listana. Þar á meðal eru fulltrúar landbún- aðar sem vilja fá styrki til að eiga við skordýr eða illgresi í ræktun, fulltrúar efnaiðnaðarins sem vilja selja lyf til að drepa þessi sömu skor- dýr og illgresi og fulltrúar náttúru- verndarsamtaka þar sem vonin um hópefli og fjárhagslegan stuðning ræður vali á óvinum. Spyrja má af hverju Landvernd hefur áhyggjur af stafafuru og sitkagreni en ekki t.d. birkikembu, birkiþélu og asp- arglittu, sem breiðast nú hratt út og valda bersýnilega skaða á birki og víði. Hvaða pólitík liggur að baki því vali á óvinum? Vísindi ráða allavega ekki för, síður en svo. Tryggvi fullyrðir í grein sinni, líkt og fleiri hafa gert að undanförnu á síðum Bændablaðsins, að „stafafuru hefur verið lýst sem einni ágengustu trjátegund jarðar“. Ekki vitum við hvaðan þessi „lýsing“ kemur né á hvaða grunni hún er byggð. Væri stafafura alkunn fyrir slíka illgres- ishegðun, hlyti tegundina að vera að finna ofarlega á listum alþjóða- samtaka yfir ágengar tegundir. Svo er ekki. Alþjóðlegu náttúruverndar- samtökin (e. International Union for Conservation of Nature; IUCN) er með slíkan lista yfir „100 verstu, ágengu framandi tegundir í heimi“ (100 of the World's Worst Invasive Alien Species; http://www.iucngisd. org/gisd/100_worst.php). Á þeim lista eru skaðvaldar, sjúkdómar, rán- dýr, grasbítar og amaplöntur. Þar er m.a. að finna heimilisköttinn, geitina og urriðann svo dæmi séu nefnd. Á listanum má finna ellefu trjátegund- ir, að mestu bundnar við hitabelti jarðar. Þar er hvorki að finna stafa- furu né sitkagreni og raunar aðeins eitt barrtré; miðjarðarhafsfuruna (Pinus pinaster), en sú fura er talin „ágeng“ sums staðar í Afríku. Ekki það að sterkari vísindi séu á bak við þann lista en aðra. Enginn samhljómur Á Íslandi er lögbundin skilgreining á framandi ágengum lífverum í nátt- úruverndarlögum, sem miðast við að þær valdi rýrnun á líf fræðilegri fjöl- breytni. Þá má reyndar fara að rífast um hvað felist í hugtakinu „rýrnun“ og hvort meta eigi hana einhliða eða samhliða ávinningi. Ljóst er að takmörkuð útbreiðsla lífveru veldur lítilli eða engri rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni, en hröð eða gríðarmikil útbreiðsla getur mögulega valdið slíkri rýrnun (ekki er það þó víst). Einhvers staðar þar á milli liggja mörkin á milli ágengra og óágengra framandi lífvera. Um hvar þau mörk liggja er enginn samhljómur, hvorki meðal vísindamanna né hjá almenningi. Því er það að uppnefna einhverja tegund „ágenga“ aðeins skoðun þess sem uppnefnir, ekki vísindi, sama hvort uppnefnarinn er einstaklingur, opin- ber nefnd eða stjórnvöld þjóðríkis. Svo vitnað sé í líffræðinginn Erick Lundgren [úr nýlegu við- tali sem lesa má hér: https://news. asu.edu/20211203-solutions-do- species-really-invade ] : „Allt sem hér er, komst hingað einhvern veginn. Orðræðan um „innlendar tegundir“ skapar þessa tilbúnu hug- mynd að það sé einhver fullkominn samræmdur heimur sem hefur alltaf verið sá sami og óumbreytanlegur, sem hefur þróast saman í milljónir ára. Þetta er bara algjör tilbúningur. Sá tilbúningur stafar af trúarlegri tilfinningu fremur en skilningi á líffræðilegum veruleika. Ég var upphaflega forvitinn, nálgaðist viðfangsefnið út frá hugmyndinni um að framandi tegundir hlytu að vera skaðlegar. En því lengur sem ég dvaldi í þessum herbúðum, því meira sem ég hugsaði um inn- rásarlíffræðina, varð niðurstaða mín sú að á bak við hana finnist enginn líffræðilegur veruleiki.“ (Þýðing greinarhöfunda.) Horfa til framtíðar Vísindaleg þekking á vistfræði- legri hegðun lífvera og kostum og göllum þeirra lífvera sem við ræktum og notum, óháð uppruna þeirra, er nauðsynleg. Á grundvelli slíkrar þekkingar er hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir um stefnu, ræktun og viðbrögð í þágu náttúru og samfélags manna. Í því sambandi er þó hvorki mögulegt né æski- legt að halda öllu óbreyttu. Meðal breytinganna sem þurfa að eiga sér stað er að landið þarf að verða betur gróið og betur klætt skógi, ekki aðeins í þágu kolefnisbindingar, matvælaframleiðslu og annarrar líf- rænnar framleiðslu í græna hagkerfi framtíðarinnar heldur líka í þágu náttúrunnar sjálfrar. Í þeim efnum vilja sumir einungis horfa til baka og endurheimta það sem glataðist, t.d. birkiskóga eða mýrar, og miða einungis við svokallaðar innlendar tegundir. Slíkt getur auðvitað átt rétt á sér sums staðar en á ekki að vera eina lausnin, ekki einu sinni ráðandi. Við þurfum að horfa til framtíðar sem væntanlega ber með sér hlýnun andrúmsloftsins um 2-4 gráður á næstu 80 árum og enn meira eftir það, sama hvernig okkur tekst til við að draga úr henni. Við gætum verið að horfa fram á 10 gráðu hlýnun eftir 200 ár ef illa tekst til. Það er þrátt fyrir allt ekki langur tími. Þá er úti um allan þorra þess gróðurs sem við könnumst við á láglendi Íslands. Eitthvað annað mun koma í staðinn, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við þurfum að laga okkur að nýjum veruleika. Aukin skógrækt á Íslandi og í heiminum öllum, með stafafuru, sitkagreni og öðrum tegundum, er viðleitni til að reyna að draga úr hraða hlýnunarinnar og gefa okkur svigrúm til að aðlagast. ÞAÐ er að sýna fyrirhyggju. Þröstur Eysteinsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson og Pétur Halldórsson Höfundar eru skógræktarstjóri, fagmálastjóri og kynningarstjóri Skógræktarinnar. Enginn líffræðilegur veruleiki Í þessum stafafurulundi í Skarfanesi í Landsveit er líffræðileg fjölbreytni mjög svipuð því sem gerist í álíka gömlum birkiskógi. LESENDARÝNI Breytingar á verðskrá RML 2022 Frá og með 1. janúar 2022 munu notendagjöld skýrsluhaldsforrita hækka. Einnig munu lægsta þrep flokks í fjárvís 1-10 gripir og lægsta þrep í jörð 0-12,99 ha. verða tekin af og tvö þrep verða því í stað þriggja í báðum forritum. Þetta er gert til að samræma verðskrá við önnur forrit s.s. Huppu þar sem engin þrepaskipting er. Kostnaður vegna reksturs forrita er nánast sá sami óháð fjölda búfjár/ha. á bak við hvern notenda. Notendagjöld af forritum hafa ekki verið hækkuð frá því að RML tók yfir rekstur forrita um áramótin 2019-2020. Frá og með 1. janúar 2022 mun verðskrá vegna niðurgreiddar útseldrar þjónustu til bænda hækka samkvæmt heimild frá ráðuneytinu sem dagsett er 24. apríl 2020, úr 8000 kr/klst í 9000kr/klst án virðisauka. Verðskrá vegna útseldrar vinnu til bænda hefur ekki verið hækkuð frá því 1. maí 2019. Verð á útseldri vinnu til annara en bænda mun hækka úr 14 þúsund kr í 16 þúsund kr/klst án virðisauka. Nýjar verðskrár má finna á vefsíðu RML, ath. linka í grein. www.rml.is/is/starfsemi/frettir/breytingar-a-verdskra-rml-2022
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.