Bændablaðið - 24.02.2022, Page 52

Bændablaðið - 24.02.2022, Page 52
Bændablaðið | Fimmtudagur 24. febrúar 202252 Þegar Ísland byggðist af land­ náms mönnum sem komu fyrir aldamótin 1000 og hófu að nema land hér var refurinn eini ábúandinn á landi. Líklega hefur hann búið hér lengi og býr hér enn ásamt fleiri landspendýrum. Maður og refur áttu ekki samleið og brátt urðu árekstrar og má segja að sífellt hafi geisað stríð á milli þeirra síðan. Meira að segja var settur refaskattur á landeigendur um að hver og einn átti að skila visst mörgum feldum miðað við bústærð. Mismikið er stríðið þó en ekki virðist sjá fyrir endann á því nema að hinir háu herrar setji lög um refaveiðar, sem banna þær. Þó er ekki víst að stríðið hætti alveg því það eru ýmsir sem þurfa að verja sína hagsmuni, t.d. æðarbændur. Hvað ætli séu drepnar margar mylkar læður og/eða refir sem eru að bera æti heim fyrir nýgotnar læður, til að vernda æðarvörpin? Það eru líka fleiri vargar í varpi heldur en tófan og þeim ber að sinna líka. Öðruvísi en fyrir 50-100 árum Í dag eru refaveiðar talsvert öðruvísi en fyrir 50-100 árum þegar menn voru með gildrur, eitur og nánast eingöngu haglabyssur. Búseta var auk þess á nánast öllum stöðum á landinu nema á bláhálendinu. Margir af þeirri kynslóð sem voru uppi á þessum tíma hötuðu tófurnar, vildu nota allar hugsanlegar aðferðir til að drepa þær. Sauðfjárræktin var að aukast, tækniframfarir að breyta búskaparháttum en samt áttu menn mikið undir hverri þeirri skepnu sem menn áttu og því var dýrt að missa kind í tófukjaft. Nær allir sem hafa séð tófu ráðast á kind, draga úr henni garnirnar, drepa vorlamb með því að mylja á því snoppuna biðja tófunni ekki vægðar, þeir fara að hata hana. Theódór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi segir svona frá ref á Hólsfjöllum: ,,Veturna 1950-1952 hafði þessi refur, drepið fyrir Sigurði, 25 ær og sauði, er úti lágu, nótt og nótt á beitarhúsum þar, nokkurra kílómetra gang, norðan við bæinn. Refurinn þráelti ærnar þar til þær gáfust upp og lögðust. Þá réðst hann aftan í þær, og reif þær á hol við endaþarminn, dró hann út, og hámaði í sig fitu, og blóð, þegar hann fékk frið til þess. Fyrir kom að kindurnar fundust lifandi, með endaþarminn blæðandi“. Auk þess segir hann frá á sömu blöðum frá gemlingum í Mývatns- sveit en svo fóru menn að bera tjöru á hálsinn á þeim til að verja þá tófubiti. ,,Vorið 1927 fundust rúmir 20 gemlingar dauðir austur á Mývatnsfjöllum, allir bitnir á barkann, sogið blóðið og svo látnir liggja. Vorið eftir fannst svo svipuð tala á sömu stöðum, fremur litlu svæði vestan við Nýja-Hraun, um og eftir rúning“ (Theódór Gunnlaugsson 1983). Afstaðan til tófunnar hefur breyst Kynslóðirnar sem á eftir komu hata ekki tófurnar og margir eru meira að segja farnir að halda að þær séu svo góðar, búið að breyta þeim í góðar persónur með barnabókum og teiknimyndasögum. Á árunum 1960-1968 þegar menn voru enn að eitra fyrir tófum og víða hafði það tekist vel fóru menn eins og Theódór á Bjarmalandi að berjast á móti eitrinu. Tófurnar sem eftir lifðu urðu harðskeyttari, að mati Theódórs, og merki um að fleiri yrðu dýrbítar (Theódór Gunnlaugsson 1967). Farnir að gera sér greni mun nær byggð en áður Refir í dag sækja meira niður í byggð og eru farnir að gera sér greni mun nær byggð en áður, hluti af því tengist meiri umferð um hálendið. Einnig eru breyttar aðstæður, meiri gróður (t.d. lúpína), meira æti og tófan er að þróast með manninum. Sigurður Ásgeirsson sagði að tófurnar væru orðnar miklu frakkari, orðnar stærri og sterkari eftir kynblöndun við búrrefi þó svo að grimmdareðlið búi áfram í honum, því verður ekki útrýmt svo auðveldlega (Sveinn Runólfsson og Jón Ragnar Björnsson 2010). Gera mikinn usla í fuglalífi Tófur gera mikinn usla í fuglalífi og á t.d. tófan ekki minni þátt í því en maðurinn að það sé lægð í rjúpnastofninum. Auk þess hafa reyndari grenjaskyttur, t.d. Friðbjörn Haukur og Sigurður Ásgeirsson, talað um aukningu í frjósemi. Áður fyrr voru þetta 2-4 hvolpar á greni en núna eru 4-7 algengir en alveg upp í 10-11 stykki. Ég ólst upp við að grenjavinnsla væri eftirsótt starf og svolítil rómantík á bak við það, liggja úti á björtum sumarnóttum en reynslan kennir manni að þetta sé oft og tíðum hörkuvinna, stundum legið samfleytt 22-36 klst. á greni (þá er enginn lögbundinn hvíldartími). Rómantíkin fer fljótt af þessu þegar veðrið versnar og aðstæður eru ekki góðar. Það má líkja þessu við smalamennskur, þegar menn eru á góðum hesti í frábæru veðri að smala er fátt skemmtilegra, en þegar gengið er á eftir fé í krapahríð og kulda fer gamanið fljótt af þessu. Sama á við um að liggja á greni, með góðan riffil, góða aðstöðu, gott nesti í 10 stiga hita á bjartri sumarnóttu og bíða eftir ref er gaman en það á við flesta veiði í góðu veðri. Fæðuþörf tófunnar er mikil Menn deila um hvort að grenjavinnsla eigi rétt á sér, bíða eftir dýrum sem eru að færa afkvæmum sínum mat, bíða við hreiðrið ef svo má segja. Hins vegar má velta þeirri spurningu upp, hvað tófa á grenjatíma heimsæki mörg hreiður á þeim tíma sem hún er að bera æti í afkvæmin. Heyrði ég eitt sinn að tófufjölskyldan þyrfti um 350-400 kg af mat til að komast upp á árinu. Með lóur, spóa, skógarþresti, endur, rjúpur og gæsir í matinn Ef unnin eru 10 greni í einu sveitarfélagi þá eru þetta 3,5-4 tonn af kjöti sem er að mestu fuglakjöt, smádýr og svo kindakjöt. Það eru ansi margar lóur, spóar og gæsir. Gerðar hafa verið athuganir á fæðu refa en þær verða ekki raktar hér. Reynslan er sú að flestar tófur og þá sérstaklega inn til landsins lifa á fugli, mófugli, öndum, rjúpu og gæs. Hef ég séð tófu í miðju gæsavarpi koma með unga frá lóu og skógarþröstum heim á greni en hún hefur valið æti eftir stærð hvolpanna. Á sama greni voru leifar af fullorðnum gæsum sem ætla má að refurinn hafi borið í læðuna þegar hún lá á ungum hvolpum. Nokkrum sinnum hef ég séð lambaleifar á greni en ekki nema einu sinni komið á greni þar sem var dýrbítur. Til er fjöldinn allur af sérfræðingum og sjálfskipuðum sérfræðingum, sjáum það best í umræðunni um Covid og bólusetningar. Við vitum oft og tíðum mun minna en við höldum og reynslan er það sem kennir okkur best, svo verðum við að læra sumt LESENDARÝNI Refaveiðar og vargeyðing Þegar kvöld er komið Kólna tekur á fjöllum Sulturinn hinn seka Af svefni dagsins vekur. Dimmir að og dimmir, Dalafólkið sefur Úr greni gægist Gamall fjallarefur. Einn má einstæðingur Upp á reginfjöllum Rekja raunir sínar Réttdræpur af öllum Theódór Gunnlaugsson (1983) Refur með dauðan gæsarunga. Mynd / Benedikt Hrólfur Jónsson „Þessi gimbur hafði lent í afvelti seint um kvöld eða um nóttina, hefur líklega ekki legið lengi þar sem þarna er stöðugt eftirlit en þó ekki um nætur. Peyinn á bænum var á ferð þarna rétt fyrir myrkur og kom svo að tveimur tófum í lambinu um níuleytið næsta morgun, ég tók því miður aðeins eina mynd eftir að hafa náð báðum dýrunum ca 45 mínútum eftir ađ guttinn hringdi. Það er alveg á kristaltæru að tófurnar komu ekki að lambinu dauðu heldur drápu það þar sem allt var í blóði ca 50-80 cm út frá höfðinu. Það hafði verið bitið annað lamb viku áður en það haði verið tekið stykki úr læri á því, það var reyndar enn þá á lífi en var drepið, það eru engar myndir til af því.“ Mynd / Sæmundur Ingvarsson Ungar sem komu úr læðukjafti í greni. Mynd / Ingvar Stefánsson Einn burður á greni, úr refskjafti. Mynd / Benedikt Hrólfur Jónsson Frá refaveiðum. Mynd / Valur Pálsson

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.