Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 31
ANDVARI
RÓBERT ABRAHAM OTTÓSSON
29
ilinu var hún húsbóndi og bankastjóri því að hvorki var eiginmaðurinn
slyngur í fjármálum né verklegum framkvæmdum og honum hætti til
að eyða um efni fram í nótnahefti, fræðibækur og listaverk. Svo fór að
lokum að Guðríður tók fjárráðin af manni sínum og skammtaði honum
mánaðarlega upphæð.54 Hún var líka húsameistarinn í hjónabandinu
þegar þau byggðu hús á Hjarðarhaga 29, þangað sem þau fluttu 1957.
Þá hafði þeim fæðst sonurinn Grétar Ottó, sem var skírður eftir föður
Róberts og föðursystur.
Ekki var síður dýrmæt vináttan sem tókst með tengdafeðgunum.
Magnús var mikill músíkmaður, hafði verið organisti og forsöngvari í
Miklaholtskirkju áður en fjölskyldan fluttist til bæjarins og samdi auk
þess lög sem sum voru sungin í Ríkisútvarpið. Þeir félagar gátu rætt
allt milli himins og jarðar og höfðu ríka kímnigáfu eins og kom í ljós
þegar þeir stofnuðu SSM, eða Samtök sjálfumglaðra mikilmenna. í þeim
félagsskap var Róbert formaður en Magnús óbreyttur meðlimur og var sú
eina krafa gerð til félagsmanna að þeir hrósuðu sjálfum sér minnst einu
sinni á dag og öðrum meðlimi einu sinni í viku.55 Má vera að þannig hafi
Róbert fengið útrás á léttlyndan hátt fyrir þreytu sína á sjálfumgleðinni
og smákóngahættinum sem ríkti í íslensku listamannasamfélagi.
Stærstu sigra sína fyrstu árin í Reykjavík vann Róbert með
Söngfélaginu Hörpu, sem hafði starfað um nokkurra ára skeið á vegum
Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur. Fram til þessa hafði gengið brösug-
lega að manna kórinn, sem hafði mestmegnis sungið á skemmtunum
á vegum félagsins. En þegar Róbert tók við stjórninni var markið sett
hátt og árið 1943 flutti kórinn ásamt Hljómsveit Reykjavíkur óratóríuna
Arstídirnar eftir Haydn í Gamla bíói. Þetta var í fyrsta sinn sem Róbert
stýrði hljómsveit á íslandi og þótti honum farast það vel úr hendi.
„Hann er skapmikill og ákveðinn stjórnandi, er veit hvað hann vill,“
sagði í einum blaðadómi.56 Enda fór svo að honum var brátt treyst fyrir
fleiri verkefnum á þessu sviði. Hljómsveit Reykjavíkur hafði um árabil
verið eini reglulegi vettvangur fyrir meiriháttar hljóðfærasamleik í
höfuðstaðnum en nú ríkti bjartsýni um að hægt væri að gera betur.
Vorið 1944 hélt Hljómsveit Félags íslenskra hljóðfæraleikara sína fyrstu
tónleika en í henni voru alls 36 spilarar, bæði meðlimir úr Hljómsveit
Reykjavíkur og kennarar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þessum
tónleikum stýrði Róbert, meðal annars fimmtu sinfóníu Schuberts,
og þóttu þeir takast vel þótt blásararnir væru venju fremur óstyrkir
þennan dag. Um hæfileika stjórnandans var ekki deilt: „árangurinn