Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 38
36
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
langa þögn. í bæði skiptin sló stjórnandinn tafarlaust af, hnyklaði
brýnnar og hrópaði: „Aftur!“79
Slíkir tilburðir komu íslenskum tónlistarmönnum í opna skjöldu
og sumir streittust á móti. A einni sýningu á Miðlinum í Iðnó urðu
smávægileg mistök í hljómsveitinni og Róbert sló af en Guðmunda
Elíasdóttir var svo djúpt sokkin í hlutverk sitt að hún söng áfram eins og
ekkert hefði í skorist. Björn Olafsson konsertmeistari tók loks af skarið
og leiddi hljómsveitina fram að hléi meðan Róbert stóð hreyfingarlaus
fyrir framan púltið og starði ýmist niður fyrir sig eða á söngkonuna, æfur
af bræði. Þegar tjaldið féll á fyrsta þátt þeytti hann frá sér taktstokknum
og rauk á dyr, svo að útlit var fyrir að enginn yrði stjórnandinn eftir hlé.
Því ríkti allnokkur taugaveiklun að tjaldabaki eins og gefur að skilja.
Að nokkrum mínútum liðnum var barið á dyrnar að búningsherbergi
Guðmundu og henni sagt að Róbert væri kominn aftur í hús: „Hann
hljóp þrjá hringi í kringum Tjörnina, en er nú alveg búinn að jafna sig!“
Þuríður Pálsdóttir getur um annað „dæmigert Abrahamsatriði“ eins og
hún kallar það. Eftir eina sýningu á Rakaranum í Sevilla neitaði Róbert
að hneigja sig með söngvurunum vegna þess að Þuríður hafði ekki
haldið einum tóni eins lengi og hún var vön.80
Margir áttu það til að misskilja slík reiðiköst, bæði samstarfsfólk
Róberts og bæjarbúar almennt. Framkoma hans þótti dæmi um hroka
og rembing listamanns sem taldi sig yfir aðra hafinn. Þó var það fremur
auðmýkt hans sem kallaði á slík viðbrögð, því að tónlistin var honum
dýrmætari en allt annað. Hann gat ómögulega sætt sig við óvandaða
meðferð á þeim meistaraverkum sem honum var falið að flytja. í heima-
högum hafði hann vanist agaðri vinnubrögðum eins og hann rifjaði upp
í blaðaviðtali á tíu ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar íslands:
Stundum verður maður kannski vondur - finnst ef til vill vanta dálítinn aga.
Hér er að ýmsu leyti annað viðhorf en víða erlendis - hér þekkja menn yfirleitt
lítið hinn „ytri“ aga, ef svo mætti segja. Það verður því að reyna að byggja á
þeim „innri“ aga, sem fólkið hefur sjálft í sér. Þar er auðvitað nokkur munur á
einstaklingum, en yfirleitt gengur þetta nú vel.81
Halldór Halldórsson, sem þekkti Róbert flestum betur, sagði að sér virt-
ist afstaða hans til tónlistar alltaf vera öðrum þræði trúarleg: „Tónlistin
var honum heilög á sama hátt og guð er heilagur trúuðu fólki,“82 Smám
saman komst tónlistarflutningur hér á hærra stig og þá fékk hárið
á höfði stjórnandans oftar frið. Guðríður var líka lagin við að lægja