Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 58
56
ÁRNl HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
Hann hafði líka gaman af að gefa hlutum og fólki ný nöfn; hann
var Úddi, hún Gríður eða Grieschen, sonurinn Tumi, heimilisbíl-
m /
arnir Mikosch (af gerðinni Tatra) og síðar Udínó (Volkswagen-bjalla).
Guðríður var bílstjórinn á heimilinu, keyrði þá fóstbræður Mikosch og
Údínó um götur bæjarins en húsbóndinn sat í farþegasætinu með skóla-
töskuna í fanginu, úttroðna af pípum og partítúrum. Hann hafði óþrjót-
andi fróðleiksfýsn og gekk sjaldnast milli staða án þess að glugga í bók;
annað hefði verið tímasóun. Sem fræðimaður var hann sískrifandi og
punktaði athugasemdir sínar niður í óteljandi gormabækur. Þær hafa
nú flestar verið afhentar Þjóðskjalasafni Islands til varðveislu ásamt
öðrum heimildum sem enn á eftir að rannsaka af kostgæfni.130
Nemendum Róberts ber saman um að hann hafi verið kennari af lífi
og sál. Hann var gæddur smitandi orku, hafði hrífandi og skemmtilega
frásagnargáfu, hafði lag á að útskýra flóknustu hluti hvort sem það
var fyrir þétt setinni kennslustofu eða fyrir heimilisfólki í eldhúsinu
á Hjarðarhaganum. Hann átti sér líka þá ástríðu að mennta alþýðu
manna, að ljúka upp undraheimum tónlistarinnar fyrir fólki sem hafði
ekki fyrr séð þangað inn. Hann gat tekið upp á því að að bjóða póst-
burðarmanninum eða skósmiðnum sem rak verkstæði skammt frá, inn
í stofu á Hjarðarhaganum og leika fyrir þá brot úr Meistarasöngvurum
Wagners eða einhverju álíka stórvirki tónlistarsögunnar.
Róbert var kröfuharður kennari. Stefán Edelstein minnist þess að
hann hafi átt það til að snúa upp á eyrað á honum þegar honum líkaði
ekki spilamennskan.131 En alltaf voru tímarnir hjá Róbert töfrastundir
og hann hafði einstakt lag á því að hvetja nemendur sína áfram með
sinni eigin hrifningu. Hann átti það jafnvel til að verða svo uppnuminn
yfir einum hljómi eða laglínu í verki sem nemendur hans höfðu stúd-
erað að hann hljóp niður til Guðríðar og linnti ekki látum fyrr en hún
hafði einnig heyrt þessa óumræðilegu fegurð. Hann var næmur á ungt
fólk og átti auðvelt með að setja sig inn í hugarheim þess og glæða
með því áhuga á tónlistinni. Hann bjó yfir óvenjulegu ímyndunar-
afli sem gat örvað huga barnsins. Þorgerður Ingólfsdóttir hafði verið
nemandi Róberts í tvö ár þegar henni barst óvænt á níu ára afmælis-
dag sinn umslag með pósti. Framan á stóð nafn viðtakanda, ritað með
fallegri handskrift og marglitum blýöntum, en á bakinu mátti lesa:
„Georg Friedrich Hándel / Himnaríki“. í umslaginu var nótnabók með
einföldum píanólögum þýska meistarans, sem lét sig framfarir íslenska
píanónemans greinilega miklu varða handan við móðuna miklu.132