Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 24
22
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
óútreiknanlegt gagn, ef starfskraftar hans fengju notið sín og menn
kynnu að meta hann réttilega.“32
Ekki leið á löngu þar til reyndi á þessi orð Askels. í september 1936
auglýsti Róbert í blöðum eftir söngfólki sem hefði áhuga á að stofna
sextán manna kammerkór, eða „ferfaldan kvartett-kór“ eins og það
var orðað. Undirtektir voru svo góðar að „Samkór Roberts Abraham“
tók til starfa síðar um haustið og efndi til sinna fyrstu tónleika í apríl
1937.33 Efnisskráin var allt annað en dæmigerð fyrir íslenskan lands-
byggðarkór, kórþættir úr miklum tónsmíðum eftir Bach, Haydn, Gluck
og Brahms, og textarnir allir þýddir á íslensku. Róbert gerði sér far um
að flytja meistaraverk sem sjaldan eða aldrei höfðu heyrst hér á landi
og þótti mörgum árangurinn undraverður á svo skömmum tíma. í maí
1938 voru fluttir kórar úr Requiem eftir Verdi og Pýskri sálumessu eftir
Brahms, meðal annars sorgargöngulagið úr síðarnefnda verkinu: „Því
mannsins hold, það er sem gras.“ Sá flutningur var svo áhrifamikill
að ungur piltur í áheyrendahópnum, Jón Þórarinsson, minntist hans
áratugum síðar þegar Róbert stjórnaði verkinu í heild og sagði að þegar
hann heyrði flutning þess kæmi túlkunin fyrir norðan sér jafnan í hug.34
Ekki var síður nýmæli að heyra Ófullgerðu hljómkviðu Schuberts eða
Coriolan- og Egmont-forleiki Beethovens leikna fjórhent á píanó af
söngstjóranum og Jórunni Norðmann en slík atriði voru fastur liður á
tónleikum kórsins.
Ýmsir voru vantrúaðir á það framan af að nýr kór með lítt þekktan
mann í fararbroddi hlyti brautargengi í bænum, því að þar voru þegar
starfandi þrír kórar og átti hver sitt, bæði hvað snerti söngvara og
stuðningsfólk: Karlakór Akureyrar, Karlakórinn Geysir og Kantötukór
Akureyrar. En smám saman óx Samkór Abrahams fiskur um hrygg,
hann hlaut inngöngu í Samband blandaðra kóra og söng nokkrum
sinnum í Ríkisútvarpið.35 Slík var eftirsóknin í að syngja í kórnum að
hann varð að endingu tvöfalt stærri en lagt var upp með, í honum voru
16 konur og jafnmargir karlar. Vinsældirnar meðal bæjarbúa voru líka
ótvíræðar; yfirleitt þurfti að endurtaka tónleikana til að anna eftirspurn
og svo mátti heita að hvert einasta lag væri klappað upp. „Viðtökur hefir
enginn kór fengið hér betri,“ sagði í einu bæjarblaðanna. Eftir tónleika
vorið 1938 fullyrti einn gagnrýnandi: „Gætu aðrir söngstjórar mikið af
honum lært,“36
Róbert varð fljótt eftirsóttur píanisti hjá söngvurum sem sóttu
bæinn heim, til dæmis Eggerti Stefánssyni og Sigurði Skagfield, en