Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 32
30
ÁRNI HEIMIR INGÓLFSSON
ANDVARI
er jafnan góður, þar sem hann er annarsvegar,“57 Síðar áttu Harpa og
Hljómsveit Reykjavíkur aftur samstarf, fluttu meðal annars Örlagaljóð
eftir Brahms og kantötu nr. 79 eftir Bach - í íslenskri þýðingu, Drottinn
er vor skjöldur, skjól - við góðar undirtektir. Einn gagnrýnandi fullyrti
að fágaður menningarblær hefði verið á tónleikunum og að hljóm-
sveitin hefði „aldrei áður verið betri en hún er núna“, jafnvel þótt kórinn
hefði ef til vill reist sér hurðarás um öxl með kantötu Bachs, ekki síst í
daufum hljómburði Trípólí-leikhússins vestur á Melum.58
Róbert hafði allt frá komu sinni til landsins verið umhugað að kynna
íslendingum tónlist sem aldrei hafði hljómað hér áður. Meðal þeirra verka
sem Harpa söng í fyrsta sinn á Islandi má nefna Maríubæn eftir endurreisn-
artónskáldið Jacob Arcadelt, sólarlofgjörð Músorgskíjs og Frau Musica,
„alþýðukantötu“ frá árinu 1928 eftir Paul Hindemith við texta Lúthers.59
Róbert taldi tónleikana marka tímamót í flutningi nýrrar tónlistar hérlendis
og skrifaði tónskáldinu stoltur að verkið hefði fundið sterkan enduróm
í fjölda áheyrenda sem aldrei hefðu fyrr heyrt neitt þvílíkt, og að við-
tökurnar hefðu komið sér ánægjulega á óvart.60 Með Hörpu vakti Róbert
einnig athygli á erlendri grundu; hann stýrði kórnum á söngmóti norrænna
alþýðukóra í Kaupmannahöfn sumarið 1946 við góðan orðstír.61
Með tíð og tíma fjölgaði verkefnunum og Róbert virtist með eljusemi
sinni og innblæstri geta töfrað músík út úr svo að segja hvaða mann-
eskju sem var. Karlakór iðnaðarmanna varð til að frumkvæði nokkurra
nemenda við Iðnskólann í Reykjavík haustið 1932 og hafði frá upphafi
starfað undir stjórn Páls Halldórssonar. Hann taldist síður en svo til
fremstu sönghópa bæjarins, en eftir að Róbert tók við taumunum var
eins og ekkert væri piltunum um megn. Að loknum fyrstu tónleik-
unum undir stjórn Róberts í janúar 1944 gat Emil Thoroddsen þess
sérstaklega að söngstjóranum hefði „tekist á skömmum tíma að gera úr
Karlakór iðnaðarmanna kór, sem er fær um að leysa hin erfiðustu verk-
efni af hendi með mestu prýði, og var þetta þó áður kór, sem virtist ekki
hafa nema miðlungs þróunar-möguleika“.62 Enn sem áður var nýnæmi
að verkefnavalinu, því að Róbert lét kórinn ekki aðeins syngja smálög
eins og áður hafði tíðkast heldur stór og metnaðarfull verk eins og Alt-
rapsódíu eftir Brahms og fangakórinn úr Fídelíó, óperu Beethovens.
Ekki var síður metnaðarfull söngskráin í Gamla bíói vorið 1947, þegar
meðal annars var sungið Uppruni eldsins (Tulen synti) eftir Sibelius og
upphaf óratóríunnar Ödipus konungur eftir Stravinskíj. Það var hvorki
meira né minna en í fyrsta sinn sem á hérlendum tónleikum heyrðist