Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 69
SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR
Dr. Hallgrímur Scheving
Frjóvgandi dögg á Bessastaðasveina
Leitast verður við í grein þessari að skoða hvaða þættir skópu manninn
og kennarann Hallgrím Scheving. Hann varð mikill áhrifamaður á málfar,
menningu og þjóðernisvitund skólapilta Bessastaðaskóla á fyrra helmingi 19.
aldar. „Þú ert nú farinn hjeðan í friði og genginn heiðri krýndur til hvíldar og
minning þín mun jafnan verða í heiðri höfð, meðan lærdómur og skyldurækt
eru hjá oss nokkurs metin, og meðan íslenzk tunga er töluð.“' Þannig hljóm-
uðu lokaorð Péturs Péturssonar biskups yfir moldum fyrrum læriföður frá
Bessastaðaskóla, Hallgríms Scheving. Hann var jarðsunginn í upphafi ársins
1862.
Hallgrímur var fæddur á Grenjaðarstað, S.-Þingeyjarsýslu, 13. júlí árið
1781, sonur hjónanna Snjólaugar Hallgrímsdóttur og séra Hannesar Scheving.
Að Hallgrími stóðu skáldmæltir og kjarnyrtir norðlenskir prestar í móður-
ætt. Afinn, Hallgrímur Eldjárnsson (1723-1779), var skáld og prestur að
Grenjaðarstað. Hann orti margt bæði á íslensku og latínu, en einna frægastur
varð hann sem andófsmaður hrossakjötsáts. Faðir hans, presturinn Eldjárn
Jónsson, var hagorður gáfumaður og móðurafi var séra Egill Sigfússon lat-
ínuskáld í Glaumbæ og ömmubróðir séra Hallgrímur Pétursson sálmaskáld.
Forfeðurnir í föðurætt voru hins vegar veraldlegir höfðingjar á Norðurlandi,
sem fengust einnig við yrkingar. Schevingar komu til íslands í lok 17. aldar
og tóku sér eftirnafn eftir þorpinu Skævinge á Sjálandi. Þeir kvæntust vel og
fengu umboð fyrir klausturjörðum og urðu margir sýslumenn. Föðurafinn,
Lárus Scheving (1723-1784), var talinn vellauðugur, hann fékk umboð fyrir
þingeyska hluta Munkaþverárklaustursjarðanna, en bjó fyrst að Urðum í
Svarfaðardal en síðar í Þingeyjarsýslum. Hann fékkst lítilsháttar við yrkingar.
Langafinn, Hannes Scheving (1694-1726) sýslumaður að Munkaþverá, var
fróðleiksmaður og hneigður til ritstarfa, en naut ekki langrar ævi. Langafinn
Björn Magnússon (1702-1766) var prestur á Grenjaðarstað eins og móður-
afinn. Hann var hagmæltur og eru bæði kvæði og sálmar eftir hann í hand-
ritum.2
Eftir nám í Hólaskóla sigldi Hallgrímur til náms í Kaupmannahöfn. Hann
lagði stund á fornu málin, grísku og latínu, og tók tvö lærdómspróf, bæði