Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 82
80
SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR
ANDVARI
búsettur í Danmörku. Tómas vildi líka gera eitthvað skemmtilegt fyrir al-
þýðuna, sem höfðu verið upphafleg áform þeirra Fjölnismanna. Þessir menn
voru afar ólíkrar gerðar og ekkert undarlegt þó þeir tækjust stundum á um rit-
stjórn Fjölnis hvað varðaði umfjöllun um menn og málefni. Þetta sama ár var
Tómas reyndar ásamt séra Þorsteini Helgasyni í Reykholti að reyna að koma
út lexikoni Hallgríms Scheving.40
Af Fjölnismönnum var Konráð helsti málfræðingurinn og mótandi um
notkun málsins. Jónasi var hins vegar leiftrandi létt um mál og nýyrðasmíði.
Benedikt Gröndal vildi samt ekki eigna þeim allan heiðurinn af endurreisn
íslenskrar tungu:
Venjulega er tekið fram, að endurreisn íslenzkunnar í seinni tíð sé Fjölni að þakka,
einkum Konráði og Jónasi, en menn gættu þess ekki, eða vilja ekki gæta þess, að
Scheving og faðir minn lögðu grundvöllinn. Scheving hafði áhrif á Konráð, en faðir
minn á Jónas, og ritháttur þeirra beggja og skáldskapur Jónasar er beinlínis kominn
fram af áhrifum þessara tveggja kennara, hinna ágætustu manna, sem þá voru uppi
og enginn hefur yfirstigið. Hér á landi voru þá einungis þessir tveir, sem héldu uppi
heiðri málsins.40
Benedikt tók stórt upp í sig og taldi að enginn hefði „yfirstigið“ Sveinbjörn
Egilsson og Hallgrím Scheving varðandi íslenska tungu. Ef til vill voru um-
mæli hans þó ekki svo fjarri lagi, því að Þórir Oskarsson og Þorleifur Hauksson
taka að mestu undir með honum í ritinu íslensk stílfrædi sem kom út árið
199441. Við upphaf nítjándu aldarinnar rann upp tímabil málhreinsunar og var
Bessastaðaskóli talinn hafa skipt sköpum varðandi íslenskt mál og íslensk-
an stíl, vegna þess að þar kenndu vandlátir málvísindamenn, Hallgrímur og
Sveinbjörn. Þeir ásamt skólasveinunum Jónasi, Konráði og Jóni Thoroddsen
hafi haft mest áhrif á stíl okkar og málfar á nítjándu öldinni.42
I mörgum ritum um Bessastaðaskóla er að finna eftirfarandi frásögn úr ævi-
minningum Páls Melsteð. Hún er gjarnan tekin til marks um áhrif Hallgríms
á nemendur að vanda málfarið og gæta að íslenskunni.
Af því sem ég heyrði stundum Dr. Scheving segja vaknaði hjá mér umhugsun um
móðurmál mitt og löngun til að vanda orðavalið. Mér er það alltaf í minni að sumarið
1829, þegar ég var á Bessastöðum og til húsa hjá Þorgrími Thomsen, var það einn
dag að kona hans, Ingibjörg, systir Gríms amtmanns Jónssonar, hafði tannverk. Hún
bað mig að fara ofaná Sjóbúðarflöt og tína sér dálítið af „mellifoliu“, sem átti að lina
tannverkinn. Eg gerði þetta, en á leiðinni heim mætti eg Dr. Scheving. „Hvað ertu
þarna með?“ segir hann. „Það er mellifolia," segi eg. „Já, veistu nú ekki annað nafn á
þessu?“ „Jú“, segi eg, „það er kallað vallhumall í Múlasýslu." „Já, eg held það sé nú
ólíkt réttara,“ segir Dr. Scheving. Með það skildum við. En eg fyrirvarð mig að hafa
brúkað orðið mellifolia.42