Rökkur - 01.10.1922, Blaðsíða 58
Á förum
Eg kem hér eins og forðum að kólguþrungnum mar,
því hvergi uni eg betur og hér fékk þráin svar
frá brimgný hafsins kalda, er bylgjan lyfti sér
og bergið úðakossana marga fékk hjá þér.
í leiðslu þar eg hlustaði nótt og nýtan dag
á niðinn, þegar aldan við bergið kvað sitt lag.
Ó, helzt eg vildi una við hafið, úfið, kalt,
þó hljóti eg nú að kveðja og þakka fyrir allt.
Þar helzt eg vildi una, því hjarta mitt er þar
og heima — aðeins þar, út við græði, fær það svar.
Eg harma reyndi ungur, en hirði lítt um það,
því hafsins söngvar gleðja og fylgja mér af stað.
í sál minni þeir búa og sorgum eyða þar
og seinast man eg ekkert af því, sem fyrr til bar,
en þykist kenna hreiminn um þel og sálargöng —
sem þagnandi brimgný frá hafsins unaðssöng.
Hvort þagnar hann alveg? Er þel mitt orðið kalt
og þrotin gleði hjartans, er forðum var mér allt?
Ó, lifðu í sál mér, þó logi hjartans und
sem lifandi minning um horfna sælustund.
Þótt fari eg víða — um fold og kaldan ver,
þá fyrnist ei það, sem eg naut í faðmi þér.
58