Rökkur - 01.10.1922, Side 83
niður á gólfið. En hann kom ekki léttilegar niður en það, að
mamma hans hlaut að hafa heyrt skellinn. Þórunn opnaði hurð-
ina inn í baðstofuna og sagði:
„Nú fer ég niður að læk, Tumi. Það er bezt þú verðir með.“
Tumi gekk hægt til hennar, sagði ekki neitt.
„Bara að hún gangi ekki út að glugganum,“ hugsaði hann, —
en Þórunn þurfti ekki svo langt. Hún sá það á svip hans, að þar
mundu liggja nokkrir dauðir flugnalíkamir. — En hún sagði ekki
neitt um það.
„Farðu fram í eldhús, taktu þvottafatið og berðu það niður
eftir. En týndu ekki blákkudósinni."
Tumi hljóp fram. —
Þórunn beið á hlaðinu, við bæjardyrnar. Sólin glóði á lækinn.
Hann var vatnsmikill, enda ekki komið langt fram á vorið. En þó
hlýindi. Dagarnir voru yndislegir. Túnið óðum að grænka. Sóleyj-
ar og fíflar komnir í hlaðvarpann. Geldingahnappar í holtin. Og
lambajarmur og folaldahnegg kvað við úti í högunum annað veifið.
Það var fallegt á Urriðalæk, því var ekki að neita. Sérstaklega
seinni hluta dags, þegar sólin var farin að færast niður undir Múl-
ann, þegar komið var undir sólarlag og geislar kvöldsólarinnar léku
sér um allt, á læknum, á firðinum — og í úðanum yfir litla foss-
inum. Þó var næstum fallegra þar um fjöruna. Eða það fannst Þór-
unni. Þá stóð hún oft aðgerðarlaus stundarkorn og horfði út á
fjörðinn. Álarnir hvísluðust um leiruna og leiruhryggirnir á milli
þeirra voru eins og bök á stórum hvölum, stórum, sofandi hvölum.
En hún stóð aldrei lengi aðgerðarlaus til þess eins að horfa á
himinblámann. Hún varð að vinna, vinna fyrir sér og drengnum
sínum. Og þó kom það fyrir — stundum — þá er hún stóð við
orfið og kvölda tók og hún var orðin þreytt, að hugurinn flaug
yfir Múlann og dvaldi um stund í kotinu, sem við hann er kennt.
Það var aldrei lengi í einu. En það kom þó fyrir. Helzt þó á
kvöldin, þegar hún gekk heim dauðlúin með hrífuna á öxlinni —
eða á vorkvöldum, þegar hún kom heim úr svarðargryfjunni. Því
hún varð að gera allt ein. Hún var einyrki. Og drengurinn henn-
ar var eini sólargeislinn í myrkri endurminninganna.--------Þau
gengu vestur túnið, vestur að læknum. Hann rann í boga fram
með því, að vestan og sunnan við það.
Tumi lagði þvottafatið niður hjá stokknum. Svo hljóp hann
upp á túnið.
83