Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 11

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 11
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 9 Viðtal Arna segist hafa mikla trú á skólaheilsugæslunni og þeim tækifærum sem þar eru til að hafa heilsueflandi áhrif á skólasamfélagið. „Þegar ég var skólahjúkrunarfræðingur í Hagaskóla fyrir nokkrum árum fékk ég einmitt tækifæri til að leiða verkefnið Heilsueflandi grunnskóli sem var á vegum Embættis landlæknis. Hagaskóli er stór unglingaskóli og voru skólastjórnendur spenntir fyrir verkefninu. Við fengum styrk úr Lýðheilsusjóði og ég fékk til liðs við mig íþróttakennara skólans, lífsleiknikennarann, kokkinn og fulltrúa frá nemendum. Í sameiningu lögðum við línurnar og settum markmið um heilsueflingu næstu ára. Þetta var uppbyggileg vinna og það tóku allir þátt. Ég held að þetta verkefni sé enn þá í gangi hjá Embætti landlæknis og hægt er að sækja um að gerast heilsueflandi grunnskóli, framhaldsskóli og jafnvel heilsueflandi samfélag. Markmið verkefnisins er að samfélagið sem um ræðir, hvort sem það er skóli, vinnustaður eða eitthvað annað samfélag, verði að betri og heilsusamlegri vinnustað fyrir alla. Unnið er með eitt þema eða verkefni á ári og yfirleitt er byrjað á næringunni, síðan er hreyfingin í brennidepli og að lokum geðræktin í sinni fjölbreyttu mynd,“ segir Arna. „Forvarnarstarf innan heilsugæslustöðvarinnar beinist, eins og fram hefur komið, með skipulögðum hætti að mæðravernd og ungbarnavernd. Forvarnir og fræðsla til skjólstæðinga okkar sem leita á heilsugæsluna með sín vandamál er rauður þráður, hvort sem vandinn er lítill eða stór. Við ræðum um heilsueflandi þætti eins og svefn, næringu og streitu og reynum að vekja löngun og áhuga hjá hverjum og einum til að bera ábyrgð á sjálfum sér og heilsu sinni. Það eru ekki bara við heilbrigðisstarfsmenn sem getum læknað, hjúkrað og lagað eins og margir hafa væntingar um. Við getum gert svo margt sjálf.“ Hvað er heilsueflandi hjúkrunarmóttaka? „Lífsstílstengdir sjúkdómar, eins og fullorðinssykursýki og offita eru að aukast. Þjóðin er að eldast og við lifum lengur og oft með fleiri en einn sjúkdóm á efri árum. Heilsugæslan þarf að bregaðst við þessari þróun og hefur þróunarhópur tekið til starfa fyrir heilsueflandi móttöku innan heilsugæslunnar undir forystu Jórlaugar Heimisdóttur hjúkrunarfræðings. Markmiðið með heilsueflandi móttöku er að samræma heildræna, þverfaglega og framvirka heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða einstaklinga með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda.“ Arna segir að hægt sé að líta á heilsueflandi móttöku sem regnhlífarhugtak yfir svo margt. ,,Sykursýkismóttakan hefur á mörgum heilsugæslustöðvum fest sig í sessi sem hluti þjónustunnar. Sýnt hefur verið fram á að með innköllun einstaklinga með sykursýki af tegund 2, fræðslu, ávísun á hreyfingu, stuðningi og hvatningu næst betri árangur. Með þessa vitneskju hafa áhugasamir hjúkrunarfræðingar tekið að sér að þróa verklag með sínu samstarfsfólki, bætt við þekkingu sína og haldið utan um þennan sjúklingahóp. Þessi vinna er í stöðugri þróun og mikilvægt er að unnið verði að því að samræma skipulag og verklag, ekki síst í skráningu þannig að hægt sé að fylgjast með árangri í meðferð við sykursýki. Uppbygging á heilsueflandi móttökum í heilsugæslunni ætti að byggja á reynslu okkar af sykursýkismóttökunni.“ Hún segir að í þeirri vinnu sem nýlega sé farin af stað í þróun á heilsueflandi móttöku verði annars vegar tekið mið af öldruðum og hins vegar einstaklingum með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda óháð aldri. „Leitast verður við að tryggja heildræna og einstaklingsmiðaða þjónustu með fjölþættum aðgerðum. Það verður spennandi að taka þátt í þeirri vinnu sem er fram undan, ekki síst hvernig við nálgumst þessa einstaklinga og skipuleggjum þjónustuna þegar vandinn er fjölþættur. Eins og fram hefur komið hef ég haldið utan um hópinn okkar á heilsugæslunni sem er með sykursýki af tegund 2. En ég hef líka í vaxandi mæli sinnt fólki sem er með offitu og sit í stjórn fagfólks um offitu vegna þess að ég vil að við hlúum betur að þessum hópi. Vandinn er viðkvæmur og úrræðin því miður ekki mörg. Við heilbrigðisstarfsfólk verðum að geta opnað umræðuna við skjólstæðinga okkar og sýnt stuðning ef viðkomandi þiggur aðstoð. Við í heilsugæslunni þurfum að styðja betur við einstaklinga með offitu. Í móttökuna okkar koma einstaklingar, jafnvel viku- eða hálfsmánaðarlega, til að fá stuðning. Mörgum tekst með slíkum stuðningi að ná góðum tökum á sínum sjúkdómi, sérstaklega ef vandinn er ekki orðinn stór. Heilsugæslan er fyrsta stigið í þessari þjónustu en okkur vantar sárlega úrræði að vísa í þegar á þarf að halda. Biðlistinn á Reykjalund er langur og þangað fara eingöngu þeir sem verst eru staddir. Offita hjá börnum er líka heilsufarslegt vandamál sem þarf að sinna betur innan heilsugæslunnar með markvissum stuðningi við barnið og foreldra þess. Það er óásættanlegt að fordómar í samfélaginu komi í veg fyrir að foreldrar þiggi stuðning áður en vandinn fer að hafa neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu barnsins. Það þarf vitundarvakningu í samfélaginu til að hægt sé að nálgast sjúkdóminn offitu eins og aðra sjúkdóma. Þarf að koma með tilvísanir í þessar móttökur? „Ég fæ flestar tilvísanir í sykursýkismóttökuna og lífsstílsmóttökuna frá læknum stöðvarinnar. Það er oftast búið að vinna upp skjólstæðinginn, taka blóðprufu og taka góða heilsufarssögu. Þar með er viðkomandi kominn á lista í móttökunni hjá okkur. Ég reyni að bjóða fyrsta viðtal innan tveggja til þriggja vikna frá greiningu og eru flestir mjög jákvæðir fyrir því að koma. Við tökum nákvæma fæðissögu og förum yfir hvar væri hægt að gera betur. Sumir fara beint á lyf, á meðan aðrir, vilja láta reyna á að taka lífsstílinn föstum tökum. Eftirlitið í framhaldinu ræðst svolítið af því hvernig gengur í byrjun. Sjúkraþjálfarinn okkar sem sér um hreyfiseðlana hittir einstaklinginn oftast á svipuðum tíma. Þetta er teymisvinna, læknis, hjúkrunarfræðings og sjúkraþjálfara. Við reynum að taka vel utan um skjólstæðinginn og koma hans málum í farveg. Svo er það einstaklingsbundið hvað fólk þarf mikla þjónustu.“ Hvað með heilsueflandi hjúkrunarmóttöku fyrir fólk með andleg veikindi? ,,Í þessu módeli um heilsueflandi móttöku sem við ræddum áðan er ekki talað sérstaklega um einstaklinga með geðraskanir, sem er miður, en vonandi verður það í framtíðinni,“ segir Arna að endingu og við þökkum henni fyrir upplýsandi viðtal.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.