Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Side 47
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 45
Þrýstingssár
RAI-mat og Bradenkvarði
Bradenkvarði (því færri stig því verra), sem mælir áhættuþætti
þrýstingssára, er innbyggður í Sögu, rafræna sjúkraskrárkerfið
sem notað er á mörgum heilbrigðisstofnunum. Bradenkvarði
byggir á sex áhættuþáttum; hreyfigetu, virkni, næringu,
skyntilfinningu, raka og núningi. Sjúklingum eru gefin stig á
bilinu 6 til 23. Ef stigafjöldi er undir 18 telst það vísbending
um aukna áhættu fyrir sáramyndun. Mælitækinu fylgja
leiðbeiningar um fyrirbyggjandi aðgerðir eftir áhættu
kvarðans (Bylgja Kristófersdóttir, 2016).
Á öllum hjúkrunarheimilum á landinu fer fram gagnasöfnun
þrisvar á ári með notkun RAI-mælitækisins MDS 2.0 (Minimum
Data Set). RAI-mat (raunverulegur aðbúnaður íbúa) metur
heilsufar allra íbúa og hjúkrunarþörf þeirra. Jafnframt er
metið ef veruleg breyting verður á heilsufari. Mælitækið tekur
til tæplega 400 atriða og reiknar m.a. vísbendingar um gæði í
gæðavísum, þar á meðal hversu algeng þrýstingssár eru. Með
RAI-mati og Bradenkvarða má greina hvort ástand húðar er í
hættu og grípa strax til viðeigandi ráðstafana.
Margvíslegir kvarðar segja til um heilsufar og færni íbúa og
árangur hjúkrunar. RAI-mat styður við lausn vandamála í anda
hjúkrunarferlisins og hefur forvarnargildi. Hugmyndafræðin,
sem RAI-mælitækið byggist á, hvetur til þátttöku íbúa og
fjölskyldu hans í ákvarðanatöku.
Notkunarmöguleikar RAI-gæðavísa til stöðugra umbóta
innanhúss eru fjölmargir. Einnig ýta þeir undir umræður út á
við um gæði þjónustunnar. Þiggjendur þjónustunnar meta
hvort þetta ákveðna hjúkrunarheimili uppfyllir kröfur þeirra.
Stjórnendur þjónustunnar geta metið hvort því gæðastigi sem
þeir vilja veita er náð. Veitendur þjónustunnar meta hvort þeir
eru sáttir við vinnuskilyrðin, hvort þau fullnægja óskum þeirra
um gæðastig.
Sjúkdómstilfelli – dæmi
Kona, sem fædd er árið 1935, flutti á Sóltún eftir
heilablæðingu. Hún er með helftarlömun, gaumstol til vinstri
og skynskerðingu. Hún er með veikt hjarta, gigt, sykursýki
og í yfirvigt. Hún er með bjúg á vinstri hendi og á fótum og
oft með verki í vinstri líkamshluta. Hún þarf alla aðstoð við
athafnir daglegs lífs, aðstoð tveggja starfsmanna og lyftu til
að fara úr rúmi í stól. Hún nær að sitja í einn til tvo tíma í senn,
getur borðað sjálf ef lagt er á borð fyrir hana og notar bleyju
allan sólarhringinn. Hún er með elliglöp, fékk 20/30 á MMSE
(Folstein, o.fl, 2001). Hún er með 11 stig á Bradenkvarða.
Forvarnir
Best er að koma í veg fyrir sár. Það skiptir máli að fylgjast
með húð sjúklingsins í hvert skipti sem honum er hagrætt
eða snúið og að vanda val á rúmdýnum og sessum í
stólum. Þrýstingsdreifandi undirlag (loftdýnur) og dýnur
úr sérstökum svampi og aðgerðir til að bæta næringu skila
árangri (Landspítali, 2008; Allen,1997). Betri rúmdýnur skila
þó ekki tilætluðum árangri ef sjúklingum er snúið sjaldnar
en áður. Forvarnir þurfa að vera einstaklingsmiðaðar og
byggjast á þekkingu og fræðslu til alls fagsfólks í þverfaglegri
teymisvinnu. Mikilvægt er að allir í meðferðarteyminu séu
árvökulir og virkir þátttakendur, þar með taldir sjúklingar og
aðstandendur. Góð samskipti og samvinna er þar nauðsynleg.
RAI-mat:
Stuðlar að bættri hjúkrun sjúklinga með því að
skipulagt mat á heilsufari og hjúkrunarþörfum
fer reglulega fram:
Er stöðluð, nákvæm og viðamikil
upplýsingasöfnun
Felur í sér leiðbeiningar til greiningar á
vandamálum
Er hluti af daglegri og stöðugri
upplýsingasöfnun og eftirliti með sjúklingum
Skýringarmynd af þrýstingssári