Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 62

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 62
60 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 97. árg. 2021 sköpunargáfu starfsmannsins. Í öðru lagi leitast hinn þjónandi stjórnandi við að efla færni og sjálfsþekkingu sína í gefandi og markvissum samskiptum. Vitund um eigin orð og athafnir ásamt mögulegum áhrifum þeirra á aðra eykur sjálfsvitund og sjálfsöryggi. Gott en hóflegt sjálfsöryggi er forsenda auðmýktar og hógværðar sem veitir svigrúm og tækifæri fyrir hugmyndir og sköpunargáfu annarra. Í þriðja lagi hefur hann skýra framtíðarsýn, hugsjón og þekkir tilgang starfsins. Skýr framtíðarsýn gefur hinum þjónandi stjórnanda forskot sem er forsenda þess að hann geti tekið forystu og borið ábyrgð á verkefnum sínum. Heildræn nálgun í starfi stjórnanda er undirstaða ábyrgðar og aga sem eykur möguleika hans á því að sjá tækifærin sem gefast hverju sinni (Greenleaf, 2008). Mikilvægt er að stjórnandi sýni ábyrgð á sjálfum sér og hafi getu til persónulegra breytinga, hverjar sem þær geta verið. Leiðtogahlutverkið felur í sér að vera hluti af hópnum auk þess að halda hópnum skipulögðum og vel starfandi. Þessi staða krefst þess að stjórnandinn hafi ábyrgðartilfinningu og næmni gagnvart þörfum bæði hópsins og einstaklinga innan hans (Kovač o.fl., 2017). Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir (2013) gerðu þversniðsrannsókn á viðhorfi starfsfólks á Íslandi gagnvart þjónandi forystu á vinnustað. Þátttakendur voru alls 1.683 talsins og unnu á nokkrum mismunandi vinnustöðum innan heilbrigðis- og skólakerfisins og í viðskiptalífinu. Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar var sett fram tillaga að líkani sem getur auðveldað skilning á hugmyndafræði þjónandi forystu og sýnir samhengi lykilþátta hennar. Líkanið byggist á þremur lykilatriðum sem leggja bæði áherslu á þjónandi þætti og stjórnunarþætti í þjónandi forystu. Fyrsta og annað lykilatriðið er einlægur áhugi á högum annarra og innri styrkur sem er lýsandi fyrir þjónandi þáttinn. Þriðja lykilatriðið er hæfileikinn til að sjá til framtíðar, sem undirstrikar áherslu á stjórnunarþáttinn. Allir tengjast þættirnir svo saman og eru teiknaðir í þremur hornum þríhyrnings sem snýr á hvolfi (sjá mynd 1). Það sem tengir lykilatriðin saman er vilji til að þjóna öðrum með jafningja brag og auðmýkt sem leggur grunn að sameiginlegri hugsjón og samfélagslegri ábyrgð. Þessi lykilatriði eru jafnframt helstu einkennismerki þjónandi forystu (Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013). Mælitæki fyrir þjónandi forystu Dirk van Dierendonck (2011) setti fram líkan sem lýsir eiginleikum þjónandi stjórnanda en það leggur áherslu á bæði þjónandi þátt og stjórnandaþáttinn. Samkvæmt líkaninu er þjónandi stjórnandi eflandi og vill sjá starfsmenn eflast og þroskast í starfi (e. empowering and developing people). Hann sýnir auðmýkt (e. humility) og hógværð, er sanngjarn og falslaus (e. authenticity). Þjónandi stjórnandi sýnir einnig fyrirgefningu (e. interpersonal acceptance), veitir leiðsögn (e. providing direction) og hefur samfélagslega ábyrgð (e. stewardship). Jafnframt veitir hann starfsfólki tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku, kemur vel fram við starfsfólk sitt og bregst við persónulegum þörfum þeirra (van Dierendonck, 2011). Ýmis mælitæki hafa verið þróuð út frá líkani Dirk van Dierendonck með það að markmiði að mæla ávinning sem hlýst af þjónandi forystu. Könnun á þjónandi forystu (e. Servant leadership survey) er þeirra þekktast (Smith o.fl., 2016). Um er að ræða spurningalista sem leiðir í ljós að hve miklu leyti þjónandi forysta er til staðar innan skipulagsheilda. Mældir eru átta undirþættir sem endurspegla viðhorf og eiginleika hins þjónandi leiðtoga (Smith o.fl., 2016; van Dierendonck, 2011). Hver þáttur fyrir sig er metinn ásamt því að heildarstigafjöldi er tekinn saman. Þannig getur notkun spurningalistans gefið til kynna að hve miklu leyti þjónandi forysta er til staðar og hversu veigamikið hlutverk hver undirþáttur leikur (Kristín Þórarinsdóttir o.fl., 2020). Niðurstöður geta nýst stjórnendum til að sjá hvað vel er gert og hvað betur megi fara þegar kemur að þeirra stjórnunarháttum. Þannig má stuðla að farsælli stjórnun innan vinnustaðar en ella (Smith o.fl., 2016). Könnun um þjónandi forystu má einnig nota samhliða öðrum spurningalistum til að meta áhrif þjónandi forystu á ákveðna þætti, svo sem starfsánægju (Kristín Þórarinsdóttir, 2020). Þjónandi forysta í heilbrigðiskerfinu Íslenskir stjórnendur hafa í auknum mæli tamið sér hugmyndafræði þjónandi forystu, bæði í heilbrigðiskerfinu og í viðskiptalífinu (Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015; Kristín Þórarinsdóttir o.fl., 2020; Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Mynd 1. Líkan sem sýnir samhengi þriggja lykilatriða þjónandi forystu (Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013) Einlægur áhugi á högum annarra Sjálfsþekking Vitund Framtíðarsýn Hugsjón Ábyrgð Jafningjabragur Auðm ýkt Vilji til að þjóna Þjónandi forysta: Árangursrík stjórnun í heilbrigðisþjónustu

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.