Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 64

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 64
62 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 97. árg. 2021 hjúkrunardeildarstjóra á Íslandi stoðkerfisverki og stór hluti þeirra er oft eða alltaf andlega úrvinda eftir vinnudaginn. Þrátt fyrir mikla persónulega skuldbindingu og ábyrgð í starfi er starfsöryggi hjúkrunarstjórnenda ekki mikið og launin ekki talin fullnægjandi (Cabral o.fl., 2018). Með því að tileinka sér þjónandi stjórnunarhætti geta stjórnendur á hjúkrunarsviðum aukið starfsánægju og uppfyllt þörf sína fyrir að gefa af sér í starf. Því meiri stuðning sem hjúkrunarstjórnendur veita við persónulegan og faglegan þroska starfsmanna sinna (e. developing others), þeim mun ánægjulegra og gefandi upplifa þeir starf sitt (Farrington og Lillah, 2019). Starfsánægja og upplifun hjúkrunarfræðinga af þjónandi forystu Öll viljum við vinna á stað þar sem okkur líður vel og þar sem við erum ánægð í vinnunni. Starfsánægja er mikilvæg ekki aðeins því starfsfólk eyðir stórum hluta ævi sinnar í vinnunni. Einnig vegna þess að ánægðu starfsfólki fylgir aukin afkastageta, aukin gæði í starfi og betri árangur starfseininga (Heilbrigðisráðuneytið, 2020). Í nýlegri starfendarannsókn Yektatalab o.fl. (2021) var leitast við að koma auga á og takast á við áskoranir varðandi starfsánægju hjúkrunarfræðinga. Í ljós kom að ákveðnir þættir líkt og námsframboð, streita í starfi og vöntun á tækjabúnaði hafði áhrif á starfsánægju. Takmarkað framboð afþreyingar og samveru utan vinnu fyrir hjúkrunarfræðinga var einnig tengt starfsóánægju. Þættir eins og mannauðsstjórnun, stjórnun skipulagsheildar og skortur á faglegu starfi höfðu jafnframt mikil áhrif. Eftir að búið var að greina þær áskoranir sem stóðu í vegi fyrir starfsánægju hjúkrunarfræðinga, settu þátttakendur, í samvinnu við rannsakendur saman áætlun um breytingar. Marktækur munur var á starfsánægju hjúkrunarfræðinga eftir breytingarnar. Niðurstöður benda því til þess að hjúkrunarfræðingar og stjórnendur geti í sameiningu stuðlað að aukinni starfsánægju og það án aukins tilkostnaðar. Það er þó ekki þannig að allar breytingar sem snúa að starfsánægju séu á valdi starfsmannanna sjálfra. Líkt og fram kom í rannsókn Yektatalab o.fl. (2021) er stjórnunarstíll einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á starfsánægju. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þjónandi stjórnunarstíls á starfsánægju hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins (Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015; Kristín Þórarinsdóttir o.fl., 2020; Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013). Því fleiri eiginleika þjónandi forystu sem næsti yfirmaður hefur tamið sér, því meiri starfsánægju upplifir starfsfólk (Kristín Þórarinsdóttir o.fl., 2020; Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013). Vísbendingar eru um að vægi hvers eiginleika fyrir sig sé misjafnt en rannsóknum ber ekki saman um hvaða eiginleikar hafa mestu áhrifin. Áætla má því að nokkur breytileiki sé á þörfum hjúkrunarfræðinga á milli skipulagsheilda en ljóst er að stjórnandi getur spilað lykilhlutverk í starfsánægju þeirrra (Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015; Kristín Þórarinsdóttir o.fl., 2020). Erlendar rannsóknir leiða slíkt hið sama í ljós. Farrington og Lillah (2019) sýndu fram á að starfsmenn sem upplifa stjórnendur veita stuðning við persónulegan og faglegan þroska sinn (e. developing others) voru ánægðari í starfi. Einnig kom fram að ef starfsmenn upplifðu vinnuveitanda bera hag annarra fyrir brjósti (e. caring for others) upplifðu þeir meiri ánægju í starfi (Farrington og Lillah, 2019). Þjónandi forysta hefur áhrif á líðan starfsmanna og yfirmanna. Hanse o.fl. (2016) sýndu auk þess fram á að slíkur stjórnunarstíll hefði áhrif á samband milli yfirmanns og undirmanns. Í rannsókninni eru skilgreindir fimm þættir þjónandi forystu; efling (e. empowerment), ábyrgð (e. accountability), forgangsröðun í þágu annarra (e. standing back), auðmýkt og samfélagsleg ábyrgð. Rannsóknin leiddi í ljós að allir þessir fimm þættir höfðu í raun marktækt jákvæð áhrif á samband milli yfirmanns og starfsmanns. Efling hafði þó sterkustu áhrifin þar á (Hanse, o.fl. 2016). Sömu niðurstöður hafa fengist í íslenskri rannsókn sem framkvæmd var á Sjúkrahúsinu á Akureyri (Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015) sem og í doktorsrannsókn Mitterer (2017). Auðmýkt, samskiptafærni og hvatning voru eiginleikar yfirmanna sem tengdir voru starfsánægju og minni starfsmannaveltu í rannsókn Mitterer (2017). Rannsókn Gunnarsdottir (2014) sýndi fram á að mikilvægt er fyrir hjúkrunarfræðinga í stjórnunarstöðu að hvetja starfsfólk sitt og veita því greiðan aðgang að upplýsingum og auðlindum. Einnig að gæta þess að umhverfið og vinnustaðamenningin hvetji til lærdóms, þróunar í starfi og þátttöku í ákvarðanatöku. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu líka að starfsfólk metur það mikils að leiðtogi sé áreiðanlegur og traustur (Gunnarsdottir, 2014). Það að hvetja starfsmenn sína í persónulegum og faglegum þroska er eitt af einkennum leiðtoga sem vinnur með hugmyndafræði þjónandi forystu að leiðarljósi (van Dierendonck og Nuijten, 2011). Í íslenskri rannsókn Sveinsdóttir o.fl. frá árinu 2016 voru skoðuð tengsl á milli starfsánægju hjúkrunarfræðinga og hve oft þeim var hrósað af yfirmanni. Í tæplega þriðjungi tilfella sögðust hjúkrunarfræðingar hafa fengið hrós oft eða mjög oft. Þegar sá hópur var borinn saman við þá hjúkrunarfræðinga sem fengu sjaldan eða mjög sjaldan hrós kom í ljós aukin starfsánægja hjá þeim sem fengu hrós. Hópnum sem var hrósað taldi sig almennt hafa fleiri tækifæri til að þroskast faglega í starfi. Sá hópur lýsti jákvæðara andrúmslofti á vinnustaðnum sem væri afslappandi, þægilegt og sveigjanlegt. Þeim hjúkrunarfræðingum sem var hrósað meira voru skuldbundnari vinnustaðnum og stoltir af honum. Einnig voru þeir tilbúnir til að leggja aukalega á sig með hag deildarinnar og sjúkrahússins fyrir brjósti (Sveinsdóttir o.fl., 2016). Tekin voru viðtöl við tíu starfsmenn á vinnustað þar sem þjónandi forysta var notuð, í ljós komu tvö meginþemu. Annað þemað var að þátttakendum þótti ábyrgð í starfi vera mikilvægur þáttur í þjónandi forystu. Hitt meginþemað var að starfsfólk sýndi umhyggju og hjálpsemi gagnvart öðrum. Starfsfólki fannst það bera ábyrgð innan skipulagsheildarinnar og hafði metnað til að ná fram eigin markmiðum, sem og stofnunarinnar. Jafnframt upplifði það að þeim væri treyst til þess að vinna vinnuna sína vel. Einnig treysti starfsfólk næsta yfirmanni til að taka ákvarðanir til að fá fram bestu mögulegu útkomu fyrir starfsfólkið sjálft og fyrirtækið (Ragnarsson o.fl., 2018). Þjónandi forysta: Árangursrík stjórnun í heilbrigðisþjónustu

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.